14.12.1973
Neðri deild: 41. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1443 í B-deild Alþingistíðinda. (1250)

Umræður utan dagskrár

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Þess gerist að sjálfsögðu hvorki þörf að vekja athygli mína né annarra hv. þm. á því neyðarástandi, sem upp er komið á Hornafirði. Okkur er það öllum ljóst, og ég hygg, að enginn hafi af því sárari áhyggjur en ég. Þarna er um að ræða atburð, sem ekki hefur gerst áður, síðan Smyrlabjargarárvirkjun kom í gagnið, og e. t. v. hefði verið hægt að tryggja það, að uppistöðulónið hefði enst lengur, ef dísilorkan hefi verið notuð fyrr eða lengur allan sólarhringinn en gert var.

Um aðdragandann að þessu þýðir náttúrlega ekki að ræða, úr því sem komið er. Hitt vil ég fullyrða, að gert er allt, sem í mannlegu valdi stendur, til að bæta úr þessu eins skjótt og unnt er, og hefur verið ákveðið að flytja gastúrbínustöð, sem keypt var í haust sérstaklega handa Austfjörðum til að tryggja þar nægilega raforku, frá Seyðisfirði til Hornafjarðar, og sá flutningur verður framkvæmdur eins fljótt og auðið er. Um leið og sú stöð er komin í gagnið, raknar sem betur fer eitthvað úr þessum vanda. Hins vegar verðum við að sjálfsögðu að læra af þessu og leggja á ráðin um það, hvernig hægt er að koma í veg fyrir, að slíkir atburðir gerist, og er þá að sjálfsögðu meginatriðið, að komið verði á samtengingu. Slíkir hlutir geta alltaf gerst, en þá á samtenging við önnur orkuveitusvæði að geta veitt það öryggi, sem unnt er að veita. En sem sagt, ég ítreka það, að af hálfu rn. er að sjálfsögðu allt gert, sem í mannlegu valdi stendur, til þess að reyna að bæta úr þessum vanda eins skjótt og hægt er.