17.12.1973
Neðri deild: 43. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1510 í B-deild Alþingistíðinda. (1378)

86. mál, rannsóknarnefnd vegna landhelgisgæslu

Flm. (Karvel Pálmason) :

Herra forseti. Það eru aðeins örfáar aths. vegna ummæla, sem hafa fallið í umr. um þetta mál.

Hv. 6. þm. Austf. sagði, að ekkert það hefði gerst, sem gæfi ástæðu til svona alvarlegra aðgerða. Það er ekkert alvarlegt, þó að kannske tugir skipstjórnarmanna, hvort sem þeir eru á Vestfjörðum, Austfjörðum eða Norðurlandi, séu rengdir um það, að þeir fari með rétt mál, þrátt fyrir að þeir hafi staðfest það fyrir rétti. Það er ekki svo alvarlegt, að það þurfi að komast til botns í málinu. Ég lít það svo alvarlegum augum, að ég tel fulla ástæðu til þess, að málið sé kannað niður í kjölinn.

Hv. 2. þm. Vestf. talaði hér, síðast þegar þetta mál var á dagskrá, og það, sem hann hafði einna mestar áhyggjur af, var það, að flm. og þá sérstaklega annar þeirra, hinn fyrri, væru mjög farnir að draga í land frá því, sem til var ætlast á fyrsta stigi málsins. En ég vil sannfæra þennan hv. þm. um, að það hefur ekkert verið dregið í land og verður ekkert dregið í land af okkar hálfu. Við ætlumst til þess, að málið fái athugun og það verði kannað niður í kjölinn, hver hefur á réttu að standa eða ekki. Og svo var hann að kvarta undan því, að við værum hér að mótmæla því, sem hann héldi fram um þetta mál. Ég veit ekki, við hverju þessi hv. þm. hefur búist, að menn bara þegðu þunnu hljóði, ef hann færi hér í ræðustól. Það verður a. m. k. ekki gert af minni hálfu.

Hún var nú eiginlega kærkomin í miðju skammdeginu, sú ræða, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. flutti hér við síðustu umr., sem fram fór um þetta mál. Þetta er á margan hátt skemmtilegur þm., að vísu á sumum stigum allsérkennilegur, en hvað um það. Þessi hv. þm. hefur lengst af verið heldur ókyrr í vistinni hjá maddömu Framsókn. Hann hefur lengst af verið, ef svo mætti segja, taumskakkur hjá hæstv. forsrh. og formanni Framsfl. og ætlaði nú greinilega að bæta þar um, ekki bara vera dyggur þjónn síns yfirboðara og fylgja honum í einu og öllu, heldur ganga fram fyrir skjöldu og berjast. En í hverju var nú fólgin þessi orka hjá þessum hv. þm.? Jú, hún var í því fólgin að segja hér á Alþ. yfir þingheim allan, að hæstv. forsrh. og dómsmrh. hefði í þessu máli ekki getað sagt neitt annað en hann gerði. Sem sagt, hann gaf í skyn, að þrátt fyrir það að landhelgisgæslunni, eins og hann gaf í skyn með sínum orðum, hefði verið kippt til baka á vissum stigum, þá gat hæstv. ráðh. ekki sagt annað en hann sagði. Reyndar sýndist mér, að hæstv, ráðh. sigi saman í stólnum, þegar þessi hv. þm. gaf þetta í skyn. Og ég er viss um, að hæstv. forsrh. hefur ekki þótt þetta gott innlegg í þessar umr. sér til stuðnings, því að það var ekki hægt að skilja þessi ummæli hv. þm. á annan veg en þann, að hæstv. ráðh. hefði að einhverju leyti, a. m. k. að mati hans sjálfs, verið nauðbeygður til að segja annað en hann raunverulega hefði ætlað að gera. Ég ætla ekki hæstv. dómsmrh. þetta. Hv. 3. þm. Norðurl. v. má vera einn um það mín vegna að ætla hæstv. dómsmrh. svona vinnubrögð, ég vil ekki ætla honum þau.

Þá sagði hv. þm., að tillögumenn þessarar þáltill. væru að smjaðra fyrir sjómönnum á Vestfjörðum. Þetta er mesti misskilningur hjá hv. þm. Það er ekki um neitt smjaður að ræða. En við ætlumst til þess, að þegar slíkur ágreiningur sem þessi kemur í ljós, þá verði komist að því, hver segir satt og hver ekki. Við kærum okkur ekki um það, að vestfirskir skipstjórnarmenn eða sjómenn séu almennt álitnir ósannindamenn, a. m. k. ekki þegar þeir hafa staðfest framburð sinn fyrir réttum yfirvöldum.

Einhver sagði hér áðan, — ég held,að það hafi verið hv. 3. landsk. þm. og það er nú kannske ekkert að undrast það — hann sagði, að rannsóku hefði farið fram. Ég vænti þess, að þessum hv. þm, og prófessor að auki sé um það kunnugt, að ef rannsókn á að fara fram, þá er ekki nægilegt að kanna bara ástæður á aðra hliðina, það verður að gerast á báðar. Í þessu tilviki hefur ekkert verið gert annað en að taka skýrslur af skipstjórnarmönnum á Vestfjörðum, og þeir hafa staðfest þar þann framburð, sem þeir héldu fram á sínum tíma. En það hafa ekki mér vitanlega enn verið teknar skýrslur af hinum aðilanum, og það er það, sem við erum að biðja um. Það er engin rannsókn að neinu gagni, það er til málamynda, ef á bara að rannsaka annan aðilann. Það verður að gera það á báða bóga.

Svo sagði þessi hv. þm., að það væri raunar óþolandi, að þetta skuli ekki vera vantraust á hæstv. forsrh. Hann getur bætt úr því sjálfur, ef hann vill flytja vantraust á hann. Þessi till. er ekki flutt sem slík. Hún er einvörðungu flutt til þess að fá það í ljós, sem sannast er og réttast.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði, að aðgerðum hefði verið mjög í hóf stillt. Það er ekkert verið að deila um það. Spurningin er: Var framfylgt þeim yfirlýsingum, sem hæstv. forsrh. og dómsmrh. gaf bæði í fjölmiðlum og hér á hv. Alþ.? Var þeim framfylgt, eða var þeim það ekki? Það er það, sem þarf að fá skorið úr. Ef það hefur ekki verið gert, þá hefur verið dregið í land af einhverjum aðilum, og það þarf þá að upplýsast.