17.12.1973
Neðri deild: 43. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1500 í B-deild Alþingistíðinda. (1362)

145. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég skal ekki blanda mér í aðalefni þessa frv., en mig langar til að benda þeirri hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, á þann lið í frv., eins og það er komið frá hv. Ed., sem snýr að gjaldi á almennan iðnrekstur í landinu. Mér sýnist, að það sé lægra gjald af rekstri verslunarskipa og af fiskiðnaði heldur en af hvers konar iðnrekstri öðrum. En eins og alþjóð veit, á iðnaðurinn nú í mjög miklum erfiðleikum, og ég vildi mælast til þess, að hv. n. tæki það mál til alvarlegrar athugunar, hvort ekki er hægt að breyta þessu ákvæði frv. með einhverjum hætti. Ég hef ekki aðra till. nú, en mér finnst, að það væri sanngjarnt og eðlilegt, að þetta gjald væri lagt niður.