15.12.1973
Efri deild: 39. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1479 í B-deild Alþingistíðinda. (1327)

153. mál, launaskattur

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Út af brtt. þeim á þskj. 258, sem hv. 5. þm. Vestf. hefur flutt, vil ég segja það, að það er rétt, sem hann hefur vitnað til í sambandi við þetta frv. og það, sem ég sagði hér í fyrra, en einhvern veginn stóð ég í þeirri meiningu, að við breytinguna, sem gerð var í fyrravetur, hefði þessu verið breytt aftur í það horf, sem upphaflega frv. var. En þegar það var samið í fjmrn. í fyrrahaust, var því breytt, án þess að ég vissi þá um breytinguna, sem var fólgin í því að gera þetta að varanlegum skatti.

Hins vegar hefur sú hugmynd komið fram og að því hefur verið töluvert unnið að breyta frv. um launaskatt, og er það verk nú næstum því fullunnið. Ég býst við að sýna það hér í vetur, og getur Alþ. þá afgreitt það í rólegheitum. Þar kemur sú hugsun fram að gera að einu máli þessa innheimtu ásamt öðrum atvinnurekendaiðgjöldum, sem nú ganga til trygginganna. Það er mikið stúss í kringum þessa margföldu innheimtu hjá sömu aðilum, og það er miklu meira mál en þetta mál er, eins og það liggur fyrir hér. Ég skal ekki segja um það, hvað hv. alþm. kann að sýnast um þá hugmynd, en það er spor í þá átt, sem er verið að reyna að stefna að í skattakerfinu, að fækka sköttunum og fella saman í eina heild það, sem saman á að vera, í stað þess að innheimta af sama aðila 3 eða 4 gjöld, sem mættu vera eitt.

Ég held því, að þegar þetta frv. var samið nú, þá hafi það verið með hliðsjón af þessu og þess vegna hafi það verið haft óbreytt, eins og það var í gildandi lögum. Það mun hafa verið eitthvert misminni hjá mér, að við hefðum breytt þessu aftur í fyrra, þegar við breyttum launaskattinum í sambandi við sjómannafrádráttinn. Þess vegna er það rétt, að ég hef heitið því, að þetta skyldi gert, og verð ég að segja eins og er, að mér þykir slæmt, að það sé hægt að halda því fram, að ég standi ekki við það, sem ég hef gefið fyrirheit um. Þess vegna hefði ég getað hugsað mér til samkomulags nú, að aðeins yrði gerð sú breyting, sem er fólgin í því, sem við hv. 5. þm. Vestf. ræddum hér um í fyrra, og að málið yrði þá afgreitt hér úr hv. d.í dag, af því að það verður þá að fara aftur til Nd. Ef um það verður samkomulag, mun ég ekki leggjast gegn því, því að ég minnist þess, að það er rétt með orð mín farið, og satt að segja stóð ég í þeirri meiningu, þegar ég óskaði eftir því, að frv. yrði haft eins og l. væru, að breytingin hefði verið gerð, þegar l. var breytt í fyrravetur.

Ef hv. 5. þm. Vestf. vildi fallast á, að við breyttum frv. þannig, að það yrði aðeins um þá breytingu að ræða og málið yrði afgreitt frá þessari hv. d. í dag, mundi ég vilja gera um það samkomulag til þess að standa við það, sem ég hef áður sagt, enda er það svo með þetta mál, að á einhvern hátt verður forminu á því breytt, því að launaskatturinn og þessi gjöld, þetta þarf að falla saman í eitt, op er ástæðulaust að vera með þetta svona frá ári til árs.

Ég vil því leyfa mér að gera það tilboð til hv. þm., að við höldum okkur eingöngu við þessa breytingu, því að ég hef ekki haft aðstöðu til þess að setja mig inn í annað, og bráðabirgðaákvæðið gilti þá um þetta eina prósent, ef það yrði að samkomulagi, að við afgreiddum málið út úr þessari hv. d. á þessum degi.