29.10.1973
Neðri deild: 7. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

15. mál, orkulög

Heilbr:

og trmrh. (Magnús Kjartansson) : Herra forseti. Frv., þetta var lagt fram á síðasta þingi, er var þá ekki útrætt. Ég fylgdi því þá úr hlaði með allítarlegri framsöguræðu, sem ég sé ekki ástæðu til að endurtaka hér, en vil aðeins minnast á nokkur meginatriði.

Frv. var upphaflega samið af sérfræðingum Orkustofnunar ásamt Ragnari Aðalsteinssyni hrl., af þeim ástæðum, að talið var nauðsynlegt, að fjallað yrði með lögum um eignarrétt yfir háhitasvæðum á Íslandi. Í 1. gr. frv. felst það efnisatriði, að jarðhitasvæðum hérlendis er skipt í háhitasvæði og lághitasvæði, eins og þar segir:

„Jarðhitasvæði telst háhitasvæði í lögum þessum, ef innan þess finnst 200° hiti C ofan 1000 m dýpis. Önnur jarðhitasvæði nefnast lághitasvæði. Meðal háhitasvæða eru þessi svæði: Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll, Hengill, Geysir, Kerlingafjöll, Hveravellir, Torfajökull, Vonarskarð, Grímsvötn, Kverkfjöll, Askja, Fremri-námur, Námafjall, Krafla, Þeistareykir og önnur jarðhitasvæði með sömu eiginleikum.

Ríkið á allan rétt til umráða og hagnýtingar jarðhita á háhitasvæðum og uppleystra efna og gastegunda, sem háhitavatni og gufu fylgja, þó með takmörkunum, sem í l. þessum greinir.

Ríkisstj. lætur með rannsóknum ákveða mörk háhitasvæða Íslands. Meðan á rannsókn fer fram, skal Orkustofnun gera ríkisstj. grein fyrir því árlega, hver séu þekkt háhitasvæði á landinu og hvaða svæði eru líkleg háhitasvæði, en óvissa ríkir um. Með þau svæði, sem óvissa ríkir um, skal farið sem háhitasvæði, þar til rannsókn leiðir annað í ljós.“

Í 1. gr. er einnig fjallað um lághitasvæði, en þar er um að ræða sams konar ákvæði og nú gilda í lögum. Meginbreytingin í þessari gr. er þannig sú, að það er skilgreint sérstaklega háhitasvæði og kveðið á um það, að ríkið eigi allan rétt til umráða og hagnýtingar jarðhita á háhitasvæðum.

Eins og kunnugt er, þá er þar um að ræða ákaflega mikinn orkugjafa, sem væntanlega á eftir að nýta í þágu alþjóðar. Og þessi orkugjafi er fyrst og fremst fólginn í háhitasvæðunum. Er talið, að nýtanlegt varmaafl háhitasvæðanna muni vera um 90% alls varmaafls jarðhitasvæða landsins.

Líklegt má telja, að háhitasvæðin verði á næstu áratugum nýtt fyrst og fremst til stóriðju, raforkuvinnslu og hitaveitu í þéttbýli. Slík nýting yrði ekki á færi einstaklinga, heldur í höndum ríkis eða sveitarfélaga eða mjög stórra fyrirtækja. Hvert háhitasvæði er sjálfstætt rennsliskerfi, og getur vinnsla á einum stað raskað rennsli á öðrum stöðum í kerfinu. Af þessum sökum er mikilvægt, að vinnsla jarðhita á hverju svæði sé í höndum eins aðila.

Varmavinnsla á háhitasvæði er mun erfiðari en vinnsla lághita. Vegna gufuþrýstings og mikils magns uppleystra efna í háhitavatni krefst virkjun þess vandaðri og viðameiri borholubúnaðar, flóknari tækjabúnaðar og meiri tækniþekkingar. Af þessum sökum m. a. er nýting varma á háhitasvæðum svo vandasöm, að einstaklingar hafa ekki sóst eftir henni. Helst hefur verið um að ræða nýtingu vatns við jaðra svæðanna, en með svipuðum hætti og nýting lághitavatns.

Á undanförnum árum hefur verið, eins og kunnugt er, unnið að nokkrum áætlunum um nýtingu háhitasvæða. Einn þröskuldur í vegi slíkra áætlana hefur verið óvissa um umráðarétt jarðhita, sem unninn er með borunum djúpt í jörðu. Þetta frv. er flutt til þess að kveða skýrar á en verið hefur um það, hver sé raunverulegur eigandi þessa jarðhita.

Í 2. gr. frv. er ákveðið, að til vinnslu jarðhita með borunum á háhitasvæðum þurfi leyfi Alþingis, þó sé ráðh. heimilt að veita heimild til minni háttar vinnslu jarðhita á háhitasvæði til þarfa býla og annarra notenda, er á háhitasvæðinu kunna að vera eða í næsta nágrenni við það, þó ekki yfir 50 kg/sek hámarksafköst á hverjum stað og því aðeins, að sú vinnsla torveldi ekki aðra nýtingu háhitasvæðis síðar að dómi Orkustofnunar. Í leyfi skal greina þau skilyrði, sem leyfi er háð, svo og gjald fyrir vinnsluna, sem renni í Orkusjóð.

Hér eru sem sé ákvæði um það, að Alþingi ákveði með löggjöf, hvernig skipa skuli hagnýtingu einstakra háhitasvæða. Í slíkri löggjöf yrðu væntanlega ákvæði um mörk vinnslusvæðis, hvaða aðili hafi leyfi til að bora eftir háhita og vinna hann, tímalengd sérleyfis til vinnslu, að frumdrætti að fyrirhuguðum mannvirkjum skuli leggja fyrir ráðh. til samþykktar, hvenær vinnslu skuli hefja í síðasta lagi, að leyfi falli niður, ef vinnsla er stöðvuð um tiltekið tímabil, að bannað sé að framselja vinnsluleyfi án samþykkis ráðh., um greiðslur fyrir vinnsluna, að leyfishafi greiði landeiganda bætur skv. 15. og 16. gr. l., hvernig ráðstafa skuli vinnslumannvirkjum að vinnslutíma loknum, ráðstafanir gegn hættu, sem af vinnslunni kunni að stafa, og gegn spjöllum á umhverfi, svo og önnur skilyrði, sem ástæða er til að setja hverju sinni. Enn fremur ákvæði um gjald það, sem leyfishafi skal greiða, en við ákvörðun þess hlýtur að gæta margvíslegra sjónarmiða og erfitt að marka í þessum l. ákveðna stefnu, sem fylgja skal við ákvörðun gjaldsins.

Það er því meginatriðið í 2. gr., að setja þurfi lög á Alþingi um vinnslu á slíkum svæðum, á sama hátt og sett eru lög á Alþingi um allar meiri háttar vatnsvirkjanir.

Á síðasta þingi kom aðeins fram ágreiningur um eitt atriði. Sumir töldu, að réttur sveitarfélaga, sem eignast hafa háhitasvæði, væri ekki nægilega tryggður, eins og frv. var lagt fram í fyrra. Í frv., eins og það liggur fyrir núna, er komið til móts við þetta sjónarmið. Í 2. gr. hefur verið bætt svohljóðandi ákvæði:

„Þau sveitarfélög, sem land eiga á háhitasvæði við gildistöku laga þessara, skulu hafa forgangsrétt til vinnsluleyfis á því landi og vera undanþegin leyfisgjaldi fyrir vinnslu á því landi, enda hafi þau sótt um vinnsluleyfi innan 5 ára frá gildistöku laganna.“

Með þessu ákvæði er sveitarfélögum, sem land eiga á háhitasvæði, veittur forgangsréttur til vinnsluleyfis án vinnslugjalds fyrstu 5 árin eftir gildistöku l. Ákvæði þetta hefur það í för með sér, að ekki verður unnt að skipuleggja endanlega nýtingu þeirra háhitasvæða, sem sveitarfélög eiga land á, fyrr en 5 ár eru liðin frá gildistöku l. og fram er komið, hversu víðtæks vinnsluleyfis sveitarfélagið óskar. Er með ákvæði þessu komið til móts við þau sveitarfélög, sem keypt hafa land á háhitasvæði með nýtingu háhitans í huga. Þá er sveitarfélögunum og tryggt með þessu ákvæði, að á þau verði ekki lagt leyfisgjald fyrir þá vinnslu, sem þau ákveða og sækja um á næstu 5 árum eftir gildistöku l. Ekki þykir fært að veita sveitarfélögum ótakmarkaða undanþágu frá 1. eða ótímabundinn forgangsrétt til vinnsluleyfis, þar eð slíkt mundi leiða til þess, að sá hluti háhitasvæðis, sem ekki er í eigu sveitarfélags, verður ekki skipulagður til hlítar vegna óvissu um framtíðaraðgerðir sveitarfélagsins.

Ég hafði gert mér vonir um, að þessi breyting mundi jafna þann ágreining, sem kom fram á Alþingi í fyrra, en því miður er sú ekki raunin. Það hefur komið hér fram brtt. frá hv. þm. Stefáni Gunnlaugssyni, þar sem kveðið er svo á, að sveitarfélög skuli eiga allan rétt til umráða og hagnýtingar jarðhita á háhitasvæðum, þar sem landareign er í eigu sveitarfélagsins, þrátt fyrir önnur ákvæði laga þessara, m. ö. o. að sveitarfélag geti um alla framtíð komið í veg fyrir það til að mynda, að háhitasvæði verði nýtt í þágu alþjóðar. Nú veit ég ekki, hversu mikil hætta kann að vera á, að slíkt ákvæði kæmi að sök, en mér finnst þetta vera óþarflega afdráttarlaus stefnumörkun, að sveitarfélög geti þannig haft rétt, sem kynni að brjóta mjög í bága við rétt almennings, rétt alþjóðar. Auk þess gæti þarna orðið um að ræða árekstur. Þar sem um er að ræða sameiginlega eign sveitarfélags og annarra aðila á sama svæðinu, þá er ekki hægt að nýta svæðið fyrir annan aðila, sveitarfélagið gæti hreinlega komið í veg fyrir það, því að þarna er um að ræða samfellt kerfi, sem ekki verður nýtt, án þess að það verði skipulagt í heild.

Ég held, að það sé ekki nokkur hætta á því, að sveitarfélög muni ekki njóta fyllsta réttar í sambandi við þetta frv., ef að lögum verður. Í frv. er eingöngu verið að lýsa því yfir, að þessi orka í iðrum jarðar skuli vera almannaeign, og það verður að tryggja, að ekki þurfi að greiða einstaklingum fjárfúlgur fyrir svokallaðan eignarrétt að þessari orku, sem ekki er hægt að ná í nema með þeirri miklu undirbúningsvinnu, sem ég hef hér gert grein fyrir. Ég hef enga trú á því, að það komi nokkru sinni fyrir, að Alþingi bregði fæti fyrir áform sveitarfélags um að hagnýta slíka orku. Ég held, að slíkt muni ekki gerast og það sé alger óþarfi að setja ákvæði í lög til að tryggja sérstakan rétt þeirra sveitarfélaga, sem svo er ástatt um. Á slíkt held ég, að mundi aldrei reyna í verki. En ef hægt er að jafna þennan ágreining með einhverju öðru móti, með þeirri till., sem felst í frv. sjálfu, þá er ég að sjálfsögðu fús til að ræða það.

Ég tel, að efni þessa frv. sé mjög mikilvægt. Að undanförnu hafa, eins og kunnugt er, orðið miklar umræður hér á landi um eignarrétt á landi og öðrum verðmætum og komið fram mjög verulegur ágreiningur manna á milli, en einnig orðið ljóst síðustu árin, að þetta er ákaflega örlagaríkt vandamál á fjölmörgum sviðum. Hins vegar geri ég mér vonir um, að ákvæði þessa frv. verði talin dálítið annars eðlis en þessar almennu deilur. Hér eru eignarrétti einstaklinga sett almenn takmörk, án þess að bætur komi fyrir, en þau takmörk eru innan þess ramma, sem allir stjórnmálaflokkar og dómstólar á Íslandi hafa viðurkennt, eins og rakið er ítarlega í 1. kafla grg. Einnig eru þessar ráðstafanir, sem hér er talað um, í samræmi við löggjöf fjölmargra annarra þjóða, m. a. ýmissa grannþjóða okkar, sem við höfum sniðið löggjöf okkar eftir í ýmsum atriðum.

Eins og ég hef rakið, er orka sú, sem í háhitasvæðunum felst, ekki tiltæk nema að afloknum mjög umfangsmiklum og kostnaðarsömum rannsóknum, og oft er ekki vitað, hvern árangur slíkar rannsóknir muni bera. Og þessar rannsóknir hafa hér á landi allar verið framkvæmdar af opinberum aðilum. Þessi orka verður aldrei nýtt af einkaaðilum. Til nýtingar hennar þarf mikið fjármagn og svo umfangsmiklar athuganir, að við það munu engir Íslendingar ráða nema opinberir aðilar. Nýting þessara orkulinda verður vafalaust einnig skipulögð í þágu alþjóðar, hvort sem um verður að ræða orkuvinnslu eða aðrar iðnaðarframkvæmdir, og því er rökrétt, að sú orka, sem þannig verður sótt í iður jarðar, verði lýst eign alþjóðar. Ég hygg, að það mundi stríða gegn réttlætiskennd allra Íslendinga, einnig þeirra, sem láta sér annt um vernd einkaeignarréttar, ef einhver héldi því fram, að þessi orka háhitasvæðanna væri eign einhverra tiltekinna einstaklinga, sem gætu sótt þangað arð á kostnað alþjóðar án þess að hafa sjálfir lagt nokkuð af mörkum.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn. Og ég vil vænta þess, að n. geti starfað nokkuð fljótt. Hún þekkir frv. frá síðasta þingi. Ég tel skipta ákaflega miklu máli, að frv. verði afgreitt á þessu þingi, því að frekari óvissa á þessu sviði getur torveldað nauðsynlegar framkvæmdir, sem nú eru í undirbúningi.