14.12.1973
Efri deild: 36. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1440 í B-deild Alþingistíðinda. (1247)

155. mál, almannatryggingar

Flm. (Jón Árnason) :

Herra forseti. Á þskj. 209 hef ég ásamt hv. 6. þm. Sunnl. leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á l. nr. 67 1971, um almannatryggingar.

Eins og kunnugt er, skortir enn allmikið á, að fyrir hendi sé nægjanlegt sjúkrarými í landinu. Af þeim orsökum er oft um langan biðlista að ræða, þar sem sjúklingar bíða eftir sjúkraplássi. Ég hygg, að þetta ástand, sem ég hef lýst, sé fyrir hendi á flestum starfandi sjúkrahúsum.

Með hliðsjón af þessu standa nú yfir sjúkrahúsbyggingar hér í höfuðborginni og einnig víða úti um land. Af þessu ástandi leiðir, að þeir sjúklingar, sem ekki fá inni á sjúkrahúsi, verða að ganga á milli sérfræðinga og sjúkrahúsa, sem hafa nauðsynleg rannsóknartæki til hvers konar sjúkdómsgreininga.

Nú er það svo samkv. gildandi lögum, að sá sjúklingur, sem lagður er inn á sjúkrahús, fær þar alla þjónustu, sem sjúkrahúsið veitir, algerlega ókeypis. Gildir þar eitt og hið sama um allar rannsóknir, röntgenmyndatökur, hvers konar lyf og aðgerðir og einnig fæðiskostnað, á meðan hann dvelst í sjúkrahúsinu. Eigi sjúklingur þess hins vegar ekki kost að njóta sjúkrahúsvistar og verði að ganga á milli sérfræðinga og/eða sjúkrahúsa til þess að fara í röntgenmyndatöku eða aðrar rannsóknir, þá verður viðkomandi sjúklingur að greiða vissan hluta þess kostnaðar og einnig vissan hluta af þeim lyfjum, sem hann verður að nota utan sjúkrahússins. Hér er um augljóst misrétti að ræða, sem ekki má dragast lengur að leiðrétta.

Samkv. 1. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir, að sú breyting eigi sér stað, að allir sitji við sama borð hvað þetta snertir. Sú mismunun, sem hér hefur átt sér stað, hefur í sumum tilfellum komið sérstaklega þungt niður á elli- og öryrkjalífeyrisþegum og í sumum tilfellum leitt til þess, að viðkomandi hefur orðið að fresta nauðsynlegri læknisaðstoð um skemmri eða lengri tíma.

Þegar um það er rætt, að tryggingarnar auki þátt sinn í greiðslum vegna sjúklinga, eins og hér er lagt til, er ekki óeðlilegt, að haft sé í huga, hver hinn raunverulegi kostnaður trygginganna er nú við þá sjúklinga, sem á sjúkrahúsum dvelja. Samkv. upplýsingum, sem ég hef fengið frá forstöðumanni Landsspítalans, er daggjaldskostnaður Landsspítalans nú kominn nokkuð yfir 6 þús. kr. á dag, og sama gildir að sjálfsögðu um Borgarsjúkrahúsið, því að þan sjúkrahús bæði eru í sama flokki hvað daggjöld snertir. Að vísu eru ýmis önnur sjúkrahús úti á landsbyggðinni með lægri daggjaldskostnað, en allt fyrir það er þessi kostnaður orðinn mjög mikill.

Samkv. 2. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir því, að öll lyf, sem samlagsmanni er lífsnauðsynlegt að nota, svo og öll lyf fyrir elli- og örorkulífeyrisþega, verði að fullu greidd af tryggingunum.

Loks er lagt til samkv. 3. gr. frv., að í stað þess að Tryggingastofnunin hafi heimild til að greiða ellilífeyrisþega 26% lágmarksbóta, þegar hann dvelst á sjúkrahúsi eða dvalarheimili, skuli Tryggingastofnuninni skylt að greiða umræddan hundraðshluta.

Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál, en vænti þess, að hv. þm. sjái, að hér er um réttlætismál að ræða, og að sú n., sem fær málið til meðferðar, taki það sem fyrst til athugunar og afgreiðslu.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til. að frv. verði að lokinni þessari umr. visað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.