15.12.1973
Efri deild: 39. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1476 í B-deild Alþingistíðinda. (1325)

153. mál, launaskattur

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, er, eins og hv. frsm. og formaður fjh.- og viðskn. gat um, framlenging á l. um launaskatt eða álag á launaskatti, sem upphaflega var í lög tekið haustið 1970 í sambandi við ráðstafanir, sem þá voru gerðar til verðstöðvunar. Áður hafði verið 1% launaskattur, sem rann til Byggingarsjóðs ríkisins, en þarna var viðbótarlaunaskattur á lagður, 1½%, í sambandi við tekjuöflun til að halda niðri verðlagi. Eftir að núv. ríkisstj. tók við völdum, beitti hún sér fyrir áframhaldandi skattlagningu af þessu tagi, þ. e. a. s. að þessi 1½% viðbótarlaunaskattur rynni áfram til ríkissjóðs, m.a. í sambandi við verðstöðvunaraðgerðir, sem þá voru framkvæmdar. Það má kannske segja, að það fari nú orðið lítið fyrir þeim verðstöðvunaraðgerðum, en engu að síður hefur farið svo um þennan skatt eins og hefur farið um ýmsa skatta, að það þykir erfitt að fella þá niður. Við erum hér með gamlan kunningja af þessu tagi, sem er framlenging ýmissa gjalda með viðauka. Ég man ekki, hve marga áratugi er búið að framlengja þetta frá ári til árs, og hefur stundum komið til orða, að það væri réttast að fara að lögfesta þetta, það væri búið að vinna sér hefð, og ætli það fari ekki svo með þennan blessaða launaskatt að lokum. Engu að síður hefur sá háttur verið á hafður að framlengja þetta frá ári til árs, og frv., sem hér er um að ræða, er þess efnis, að það gildi út næsta ár.

Út af fyrir sig hefur Sjálfstfl. ekki sett sig gegn því, að þetta yrði gert, þó að segja megi, að rökin fyrir því séu nokkuð breytt og ekki sömu ástæður fyrir hendi og var um þær tvennar verðstöðvanir, sem ég vék að, að hefði verið talið nauðsynlegt að beita þessari fjáröflun í sambandi við. En ég vildi láta það koma fram hér, að ástæðan til þess, að við hv. 2. þm. Reykv., Geir Hallgrímsson, vorum ekki á fjhn.-fundi í gær, þegar þetta var afgreitt, var eingöngu sú, að sá fundur var sameiginlegur fundur fjh.- og viðskn. þd., þar sem var verið að ræða um tollskrárfrv., og hafði ekki verið boðað, að það yrði svo sérfundur í fjh.- og viðskn. Ed. til að ræða um þetta mál, sem hér liggur fyrir. Af þeirri ástæðu höfðum við vikið af fundi, þar sem við höfðum öðrum störfum að sinna. Vil ég, að þetta komi fram. En það sýnir á engan hátt nein sérstök mótmæli gagnvart afgreiðslu þessa máls. Við munum því eftir atvikum geta fallist á, að þetta verði framlengt þetta eina ár án allrar skuldbindingar um, hvað verður í framtíðinni. Það verður að athuga að sjálfsögðu.

Hér hafa, síðan þetta frv. var flutt, verið lagðar fram brtt., sem ekki hafa verið athugaðar, að ég hygg, sérstaklega í n., og ég geri ráð fyrir, að flm. þeirra till. muni mæla hér fyrir þeim. Það eru meira formbreytingar, sem þar er um að ræða, en geta vafalaust átt rétt á sér. Ég tel, að það hefði verið æskilegt, að n. fengi tækifæri til að taka þær till. til sérstakrar athugunar, og væri ekki óeðlilegt. Þar sem frv. er nú í seinni d., liggur ekki svo mjög á, því að það ætti að vera öruggt, að það komist í gegn engu að síður. Við viljum ekki bregða fæti fyrir það, að 3. umr. um þetta mál verði tekin fyrir hér í dag. Ég veit ekki, hvað hæstv. forseti hefur hugsað sér í því, en n. ætti að gefast kostur á milli 2. og 3. umr. að athuga þessar brtt.