14.12.1973
Neðri deild: 41. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1452 í B-deild Alþingistíðinda. (1277)

125. mál, læknalög

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Hér er um að ræða afar einfalt frv., sem hlotið hefur einróma samþykki í Ed. Alþingis. Meginefni frv. er það, að gerð er sú breyting á gildandi læknal., að íslenskt ríkisfang þurfi ekki að vera skilyrði fyrir veitingu læknaleyfis, en þannig er það í gildandi lögum. Eins og menn vita, hafa síðustu árin nokkrir erlendir námsmenn stundað nám við læknadeild Háskóla Íslands og lokið prófi við læknadeildina hér og hafa haft hátt á að starfa hér áfram sem læknar, en samkv. gildandi l. var ekki hægt að veita þeim nema tímabundið lækningaleyfi og því aðeins að um væri að ræða tiltekið læknisstarf, sem enginn íslenskur læknir hefði fengist til að gegna. Þarna er m. a. um að ræða tvær stúlkur, sem giftar eru íslenskum mönnum, en hafa kosið að halda þeim sjálfsögðu mannréttindum að breyta ekki ríkisfangi sínu. Bæði Læknafélag Íslands og landlæknir eru sammála því, að þessi breyting verði gerð á l., og ég hygg, að um það geti naumast orðið nokkur ágreiningur hér á hinu háa Alþ. heldur.

Ég vil mælast til þess við hv. heilbr.- og trn., sem ég legg til, að fái málið til meðferðar, að hún afgreiði þetta mál þannig, að unnt verði að gera það að lögum fyrir jólaleyfi. Þetta er svo einfalt mál, að ég held, að það ætti að vera auðvelt. Þá væri hægt að afgreiða mál þeirra erlendu aðila um áramótin, sem óskuðu eftir því að fá fullgilt lækningaleyfi á Íslandi.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og heilbr.- og trn.