14.12.1973
Efri deild: 36. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1430 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

94. mál, lyfjaframleiðsla

Frsm. minni hl. (Auður Auðuns) :

Herra forseti. Eins og fram hefur komið, hefur n. ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa frv. Við hv. 3. þm. Reykn., Axel Jónsson, skilum sérnál. á þskj. 246, og við leggjum til. að frv. verði afgr. með rökstuddri dagskrá.

Frv. þetta fjallar annars vegar um almenn ákvæði um lyfjaframleiðslu, en hins vegar um stofnun sameiginlegs fyrirtækis ríkis og einkaaðila um lyfjaframleiðslu.

Hin almennu ákvæði um lyfjaframleiðslu eru í 1. kafla frv. Í IX kafla gildandi lyfsölulaga, nr. 30 frá 1963, nánar tiltekið í 50. gr. þeirra l., er að finna ákvæði, sem að verulegu leyti eru efnislega þau sömu og í I. kafla þessa frv. Það verður ekki séð, að út af fyrir sig sé nein nauðsyn að lögfesta þær breytingar, sem æskilegt er talið að gera á umræddri grein lyfsölulaganna, — lögfesta þær með nýjum l., heldur eðlilegt og ætti að vera í lófa lagið að gera þær breytingar á 50. gr. lyfsölul., sem þurfa þykir vegna þeirrar þróunar, sem orðið hefur, síðan þau l. voru sett.

Að öðru leyti fjallar frv., eins og áður sagði, um heimild til handa ríkinu til að gerast aðili að stofnun fyrirtækis um lyfjaframleiðslu ásamt einkaaðilum, þ. e. a. s. lyfsölum og lyfjafræðingum. Í frv. eru slíku hugsanlegu fyrirtæki í veigamiklum atriðum ákvörðuð lög, þ. á m. eignarhlutföll og stjórn fyrirtækisins. Þar sem ætlunin er að leita sameigna við einkaaðila um stofnun fyrirtækis, væri eðlilegt, að sú samningsgerð væri ekki fyrir fram ákveðin í l. í þeim atriðum, sem ætla má, að mestu máli skipti, ef verulegur áhugi er á því, að samkomulag náist.

Í grg. með frv. um lyfjaframleiðslu frá síðasta þingi, sem nú er visað til, segir, að þegar hafi farið fram viðræður um stofnun sameiginlegs fyrirtækis. Þær eru þar nefndar undirbúningsviðræður við fyrirtækið Pharmaco, en Pharmaco mun vera langöflugasta lyfjaframleiðslufyrirtæki hér á landi í einkaeign, en að því standa velflestir lyfsalar landsins ásamt lyfjafræðingum.

Í grg. með frv. frá því í fyrra segir svo í aths. á bls. 7: „Lyfjamálanefnd átti viðtal við forsvarsmenn Apótekarafélags Íslands, Lyfjafræðingafélags Íslands og Pharmaco h/f. Létu þessir aðilar í ljós áhuga á miðskipan lyfjaframleiðslu. Í framhaldi af þessu sendi n. Pharmaco h/f og Apótekarafélagi Íslands skrifleg erindi, þar sem óskað var eftir viðhorfum þessara aðila til stofnunar sameiginlegs fyrirtækis lyfsala og ríkisins, sem ríkið ætti meiri hluta í eða minnst 51%, og stjórnaraðild væri í samræmi við það. Pharmaco vísaði m. a. til bráðabirgðagrg. undirbúningsnefndar Apótekarafélags Íslands frá 1967, þar sem gert er ráð fyrir, að ríkið ætti 20% hlutafjár. Í svarbréfi Apótekarafélags Íslands fólust jákvæðar undirtektir, en tekið fram orðrétt, „að algert skilyrði slíkrar félagsstofnunar yrði að vera, að enginn einstakur aðili eignaðist meiri hluta í félaginu, þannig að tryggð sé á hverjum tíma lýðræðisleg stjórn félagsins.““

Í þessari tilvitnuðu grein úr grg. frá í fyrra ætla ég, að komi fram viðhorf þessara aðila til eignarhlutfallaákvæða frv. Ég held, að það megi vera ljóst, að hvorki Pharmaco né Apótekarafélagið hafi óskað eftir flutningi frv. í þeirri mynd, sem það liggur hér fyrir, hvorki nú né í fyrra. Í frv., sem lá fyrir siðasta þingi, voru eignarhlutföllin ákveðin þannig, að ríkið ætti helming í hinu sameiginlega fyrirtæki, en nú er í 6. gr. kveðið svo á, að ríkið eigi minnst helming. Satt að segja sýnist sú breyting ekki líkleg til að greiða fyrir samkomulagi.

Það hefur verið á það bent, að hér starfi a. m. k. 3 lyfjaframleiðslufyrirtæki auk Pharmaco, sem eitthvað kveði að, nánar tiltekið Bristol hf. í Reykjavík, Echopharm, Akureyri og Stefán Thorarensen hf. í Reykjavík. Hefur ekkert samband verið haft við þessa aðila, og eins og ég skal koma að síðar, má búast við, að þessi fyrirtæki, sem minni eru í sniðum, muni með tilkomu enn öflugri fyrirtækja en nú eru fyrir hendi eiga erfitt með að selja framleiðslu sína og þannig allar líkur til, að þau þurfi að rífa seglin eða jafnvel leggja niður starfsemi sína. Má nærri geta, að þau mundu þá verða fyrir fjárhagslegu tjóni og tækjakostur þeirra jafnvel ónýtur og verðlaus.

Það eru skiptar skoðanir um, hvort æskilegt sé, að innlend lyfjaframleiðsla sé í einu fyrirtæki, og þar koma m. a. til greina öryggissjónarmið. Í skýrslu dr. Kjartans Jóhannssonar frá febr. þessa árs, sem unnin var fyrir ráðh., segir t. d. um þetta atriði á bls. 72 orðrétt svo: „En sé lögð áhersla á öryggissjónarmið, mæla þau gegn algjörri miðskipan framleiðslu í einu fyrirtæki.“

Þó að með þessu frv. sé ekki stefnt að einkarétti til lyfjaframleiðslu, mun almennt álitið, að framleiðsla, sem nú er rekin í smáum stíl, muni smám saman leggjast niður að mestu með tilkomu öflugri fyrirtækja, enda þróunin orðin þegar í þá átt.

Þá hefur einmitt í sambandi við öryggissjónarmið verið vakin athygli á því ástandi, sem skapaðist, þegar eldsvoði varð í Lyfjaverslun ríkisins, þ. e. framleiðsludeild þess fyrirtækis, sem leggur megináherslu á að mæta þörfum sjúkrahúsa og héraðslækna, og starfsemin þar lagðist niður um skeið. Þá voru aðrir aðilar hér á landi, sem gátu hlaupið undir bagga og tekið að sér að framleiða það, sem til þurfti, eða útvega erlendis frá það, sem ekki var hægt að framleiða hér. Þetta er vissulega atriði, sem einnig er vert að hafa í huga í sambandi við öryggissjónarmið. Þá er rétt að vekja athygli á því, sem kemur fram allgreinilega í grg. með frv. í fyrra, að lyfjaeftirlitinu, sem ríkið hefur með höndum, virðist vera býsna ábótavant, og væri ekki vanþörf á, að það yrði eflt, svo að það næði betur tilgangi sínum.

Varðandi lækkun verðs með tilkomu slíks sameiginlegs fyrirtækis, þá verð ég að segja, að það er meira en vafasamt, að ríkisíhlutun um lyfjaframleiðsluna verði til þess að lækka lyfjaverðið. Íhlutun og afskipti ríkisins af lyfjaversluninni í Svíþjóð og að nokkru leyti, en þó ekki miklu, af lyfjaframleiðslu þar, benda vissulega ekki í þá átt. Í Svíþjóð yfirtók hlutafélag, sem er að 2/3 hlutum eign ríkisins og að 1/3 hluta eign apótekara, alla smásölu lyfja í landinu árið 1971 og með þeim árangri, að lyfjaverð hækkaði verulega, og hefur valdið bæði mikilli gagnrýni og óánægju.

Ég held, að það væri affarasælla fyrir alla, ef ríkið beindi heldur áhuga sínum að því að efla lyfjaeftirlitið og að efla sitt eigið fyrirtæki, Lyfjaverslun ríkisins, sem, eftir því sem kemur fram í margnefndri grg., býr við afar slæmar aðstæður. Það væri áreiðanlega affarasælla, að ríkið sneri sér að því og að öðru leyti greiddi fyrir framleiðslu einkaaðila, því að það er vitað mál, að t. d. Pharmaco, sem hefur þó gert mjög myndarlegt átak og m. a. hefur komið upp mjög fullkominni rannsóknarstofu í sínu fyrirtæki, hefur ávallt átt við lánsfjárörðugleika að stríða, og væri uppbyggingu þess eflaust lengra á veg komið, því að til þess er fullur vilji, ef ekki hefði lánsfjárskortur háð fyrirtækinu.

Ef af hálfu ríkisvaldsins er áhugi á því að leita samninga við einkaaðila um stofnun sameiginlegs fyrirtækis um lyfjaframleiðslu, þarf ekki til þess neina löggjöf, að slíkir samningar séu hafnir og reynt til þrautar að ná samkomulagi. Það hefur komið fram hér í umr., að það væri mikill áhugi hjá einkaaðilum á stofnun slíks sameiginlegs fyrirtækis, sem sé þó með vissum skilyrðum. Það er kannske annað að ganga til frjálsra samninga við ríkið eða eiga yfir höfði sér stjfrv. eða lög, sem í meginatriðum binda hendur manna um, hvernig samningsgerðin geti orðið. Ég sé því ekki, að það séu nokkur rök til þess, að nauðsyn sé til að lögfesta ákvæðin um stofnun sameiginlegs fyrirtækis á þessu stigi.

Þá má í sambandi við hugsanlega aðild ríkisins að slíku fyrirtæki benda á, að ekki liggja fyrir neinar kostnaðaráætlanir. Það er alveg rennt blint í sjóinn með það, hvað þetta muni kosta ríkið. Ég vil vekja athygli á ákvæði, sem er í 7. gr. frv., 2. tölul., en í þeirri gr. er skilgreindur tilgangur fyrirtækisins. Í tölul. 2 stendur: „Að stunda tilraunir og rannsóknir með það fyrir augum að framleiða sérlyf.“ Þessi gr. er samhljóða 3. gr. frv. frá því í fyrra, og um hana segir í aths. þá um einstakar greinar á bls. 8:

„Önnur framleiðsla en sú, sem um er getið í fyrstu tilgangssetningu, mundi falla undir skilgreiningu sérlyfja, og er gert ráð fyrir grundvallar- og þróunarrannsóknum m. a. í því augnarmiði að framleiða hérlendis sérlyf fyrir innlendan og jafnvel erlendan markað.“

Í þeim plöggum, sem fyrir hafa legið í n., er m. a. á það bent, að til þess að annast slíkar grundvallar- og þróunarrannsóknir þurfi að koma upp rannsóknarstofum, sem óhjákvæmilega kosti of fjár, og í því sambandi nefnd hundruð millj. kr. Þetta er aðeins til að benda á, að kostnaðaráætlanir liggi hér engar fyrir, og óséð, hvernig þær mundu verða, þegar öll kurl væru komin til grafar.

Þá er í 15. gr. frv. ákvæði þess efnis, að ef ekki takist samningar, þá skuli ríkinu skylt að annast þá lyfjaframleiðslu, sem hinu sameiginlega fyrirtæki hefði ella verið skylt að annast. Nú hefur Lyfjaverslun ríkisins, eins og kunnugt er, um langt skeið rekið lyfjagerð, þar sem megináhersla hefur verið lögð á að mæta þörfum sjúkrahúsa og héraðslækna. Ríkisvaldið getur haft það í hendi sér að efla þetta fyrirtæki, sem býr nú, eins og ég áðan sagði við slæmar framleiðsluaðstæður, og fela því þá lyfjaframleiðslu, sem það metur nauðsynlega og æskilega. Og ég fæ ekki annað séð en þessi ákvæði 15. gr. séu gersamlega óþörf. Ég hef verið að velta því fyrir mér, hvaða ástæða hafi verið til þess að setja inn þessa gr. Í frv. eins og það lá fyrir í fyrra, var ekki rætt um skyldur ríkisins, heldur var þar einungis um að ræða heimild ríkisins til að annast þá lyfjaframleiðslu, sem sameiginlega fyrirtækinu hefði ella borið að annast. Ég hef verið að velta því fyrir mér, hvers vegna þessi gr. væri þannig orðuð, og ég verð að segja, að hjá mér a. m. k. hefur vaknað grunur um það, að þarna ætti að vera svipa á einkaframtakið, það sé gefið í skyn, að ef menn séu ekki hlýðnir og góðir og gangi til samninga á grundvelli þessa frv., þá skuli þeir horfa fram á það, að ríkið setji upp fyrirtæki til að annast að meira eða minna leyti þá framleiðslu, sem einkaframtakið hefur annast hingað til, og þar sem ríkið hefur auðvitað fjármagn til þess að leggja í fyrirtækið og gera það öflugt og sterkt, sjá þeir fram á það, hver þeirra hlutur mundi verða við slíka samkeppnisaðstöðu.

Í nál. höfðum við bent á, að í málefnasamningi ríkisstj. varðandi lyfjamál er svohljóðandi klausa, eitt af stefnumálum: „Að endurskipuleggja lyfjaverslunina með því að tengja hana við heilbrigðisþjónustuna og setja hana undir félagslega stjórn.“ Svo mörg voru þau orð. Þarna er hvergi minnst á lyfjaframleiðslu, og þessa frv. er því hreint engin þörf til efnda á stjórnarsáttmálanum.

Ég verð að segja það, að ég var frá upphafi tortryggin, þegar þetta frv. kom fram, og ég hef ekki við athugun þess í n. sannfærst að neinu leyti um, að það sé æskilegt, hvað þá nauðsynlegt að lögfesta efni þess.

Ég hef nú rakið það, að ákvæði þessa frv. eru í rauninni algerlega óþörf, og ef sem sé áhugi er hjá ríkinu fyrir að leita samvinnu við einkaaðila, þá gæti fyrst komið til álita, hvort lagasetningu þyrfti, þegar búið er að komast niður á fullkominn samkomulagsgrundvöll, en fyrr ætti engin þörf að vera á því.

Við, sem að nál. minni hl. stöndum, leggjum til með vísun til þess, sem nú hefur verið sagt, og nál. okkar, að frv. verði afgr. með svofelldri rökstuddri dagskrá:

„Þar sem ákvæði 1. kafla frv. er að verulegu leyti þegar að finna í gildandi lyfsölulögum, en ákvæði frv. að öðru leyti óþörf, telur þd. ekki ástæðu til að samþykkja frv. og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég skal svo, áður en ég vík úr ræðustól, aðeins fara nokkrum orðum um þær brtt., sem meiri hl. n. flytur við frv. Þótt ég vilji láta vísa frv. frá, tel ég þó rétt að fara um þessar brtt. nokkrum orðum.

Ég geri ráð fyrir, að 1. brtt sé greinilega til bóta. En um brtt., sem er við 6. gr., 1. mgr., verð ég að segja það, að hún breytir bókstaflega engu, það er bara annað orðalag, en meiningin er í rauninni alveg sú sama og málsgr. nú er.

Þá er 3. brtt., sem er við 8. gr., sem fjallar um stjórn fyrirtækisins. Hv. frsm. meiri hl. n. lýsti yfir, að sú brtt. væri komin frá Pharmaco og rn. og þar hefði orðið samkomulag um hana. Ég verð nú að segja það, að það er ekki óeðlilegt og reyndar dytti manni ekki í hug, að þeir Pharmaco-menn neituðu að ræða við rn. og þá m. a. um breytingar á þessu frv., sem ég dreg í efa, að þeir hafi áhuga á að nái fram að ganga.

Þarna hefur náðst samkomulag um breytingar á gr. um stjórn fyrirtækisins til þess þó að koma fram einhverjum endurbótum á frv. Það má líta svo á, að þessir aðilar séu í rauninni alveg undir þvingun með þetta frv. yfir höfði sér. En athugum nú, hvernig brtt. er. Hún er um, að stjórnin skuli skipuð 4 mönnum til tveggja ára í senn og að einkaaðilar kjósi 2 í stjórn, en ríkið 2 og skuli formennskan færast til skiptis milli eignaraðila. Þetta er nú gott, svo langt sem það nær. En ég spyr nú bara: Ef að því rekur, að þetta sameiginlega fyrirtæki verði stofnað, og ef, sem búast má við, að fljótt reki að því, að ríkið verði þarna að meiri eignaraðila og jafnvel langsamlega í meiri hl. hvað eignaraðild snertir, halda menn þá, að það verði talið viðunandi, að í stjórn fyrirtækisins eigi minni hl. að ráða jafnmiklu og sá aðili, sem e. t. v. á miklum meiri hl. í fyrirtækinu? Ég held, að þarna séu menn bara neyddir til að taka við þessari dúsu, því að ég held, að það sé alveg fráleitt að ætla, að þetta ákvæði standi til lengdar, eftir að eignarhlutföll eru orðin slík, að ríkið á yfirgnæfandi meiri hl. í fyrirtækinu.

Ég hjó eftir því, að hv. frsm. meiri hl. sagði, að þetta frv. þyrfti að afgreiðast fyrir jól. Nú geri ég mér að sjálfsögðu vonir um, að hin rökstudda dagskrá, sem við í minni hl. n. flytjum, verði hér samþykkt og a. m. k. einhverjir af framsóknarmönnunum hér í hv. þd. kunni að hugsa sig um, áður en þeir vilja ýta undir ríkisíhlutun og ríkisrekstur á þessu sviði. En verði hin rökstudda dagskrá ekki samþykkt, þá verð ég að segja, að ég sé ekki, hvað rekur á eftir að afgreiða þetta frv. fyrir jól. Ég hef þó jafnvel getið mér þess til, að það sé lögð á það áhersla af heilbrrh., áður en hann leggur fram hið meira og verra frv. varðandi lyfsölumál, og þar á ég við um frv. Lyfjastofnun ríkisins, sem lagt var fram í Nd. í fyrra og vitað var, að ágreiningur yrði um. Það mundi kannske verða hægari eftirleikurinn þá, þegar búið væri að samþykkja þetta frv. um lyfjaframleiðsluna.