14.12.1973
Neðri deild: 41. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (1251)

Umræður utan dagskrár

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil nú taka undir það, sem hv. 4. þm. Austf. sagði hér áðan um þessi efni, og fagna því, að hæstv. ráðh. hefur sett sig inn í þessi efni og lætur gera allt, sem í mannlegu valdi stendur, til þess að bæta úr því neyðarástandi, sem þarna hefur skapast. En ég stóð upp til að bæta þeirri ósk við, að hæstv. ráðh. gengi í það sjálfur með sínum mönnum að gera sér grein fyrir ástandi þessara mála á Austurlandi yfir höfuð. Við höfum haft af því óskaplegar áhyggjur í haust, þm. Austurlands, og ýmsir af okkur, sem til þess hafa verið kjörnir, verið látlaust í sambandi við raforkumálayfirvöldin út af því, hvernig horfur væru um orku í vetur á Austurlandi.

Nú verður að færa þarna til vélar í dauðans ofboði til þess að bæta úr neyðarástandi á Höfn í Hornafirði, og er sjálfsagt að gera það. En ég legg hina mestu áherslu á það, að hæstv. ráðh. kynni sér með sínum mönnum, hvort nógu sterklega er gengið frá því, að ekki verði orkuskortur í vetur, þegar til loðnuvinnslu kemur á öllu Austurlandssvæðinu, að hann fari ítarlega ofan í það, hvernig háttað er öflun nauðsynlegra véla, til þess að slíkt komi ekki fyrir.