17.12.1973
Neðri deild: 43. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1508 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

86. mál, rannsóknarnefnd vegna landhelgisgæslu

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég verð að játa, að fyrst þegar ég fékk þessa till. augum litið, kom hún mér allmjög spánskt fyrir sjónir, af því að ég hélt, að þetta væri e. t. v. tæpast þingleg meðferð. Hins vegar kemur í ljós, að í 39. gr. stjórnarskrárinnar, svo sem vitnað er til í till. sjálfri, segir, með leyfi forseta:

„Hvor þd. getur skipað n. innandeildarþm. til að rannsaka mikilvæg mál, er almenning varða. Þd. getur veitt n. þessum rétt til að heimta skýrslur, munnlegar og bréflegar, bæði af embættismönnum og einstökum mönnum.“

Hér er því alveg rétt að farið. Hins vegar hefur verið allmjög um það deilt, hvort skilja bæri þessa till. sem vantrauststill. á hæstv. forsrh. eða dómsmrh. af þessu tilefni. Ég geri ekki ráð fyrir því, að það hafi verið meining þeirra hv. flm. Hins vegar fer ekki hjá því, að eins og málatilbúningurinn hefur verið, þá beinist rannsókn þessi að yfirstjórn Landhelgisgæslunnar, —svo rækilega hefur það verið fram tekið, að hér væri ekki átt við rannsókn á störfum varðskipsmanna, að rannsóknin hlýtur þar af leiðandi einvörðungu að beinast að yfirstjórn Landhelgisgæslunnar, þar með töldum hæstv. dómsmrh. Að því leyti má að sjálfsögðu skoða þetta sem óbeint vantraust. En allt um það, á það ætla ég ekki að leggja sérstakan dóm. Til þess að geta fylgt þessu vil ég líta svo á, að hér sé einvörðungu átt við það að fá allan sannleikann fram, því að ég mundi ekki greiða þessari till. atkv. og hafa þann hátt á að lýsa yfir vantrausti á hæstv. dómsmrh. Þess vegna lít ég svo á, að hér sé einvörðungu að því stefnt að fá fram allan sannleikann í málinu, en á því er síst vanþörf.

Hv. 3. þm. Vestf. sagði hér áðan, að vestfirskir sjómenn hefðu verið kallaðir ósannindamenn. Hverjir hafa kallað vestfirska sjómenn ósannindamenn? Hverjir? (Gripið fram í.) Já, svar Landhelgisgæslunnar, sem hæstv. dómsmrh. því miður er hann fjarverandi — fór með í svari sínu á hinu háa Alþ. Og þá fara nú böndin heldur betur að berast að hæstv. dómsmrh. Nú er naumast hægt að segja, að þarna hafi þeir verið kallaðir ósannindamenn og með enn þyngra orðalagi, sem hv. þm. viðhafði, að það hafi komið fram í svari hæstv. dómsmrh., heldur má fremur segja, að umsagnir hafi greint á um aðstæður og um hvað fram fór.

Ég vil geta þess, að þetta er ekki bundið við Vestfirði einvörðungu. Ég hef áhuga á því, að allt hið rétta komi fram í þessu máli. Fyrir nokkru varð skipstjórinn á Ljósafelli var við, að einir 7 stórir verksmiðjutogarar, vesturþýskir, voru að veiðum í Berufjarðarál austanverðum. Þetta var um hádegisbilið á laugardegi. Hann gerði Landhelgisgæslunni viðvart um þetta ítrekaði það á sunnudegi og enn á mánudegi. Á sunnudegi voru svörin þau frá yfirstjórn Landhelgisgæslunnar, að varðskip væri á leiðinni. Á mánudag var þetta ítrekað, en á mánudagskvöld, þegar Guðmundur Ísleifur hringdi í mig, hafði ekkert borið til tíðinda utan það, að hinir þýsku togarar höfðu fylgst með honum suður á bóginn og voru nú á veiðum í nánd við Hvalbak.

Þessi framkvæmd, ef rétt reynist, — nú hef ég einvörðungu fyrir mér orð annars aðilans í þessu, — þessi framkvæmd er illskiljanleg, að ekki sé meira sagt. Ef Landhelgisgæslan hefur ekki varðskipum á að skipa til þess að annast gæsluna, þá eiga þeir vitanlega að svara því til. þegar til þeirra er leitað með þessum hætti, að þeir hafi ekki tök á því að stugga við þessum skipum, sem þarna voru á ferðinni, í þetta skiptið. En sjómenn, mjög margir, halda því statt og stöðugt fram, að yfirstjórn Landhelgisgæslunnar og viðbrögð hennar séu með óeðlilegum hætti, að ekki sé meira sagt. Þess vegna er það, að ég tel nauðsyn á, að þetta verði rannsakað niður í kjölinn, og mun því fylgja þessari þáltill., en tek það fram, að ég skoða hana ekki, — enda þótt vissulega megi að sínu leyti líta þannig á, — skoða hana ekki sem vantrauststill. á hæstv. dómsmrh.