17.12.1973
Neðri deild: 43. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1505 í B-deild Alþingistíðinda. (1374)

86. mál, rannsóknarnefnd vegna landhelgisgæslu

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Þetta mál, sem hér er til umr., um rannsóknarnefnd vegna landhelgisgæslu, er nokkuð undarlegt. Flm. eru að bera fram till. til þál. um rannsóknarnefnd, sem þeir beinlínis vita ekki, gegn hverjum þeir eru að stefna, og þetta er sú merkilegasta rannsóknarnefnd, sem líklega hefur komist inn í þingsalina. Formlega hljóðar till. þannig, að þetta sé till. til þál. Um rannsóknarnefnd vegna landhelgisgæslu, og er þar gert ráð fyrir að skipa sérstaka þn. samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til að rannsaka framkvæmd landhelgisgæslu frá 15. okt. s. l. og kanna, hvort þær ásakanir, sem fram hafa verið bornar um, að gæsla landhelginnar á Vestfjarðamiðum hafi ekki verið með eðlilegum hætti, hafi við rök að styðjast, síðan skuli skipaður einn maður tilnefndur af hverjum þingflokki, og skal, eins og við réttarrannsókn sótt eftir skýrslum, munnlegum og bréflegum, bæði frá embættismönnum og einstökum mönnum.

Það segir sig sjálft, að þegar menn bera slíka till. fram, hljóta þeir að hafa rökstuddan grun um, að misbrestur hafi átt sér stað, og misbrestur við landhelgisgæsluna hefur þá átt sér stað annaðhvort hjá sjálfri Landhelgisgæslunni, hjá starfsmönnum hennar eða hjá yfirstjórn Landhelgisgæslunnar, það er aðeins um tvo aðila að ræða. Nú hefur komið berlega fram hjá flm., að það sé alls ekki hjá starfsmönnum Landhelgisgæslunnar, og þá þarf ekkert að ræða um það. Þá er eftir yfirstjórnin, og þá beinist þetta að sjálfsögðu að hæstv. dómsmrh. og forsrh. Flm. hljóta að hafa rökstuddan grun um það, að núv. dómsmrh. hafi brugðist í starfi sínu.

Þessi undarlega þáltill. er þeim mun merkilegri, þar sem hæstv. dómsmrh. hafði þegar látið fara fram nokkra rannsókn á vegum sýslumannsembættisins á Ísafirði, sá embættismaður hafði þegar safnað gögnum og tekið skýrslur af mönnum og hæstv. dómsmrh. hafði þessa skýrslu í höndum sér. En fyrrv. meðráðh, dómsmrh., hv. 3. þm. Vestf., lætur ekki svo lítið að gá í þessar skýrslur til þess að vita, hver hefur orðið niðurstaða þessara rannsóknar. Hér er strax borin fram krafa um rannsókn. Þó er eins og báðir flm. beygi af eins og lítil börn, þegar að alvörunni í leiknum kemur, því að hv. 3. þm. Vestf, sagði: Ja, ef í ljós kemur í n., þ. e. í þn., sem fær þetta til athugunar, að engin frekari ástæða sé til rannsóknar, þá er ástæðulaust að láta þetta ganga lengra. — M, ö. o.: það, sem er óeðlilegt við þetta, er, að flm. þora ekki almennilega að fylgja þessu máli á enda, heldur óska þess helst, að þetta mál sofni í þn., sem fær þáltill. til meðferðar. Ástæðan fyrir þessu er, eins og 3. þm. Norðurl. v. komst að orði réttilega, annars vegar atkvæðaveiðarnar á Vestfjörðum, reyna að rétta hlut sinn eftir að hafa brugðist í landhelgismálinu, og hins vegar sú óeðlilega leið, sem farin er, þannig að flm. togast á milli tveggja afla, annars vegar þarfar á að rétta sig við í augum vestfirskra kjósenda og hins vegar þeirrar aðferðar, sem teljast verður með öllu óeðlileg, þannig að þeir koma fram á vígvöllinn brynjaðir og bita í skjaldarrendur, en svo lyppast þeir niður, þegar á á að herða, af því að þeir finna, hvernig á málum er haldið.

Það má heita óvenjulegt í þingsögunni, að núv. hv. þm., Hannibal Valdimarsson, sem er nýhorfinn út úr ríkisstj., skuli nokkru síðar bera fram vantraust á núv. forsrh. og meðráðh. sinn í ríkisstj. Það held ég, að sé alveg með sérstökum brag og óvenjulega vel gert af þessari gömlu stríðshetju. Það er ekki heldur seinna vænna að bíta í skjaldarrendurnar, þessu er nú senn öllu að ljúka.

En ég vil aðeins leyfa mér að benda á það, að hvað sem mönnum kann að þykja um þessa rannsókn á gerðum dómsmrh., þá er eitt óþolandi. Það er, að þessir hv. tveir frsm, skuli leyfa sér að halda því fram, að í þessu felist ekki óbeint vantraust á gerðum dómsmrh., og reyna að snúa sig þannig út úr hlutunum. Þetta er ekkert annað en óbeint vantraust á þá aðila, sem fara með stjórn Landhelgisgæslunnar.

Það hefði e. t. v. mátt búast við því, að ég hefði flutt till. af þessu tagi, af því að ég var á öndverðum meiði við forsrh. og núv. 3. þm. Vestf. um lausn landhelgisdeilunnar. Ég hefði verið nógu mikill skálkur til þess að flytja svona till. e. t. v. En hitt er með ólíkindum, þegar hv. 3. þm. Vestf. er búinn að leggjast á sveif með forsrh. um lausn á landhelgismálinu, þá skuli hann nokkrum dögum seinna koma inn í þingið með vantraust á stjórn Landhelgisgæslunnar. Þetta eru ábyggilega undarlegri vinnubrögð en tíðkast hér í þingsölum.

Ég skal ekki hafa þessi orð lengri, því að ég tel, að þessi till. sé alveg sérstök, og ég hygg, að hún sé engum til sóma. En ég vil aðeins segja eitt: að þó að ég hafi verið á algerlega öndverðri skoðun við núv. hæstv. dómsmrh. um lausn landhelgismálsins, þá er ég þó ekki þannig sinnaður, að mér komi til hugar, að hann hafi á einhvern hátt brugðist við stjórn Landhelgisgæslunnar, að hann hafi sjálfur sagt þingheimi og þjóð, að Landhelgisgæslan mundi beita sér gegn breskum landhelgisbrjótum, en síðan gæfi hann aðrar skipanir til sinna undirmanna. Ég hef enga trú á, að slíkt gerist, því að ég ætla mönnum sem ráðamönnum þjóðarinnar ekki slík vinnubrögð. Þess vegna verð ég að segja það, að þó að ég hafi verið algerlega annarrar skoðunar í landhelgismálinu, þá mun ég ekki greiða þessari till. atkv., því að ég tel, að hún sé af þeim toga og borin fram af því hugarfari, að það sé ekki hægt að styðja hana. Ég vil að lokum taka undir þau orð, sem hv. 3. þm Norðurl. v. sagði í ræðu sinni hér á dögunum, að hann drægi mjög í efa, að þessi till. mundi verða til þess, að flm. veiddu nokkur atkv. á Vestfjörðum.