14.12.1973
Neðri deild: 41. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1459 í B-deild Alþingistíðinda. (1286)

131. mál, útvarpslög

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég get verið mjög stuttorður. Ég get alveg tekið undir ræðu hv. 1. þm. Norðurl. e., einnig hluta af ræðu hv. þm. Lárusar Jónssonar, sem ég heyrði því miður ekki alla, en það, sem ég ætlaði að segja hér, var einmitt þetta, að það væri þörf ábending að koma því áleiðis, að Útvarp Reykjavík þýðir ekki „útvarp Reykvíkinga“, heldur þýðir það „útvarpið í Reykjavík“, sem er og á að vera útvarp landsins alls. Fólk er jafnvel farið að brosa að því víða um landið, hvað útvarp og menn, sem þar koma fram, eru barnaleg í þessum hlutum. Það, sem þarf að taka fram, þegar um er að ræða, hvar hlutirnir eru, er aðeins, ef þeir eru ekki í Reykjavík. Ef það er ekki tekið fram, þá er átt við Reykjavík og Reykvíkinga og ekkert annað. Að þessu brosa menn. Hálka á götum þýðir: hálka á götum í Reykjavík, en ekki á götum Akureyrar eða í Borgarnesi eða annars staðar á landinu. Þess vegna tek ég sérstaklega undir það, sem hv. þm. Ingvar Gíslason sagði, að það er aðalatriðið, að við komum útvarpinu út um allt landið, og það álít ég að gerist ekki með staðbundnum útvarpsstöðvum, sem reknar yrðu fyrst og fremst af þeim stöðum á landinu, sem sterkastir væru, þeir fengju þá sitt útvarp fyrst, kannske Akureyri, síðan Ísafjörður og Egilsstaðir, en þá yrði eftir útvarpið, sem á að vera útvarp þjóðarinnar, það yrði þá endanlega útvarp Reykvíkinga. Þannig yrði þróunin.

Ég vil taka undir það, að þróunin ætti að verða sú, að útvarpið færði kvíar sínar raunverulega út um landið með því að setja þar upp upptökustofur og annað því um líkt. Þetta væri fyrir margra hluta sakir nytsamlegt og gagnlegt, mundi auka þekkingu Reykvíkinga og aunarra hér syðra á landinu. Það þyrftu ekki að vera sérþættir frá landsbyggðinni, eins og tíðkast í útvarpinu. Þetta væri mjög mikilvægt fyrir þá menningarstarfsemi, sem rekin er víða um landið, eins og leiklist, sönglist og annað því um líkt. Það er einnig beint fjárhagslegt atriði. Leikarar, sem eru að berjast við að halda uppi starfsemi á Akureyri, hafa ekki sömu tekjumöguleika og leikarar og leikfélög í Reykjavík, þar sem alltaf er gripið til þeirra til útvarpssendinga o. s. frv.

Ég vil að lokum minna á eitt, að kannske ættum við ekki að tala svo mikið um þetta og hvað hægt væri að auka starfsemina, því að það er þó einn hópur, sem bíður og á fyllstu réttlætiskröfur til þess, að hans mál séu tekin fyrir fyrst, og það er fólkið, sem hefur ekki fengið alla þjónustu útvarpsins. Það er fólkið, sem nýtur ekki sjónvarps, og það er því miður enn til fólk, sem nýtur ekki fullnægjandi útvarps. Ég tek undir það, að það ætti auðvitað að hækka afnotagjöldin. Það væri réttlæti í því, að fólkið, sem hefur sjónvarp, borgaði há afnotagjöld, þangað til sjónvarpið og útvarpið næði til allra landsmanna.