17.12.1973
Neðri deild: 43. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1499 í B-deild Alþingistíðinda. (1359)

145. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til 1. umr., er stjfrv. og er komið frá hv. Ed., þar sem það var samþ. einróma með nokkurri viðbót frá upphaflegri gerð þess.

Frv. varðar, eins og það er nú, þrjár breyt. á l. um tekjustofna sveitarfélaga. Er þá fyrst að telja það, sem felst í 1. gr. frv., en það er, að sveitarstjórnum verði heimilað að innheimta sem fyrirframgreiðslu upp í útsvör allt að 60% þess útsvars, sem hlutaðeiganda bar að greiða næstliðið ár. Í gildandi l. er þetta hámark fyrirframgreiðslu 50%, sem jafna skal á 5 gjalddaga, sem verða óbreyttir samkv. þessu frv. Rökin fyrir breytingu í þessa átt eru aðallega þau, að í fyrsta lagi jafnar hún tekjur sveitarfélaganna milli fyrri og síðari hluta árs og auðveldar þeim þannig eðlilegan fjárhagslegan rekstur og í annan stað færir hún gjöld útsvarsgreiðenda til þannig, að minni hætta er á, að greiðslubyrðin verði óeðlileg og óæskilega þung síðari hluta árs, þegar álagt útsvar á innheimtuárinu hefur hækkað frá fyrra ári, eins og oftast eða alltaf hefur verið um langan aldur. Auk þessa kemur það svo til, að hér er um að ræða að skapa aukið jafnræði milli sveitarfélaganna og ríkisins varðandi gjaldheimtu, en heimildir fjmrh. samkv. gildandi l. um tekju- og eignarskatt til fyrirframgreiðslu eru mun rýmri en sveitarfélaganna. Loks er rétt að benda á, að þá breytingu, sem hér er lögð til. má skoða sem nokkurt skref í átt til staðgreiðslukerfis opinberra gjalda, sem launþegar almennt leggja mikla áherslu á.

Önnur breyt., sem ráðgerð er samkv. frv., felst í 3. gr. þess, þ.e. að fjmrh, skuli heimilt að ákveða breytingu á fasteignamati til samræmis við verðlag 1. nóv. þessa árs. Með tekjustofnalögum nr. 8 1972 var að því ráði horfið að auka hlut fasteignaskatts í heildartekjum sveitarfélaganna mjög verulega eða úr um það bil 3% árið 1971 í nálega 18% 1972, en grundvöllur þessa skatts hefur staðið óbreyttur síðan. Er því ljóst, að ef hér verður ekki breyting á, fer þessi tekjustofn sveitarfélaganna stöðugt rýrnandi hlutfallslega, sem aftur hlýtur að skapa þeim aukin fjárhagslegan vanda. Þykir þess vegna rétt að opna heimild fyrir fjmrh. til að hækka þennan gjaldstofn til samræmis við raunverulegar breytingar á verðlagi fasteigna fram til 1. nóv. s. l.

Þriðja breytingin er sú, sem felst í 2. gr. frv., eins og það nú er, en þar eru ákvæði um, hversu hátt aðstöðugjald megi vera. Samkv. tekjustofnal. frá 1972 var þetta svo, að aðstöðugjöld máttu nema 65% af því gjaldi, sem álagt hafði verið í hverju sveitarfélagi árið áður, og hygg ég, að þetta hafi verið ákveðið á þennan hátt með þeirri hugsun, að hér væri upphafið að því að minnka mjög verulega eða jafnvel afnema aðstöðugjöldin sem tekjustofn fyrir sveitarfélögin. Það mun ekki vera í huga neinna nú, að unnt sé að gera það að svo komnu máli a. m. k., og þykir þess vegna rétt að gera breytingu í þessa átt, sem felur það í sér, að öll sveitarfélög hafa jafna aðstöðu til að leggja á aðstöðugjöld, en nú er hún mjög misjöfn af þeim ástæðum, sem ég nefndi, og jafnvel allmörg sveitarfélög, sem alls ekki mega samkv. núgildandi l. leggja nein aðstöðugjöld á. Nú er sem sagt sú breyting gerð, að aðstöðugjöldin megi vera 65% af því, sem l. fyrir 1972 heimiluðu frekast, og gildir sú regla þá fyrir öll sveitarfélög. Þessi ákvæði voru ekki í hinu upphaflega frv., en komu inn í í hv. Ed., og var þessi breyting samþ. þar einróma. Ég tel hér vera um réttlætismál að ræða innbyrðis milli sveitarfélaganna og er því algerlega samþykkur þessari breytingu.

Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, að hafa hér öllu fleiri orð um, en legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. félmn. Ég vil taka fram, að ég tel nauðsynlegt, að hv. þn. og hv. þd. hraði svo afgreiðslu málsins, að því megi verða lokið fyrir jólaleyfi í þinginu, þar sem dráttur á afgreiðslu þess mundi torvelda sveitarfélögunum afgreiðslu sinna fjárhagsáætlana, og vænti þess, að þó að áliðið sé nú og stutt til jólaleyfis, þá geti þetta verk unnist og ekki síst vegna þess, að um það hafa ekki staðið deilur, a. m. k. ekki í hv. Ed., og ég vænti þess, að það verði ekki heldur í þessari hv. deild.