14.12.1973
Neðri deild: 41. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1446 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

Umræður utan dagskrár

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að hefja hér almennar umr. um raforkumál í tilefni af þeim alvarlegu atburðum, sem gerst hafa í Hornafirði og ég hygg, að allir séu sammála um, að þurfi að leysa með sem skjótustum hætti. En út af þeim orðum, sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason sagði hér áðan, að það þyrfti að fá sérstaka skýrslu um ástandið í orkumálum, hér hlyti að vera um að ræða mikla vanrækslu og óstjórn í þremur landsfjórðungum, þá hygg ég, að það væri þá rétt að fá þá skýringu frá ráðh. fyrrv. stjórnar, því að í tíð núv. stjórnar hefur bæði verið tekin ákvörðun um Lagarfossvirkjun á Austfjörðum og um Mjólkárvirkjun á Vestfjörðum. Þær ákvarðanir voru ekki teknar af fyrrv. stjórn, þannig að það ástand, sem er í þessum fjórðungum báðum, er að sjálfsögðu arfur frá þeim framkvæmdum, sem fyrir voru, þeyfar núv. stjórn tók við. Það var ráðist þar í þær stærstu virkjanir, sem hægt var að ráðast i, fljótlega eftir að núv. stjórn var mynduð.

Ástandið á Norðurlandi er einnig arfur, eins og menn vita. Ég ætla ekki að fara hér út í Laxárdeilur, en menn vita, hvernig að þeim málum var staðið. Og ég vil minna menn á það, að ástandið á Norðurlandi væri nákvæmlega hið sama og það er núna,jafnvel þó að ákveðið hefði verið að ráðast í hina margumdeildu Gljúfurversvirkjun. Það var ekki byrjað á þessum fyrirhleðslum. Ástandið væri nákvæmlega það sama. Það hefur verið tekin ákvörðun um að leggja línu norður, eins og menn vita. Það er langskjótasta aðferð, sem hugsanleg er til þess að koma orku inn á svæðið. Ég vil segja þetta vegna þess, að mér fannst hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason misnota þetta alvarlega tilefni á Hornafirði til ósæmilegra pólitískra árása, og ég held, að við ættum að hefja okkur yfir þvílík viðbrögð, þegar þannig stendur á eins og nú í Hornafirði.