14.12.1973
Neðri deild: 41. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1448 í B-deild Alþingistíðinda. (1260)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég vona, að ég þurfi ekki einu sinni tvær mínútur, en tilefni þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var ræða hv. 7. þm. Reykv. Það kom mér ákaflega spánskt fyrir sjónir, að þessi hv. þm. skildi bókstaflega ekkert í því, af hverju rafmagnsskortur, svo mikill sem hann nú er, væri í landinu. Það er greinilegt, að þessi hv. þm. hefur ekki hlýtt á veðurfregnir að undanförnu. Það neyðarástand, sem nú er á Austurlandi, á Höfn í Hornafirði, er vegna þess, að það er kaldasti nóv., sem komið hefur í 50 ár, sem var að líða. En höfuðorsökin fyrir því, að orkuskortur er á Austfjörðum og Vestfjörðum, er vanræksla þeirrar ríkisstj., sem þessi hv. þm. átti sæti í í 12 ár. Það er höfuðorsökin, og það kemur mér spánskt fyrir sjónir, ef þessi hv. þm. og fyrrv. ráðh. hefur aldrei heyrt kvartað úr Vestfirðingafjórðungi um, að orkuskortur væri þar. Það er ekki fyrr en í tíð þessarar ríkisstj., sem tekin er ákvörðun um að virkja Lagarfoss og Mjólká. Drátturinn varð í tíð fyrrv. ríkisstj., sem þessi hv. þm. átti sæti í, og aðalorsökin er sú, að sú ríkisstj. vanrækti að koma þessum málum í gang. Þess vegna getum við ekki nú litið bjartari augum til framtíðarinnar en raun ber vitni.