17.12.1973
Neðri deild: 43. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1497 í B-deild Alþingistíðinda. (1357)

45. mál, sameining Flugfélags Íslands og Loftleiða

Félmrh. (Björn Jónsson) :

Herra forseti. Þetta frv. er stjfrv. komið frá hv. Ed., en er borið fram til staðfestingar á brbl., sem voru gefin út hinn 11. ágúst s. l. vegna sameiningar Flugfélags Íslands h/f og Loftleiða h/f í eitt félag, sem hlotið hefur nafnið Flugleiðir h/f, en útgáfa brbl. var nauðsynleg forsenda fyrir því, að þessi sameining færi fram.

Forsaga þessa sameiningarmáls er í aðalatriðum sú, að augljóst var orðið, að samkeppni flugfélaganna á einstökum leiðum hafði um hríð valdið þeim báðum tilfinnanlegu tjóni og það svo miklu, að um geigvænlegan taprekstur var orðið að ræða, sem gat, ef áframhald hefði orðið á, hæglega leitt til örlagaríkrar óhappaþróunar íslenskra flugmála. Var ríkisstj. einhuga um, að við svo búið mætti ekki standa, ef tryggja ætti flugsamgöngur og flugrekstur Íslendinga í framtíðinni, og hafði því forgöngu um langvarandi viðræður milli fulltrúa flugfélaganna um sameiningu þeirra undir einni stjórn. Var hér um næsta örðugt og einnig tæknilega flókið samningamál að ræða, sem tók langan tíma og mikla vinnu, ekki síst þeirra trúnaðarmanna ríkisstj., sem hér unnu að. Ekki skal sú saga rakin hér, en svo fór að lokum, að flugfélögin féllust á samkomulagsgrandvöll trúnaðarmanna ríkisstj., og skyldi sameinuð yfirstjórn félaganna taka við stjórn þeirra beggja frá 1. ágúst s. l., sem og varð.

Samkomulagsgrundvöllurinn byggðist hins vegar m. a. á tilkomu nýs félagsforms, sem taldist nauðsynlegt vegna aðstöðu á alþjóðamarkaði, en rúmaðist hins vegar ekki eð öllu leyti innan ramma gildandi hlutafélagalöggjafar, og bar því nauðsyn til, ef sameining átti að takast, að gera nokkrar breytingar á skyldum félaganna og hins nýja félags samkv. l. um hlutafélög, svo sem greint er í einstökum atriðum í l., 1., 2., 3. og 6. gr. frv. Þá reyndist nauðsynlegt að veita félögunum tryggingu gegn margsköttun, sem af hinu nýja félagsformi gæti leitt, sbr. 4. gr. frv., og að koma í veg fyrir þyngingu skattbyrða hluthafa af eignarskatti, sem sameiningin gæti valdið, ef arður af hlutafé færi niður úr tilteknu lágmarki, og vísa ég um það efni til 5. gr. frv.

Með því samkomulagi, sem hér hefur lauslega verið lýst, er stefnt að því í fyrsta lagi að fella nú þegar saman þá liði í starfsemi félaganna, sem betur verða reknir í einu lagi en tvennu, þegar frá byrjun, og má þar til nefna ýmiss konar innkaup, afgreiðslu erlendis og væntanlega líka hér heima. Segir um þetta í blaðaviðtali við forstjórn beggja félaganna 4. ágúst s. l., að þeir telji, að slíkar byrjunaraðgerðir muni spara félögunum hundruð millj. kr. árlega. Þá verður strax nú í vetur fækkað og hagrætt þeim ferðum, sem hin harða samkeppni hefur gert óhagkvæmastar, og er þar sérstaklega um að ræða ferðir til og frá Norðurlöndum. Síðar er hugmyndin og stefnan að sameina fleiri þætti, eftir því sem reynslan kennir, að hagkvæmt sé, án þess að viðskiptaheild og viðskiptasambönd bíði hnekki af. Þá er talið víst, að staða hins nýja félags varðandi margs konar samninga, svo sem um tryggingar o. fl., verði sterkari og hagstæðari en áður. Í fyllingu tímans er svo stefnt að algerri sameiningu, en í byrjun er fyrst og Fremst um að ræða rekstur tveggja félaga undir einni sameiginlegri stjórn. Að mati forráðamanna er þó óvissu háð, hve langan tíma alger sameining tekur.

Það er álit ríkisstj., að með sameiningu hinna tveggja íslensku flugfélaga, þótt í áföngum sé af hagkvæmnisástæðum, sé stigið gæfuspor fyrir þennan mikilsverða atvinnurekstur, sem hefur alla tíð átt við harða samkeppni að etja á alþjóðamarkaði og einnig innbyrðis. Sameiningin vekur góðar vonir um, að eitt sterkara flugfélag og niðurlagning óþarfrar innbyrðis samkeppni styrki íslensk flugmál og tryggi framtíð þeirra á einum harðasta samkeppnismarkaði, sem ríkir á nokkru sviði á alþjóðavettvangi. Að þessu merka spori stignu er unnt að líta bjartari augum á, að sú atorka, fyrirhyggja og framsýni, sem brautryðjendur íslenskra flugmála hafa sýnt á margan hátt í uppbyggingu og starfi Flugfélags Íslands og Loftleiða, skili þjóðinni álitlegum árangri í framtíðinni. Ríkisstj. hefur því talið og telur, að ekki sé áhorfsmál að létta félögunum sameininguna eftir fremstu getu, bæði með útgáfu og væntanlegri staðfestingu hv. Alþ. á þessum brbl. og öðrum þeim aðgerðum og fyrirgreiðslu, sem nauðsynlegt er að veita og eðlilegt getur talist. Ég vil svo vænta greiðrar afgreiðslu hv. þd. á þessu frv. og legg til. að því verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. samgn.