14.12.1973
Neðri deild: 42. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1462 í B-deild Alþingistíðinda. (1303)

102. mál, veiðar með botnvörðu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi

Frsm. (Garðar Sigurðsson) :

Herra forseti. Sjútvn. hv. d. hefur komið sér saman um að flytja sameiginlega 4 smávægilegar brtt. við frv., eins og það er eftir 2. umr.

1. till. er við 2. gr. og 1. liður hennar hljóðar svo: „Orðið „sérsmíðaðir“ í 2. mgr. falli niður.“ Nú er þessi 2. mgr. ekki í frv. upphaflega, heldur í brtt., sem samþ. voru við 2. umr. Það þykir óþarfi að hafa þetta orð: „sérsmíðaðir“, fyrir framan orðið „skuttogarar“. Málsgr. hljóðar þá svo, ef þessi brtt. yrði samþ.:

„Þar sem í lögum þessum er rætt um skip 350 rúml. og minni, eru undanskildir skuttogarar með aflvél 1000 bremsuhestöfl eða stærri“, „sérsmíðaðir“ falli brott.

2. liður þessarar brtt. er við C. 3 og er í rauninni við brtt., sem við fluttum við 2. umr. Þetta er nákvæmnisatriði, þar sem talað er um Hálsasker. Í stað þeirra orða komi lengdarbaugurinn 15° 45' vestur. Hálsasker eru nefnilega nokkur talsins og taka yfir dálítið svæði, þannig að það er nákvæmara að miða við lengdarbauginn. Þessi breyt. er fólgin í því.

3. liður þessarar brtt. er um það, að liðurinn E. 2 falli niður. Liðurinn E. 2 er á bls. 3 í frv. sjálfu og er um það hólf, sem togararnir fengu að fara inn á að 9 mílum. Með brtt. okkar er þessi liður í rauninni fallinn af sjálfu sér, þar sem við höfum gefið togurunum aukna heimild inn að 6 mílum á þessari leið frá Reykjanesi að Gáluvíkurtanga. Það er í rauninni búið að samþykkja það, þetta er bara formsatriði.

Þá kemur 2. brtt., sem er við 7. gr. og hljóðar svo: „Orðin „og viðurlög við brotum á þeim reglum“ falli niður.“ Þetta á einmitt við þá viðbót, sem sjútvn. setti inn í brtt. sínar. Viðurlög og sektir eru í 11. gr. frv., og þykir eðlilegt að taka það þá bara inn í 11. gr.

Um það er næsta brtt., að taka inn í 11. gr. viðurlög við þessari gr., viðurlög við því að koma með of mikið af smáfiski í land í veiðiferð.

4. og síðasta brtt. er vegna þess, að við gleymdum að gera ráð fyrir því í frv., þegar talað var um brot á þessum lögum, sem gildir um breska togara samkv. því samkomulagi, sem gert var nú í haust. Brtt. er svona: „Við 17. gr. Við 1. mgr. bætist: Þó haldi gildi sínu lög nr. 89 15. nóv. 1973.“ Eins og kunnugt er, verða breskir togarar ekki dæmdir eftir 11. gr., ef þeir brjóta samkomulagið, heldur sviptir veiðileyfi. Þetta er ákvæði, sem þarf að koma inn í 17. gr.