17.12.1973
Neðri deild: 45. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1515 í B-deild Alþingistíðinda. (1391)

134. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Matthías Á. Mathiesen) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er flutt fyrir hönd þingflokks sjálfstæðismanna af okkur hv. 2. þm. Vestf., Matthíasi Bjarnasyni, fulltrúum Sjálfstfl. í fjh: og viðskn. þessarar hv. d., eins og fram kemur í grg. með frv.

Áður en vikið er að frv., oft einstökum greinum þess sérstaklega, er rétt að gera sér ljósar nokkrar staðreyndir varðandi ástand skattamálanna í dag, svo og þróun og meðferð skattamála á undanförnum árum og áratugum og þá sérstaklega forustu og afstöðu sjálfstæðismanna þar um.

Það er engum vafa undirorpið, að aldrei hefur jafnmikil óánægja grafið um sig meðal þorra skattgreiðenda í landinu og síðan núv. ríkisstj. hóf afskipti sín af skattamálum. Strax á fyrsta þingi núv. kjörtímabils réðust núv. stjórnarflokkar í breytingu á skattal., sem voru í senn vanhugsaðar og án þess að þeir gerðu sér nokkra grein fyrir því, hvaða áhrif breytingarnar hefðu á einstaklinga, á atvinnureksturinn eða skatttekjur ríkisins í heild. Við sjálfstæðismenn snerumst gegn þessum breytingum og vöruðum við þeim og afleiðingum þeirra, en á það var því miður ekki hlustað. Okkur var ljóst, að þær breytingar, sem gerðar voru, höfðu í för með sér verulega aukna skattbyrði á meginþorra gjaldþegna þjóðfélagsins. Við lögðum þess í stað til, að haldið yrði áfram þeirri vel undirbúnu endurskoðun, sem fram fór á árunum 1969–1971, og frestað yrði lögfestingu á þeim brtt., sem fólust í frv. vinstri stjórnarinnar.

Við álagningu skatta árið 1972 kom í ljós, að allt, sem stjórnarandstaðan hafði sagt á þingi, var rétt. Ríkisstj. varð að grípa til brbl. til þess að sliga ekki algerlega gamla fólkið með þeirri þungu skattbyrði, sem stjórnarflokkarnir höfðu samþykkt, og var aukningin um 110–140%, og var þar enn bætt um, þegar þau brbl voru samþykkt á Alþ. Þá kom í ljós, að innheimtir tekju- og eignaskattar fóru nær einum milljarð fram úr áætlun 1972 og skattbyrðin jókst þá um rúm 20%.

Enn var haldið áfram á sömu braut. Við álagningu 1973 námu tekjuskattar einstaklinga 4 milljörðum 678 millj. kr. að meðtöldu 1% álagi til Byggingarsjóðs ríkisins. Við frumálagningu 1972 námu tekjuskattar einstaklinga 3 milljörðum 426 millj. kr., og við álagningu 1971 1 milljarði 117 millj. kr. Þetta jafngildir 318.8% hækkun 1971–1973, á sama tíma sem brúttótekjur framteljenda hækka aðeins um 60%.

Sömu hneigðar gætir í fjárlagafrv. því, sem Alþ. hefur nú til meðferðar. Þar er gert ráð fyrir, að tekjuskattur nemi rúmum 6 milljörðum. Þar af nemur tekjuskattur einstaklinga 5 milljörðum 615 millj. og tekjuskattur félaga 764 millj. kr., hvort tveggja með byggingarsjóðsálagi. Áfram ætla þeir að halda í sömu átt.

En hver hafa viðbrögðin verið við þessari stefnu? Það gerist nú, sem aldrei hefur gerst áður, að launþegasamtök landsins hafa sett skattamálin á oddinn í þeim kjarasamningum, sem fram undan eru. Þeim sýnist nú mælirinn fullur. Aðilar þeirra gera sér ljóst, að ekki er ástæða til þess að leggja hart að sér, ef ljóst er, að meiri hluti viðbótartekna fer í skatta, og að kauphækkanir eru lítils virði, ef þær verða aðeins til þess, að þeir færist hærra upp í skattstigann og komist í hæstu skattþrepin. Reyndar eru skattþrepin það kröpp, að þau renna nánast saman í eitt. Þessu til stuðnings má benda á, að um 72% allra tekjuskattsgreiðenda á árinu 1973 greiddu skatta í hæsta skattþrepi, en þá er hámarksskattur á viðbótartekjum orðinn 54.69% að meðtöldu útsvari, byggingarsjóðsálagi og kirkjugarðsgjaldi, en viðlagasjóðsgjaldi sleppt.

Viðurlögin við vinnu manna eru orðin svo þung, að ekki mun vera meiri hl. á Alþ. til stuðnings við þær álögur, sem lagðar eru til í fjárlagafrv. fyrir 1974, og verða því stjórnarliðar með talnaleik að ganga frá þeim pappírsfjárlögum, sem þeir hugsa sér að samþykkja. Þá hefur það komið fram, að ríkisstj. hefur verið knúin til þess að ræða við launþegasamtökin um lækkun beinna skatta, en þá gert um leið kröfur til þess, að þeim skattlækkunum verði mætt með söluskattshækkun, sem fari ekki inn í kaupgreiðsluvísitölu, og er grunur margra, að ýmislegu sé ætlað að fljóta þar með.

Sjálfstfl. vill með frv. þessu gera till., sem fela í sér lækkun tekjuskatts einstaklinga. Þær till. eru fyllilega tímabærar, eins og ég hef nú vikið að. Af hálfu Sjálfstfl. er frv. skoðað sem áfangi á þeirri leið að minnka beina skattheimtu ríkisins enn frekar. Þær breytingar, sem lagðar eru til, eru að okkar dómi viðráðanlegar fyrir ríkissjóð án allsherjar breytingar á öllu skattkerfinu.

Rétt er að virða fyrir sér, hvað gerst hefur í þeim löndum, þar sem skattheimta ríkisins hefur orðið of hátt hlutfall af þjóðarframleiðslunni að dómi skattborgarans. Má í því sambandi benda á uppstokkunina í dönskum stjórnmálum nú fyrir skömmu. Þess eru glögg merki síðustu tvö árin, að þróun skattheimtu hér á landi sé á sömu leið og í Danmörku.

Gert er ráð fyrir, að heildarskatttekjur hins opinbera verði 34.1 % árið 1973, með viðlagasjóðstekjum 36.5%, en voru 30% 1970, 31.8% 1971, en um 33.5% árið 1972. Áætlað er, að beinir skattar sem hlutfall af þjóðarframleiðslu hafi verið 10.8% árið 1973, sem var hæsta hlutfall í þessu efni frá því fyrir árið 1960. Verða þá beinir skattar samkv, því tæplega þriðjungur tekna hins opinbera. Til samanburðar má geta þess, að heildarskatttekjur í Danmörku miðað við þjóðarframleiðslu voru 35.3% árið 1970, en beinir skattar 17.7% miðað við þjóðarframleiðslu. Við erum því ekki eins langt frá Dönum að þessu leiti og menn vilja vera láta.

Færa má ástæður fyrir því, að há álagning tekjuskatts segi fyrr til sín hér á landi en í nágrannalöndum, þannig að óánægju verði fyrr vart hér en þar. Í fyrsta lagi er tekjuskipting sennilega jafnari hér en á öðrum Norðurlöndum. Það kemur berlega í ljós, þegar tekjuskipting hér á landi er skoðuð, að allur þorri einstaklinga er á mjög þröngu bili. Við álagningu 1973 voru um 9% hjóna á tekjubilinu 0 og upp í 300 þús. kr., 33% á bilinu 300 upp í 600 þús., en 58% á bilinu 600 upp í 1 millj. Þessi jafna tekjuskipting hefur í för með sér, að mestur þungi skattheimtunnar lendir á svokölluðum miðlungstekjum, og það er ákaflega þröngt um við að hækka skattheimtuna að ráði, án þess að allt lendi á þessum hóp. Afleiðingin er jafnframt sú, að fara verður nokkuð langt niður eftir tekjustiganum til þess að sækja síðustu krónurnar í ríkissjóð, því að hátekjumenn eru svo fáir, að þar er lítið að krækja í.

Í öðru lagi hefur fólksfjölgun verið hér meiri síðustu áratugi en á öðrum Norðurlöndum. Þjóðin er þess vegna tiltölulega yngri og tiltölulega minni hluti hennar á vinnumarkaðnum en á öðrum Norðurlöndum. Skattbyrðin lendir því á tiltölulega minni hóp hér en þar, og ber að hafa þetta í huga, þegar verið er að hera saman heildarálögur miðað við þjóðarframleiðslu.

Í þriðja lagi þurfum við ekki að standa straum af kostnaði vegna hermála, en ástæða er til að ætla, að þorri skattgreiðenda á Norðurlöndum sætti sig við nokkru hærri skattbyrði en ella, þegar unnt er að skírskota til landvarna og föðurlandstilfinninga.

Í fjórða lagi eru tekjuskattar félaga hér tiltölulega lítill hluti heildartekna ríkissjóðs. Tekjuskattur félaga er á næsta ári áætlaður um 2.8% heildartekna ríkissjóðs, en verður enn minna, ef miðað er við hlutfall heildartekna ríkis og sveitarfélaga.

Í fimmta lagi hefur verið óðaverðbólga í landinu 1972 og 1973. Vísitala vöru og þjónustu hækkaði um 30% frá 1. nóv. 1972 til 1. nóv. 1973 og vísitala byggingarkostnaðar um 32.5% á svipuðum tíma. Sá skattur, sem lagður er á allan almenning með þessu móti, er ekki óverulegur. Þótt ríkissjóði sé borgið, eins og hinar geysilega háu tekjur umfram áætlun sýna, en þær munu vera 1973 áætlaðar 2 milljarðar, hjálpar það lítið þeim, sem verða að standa skil á greiðslum, jafnframt því sem ráðstöfunartekjurnar verða æ minna virði.

Þegar tillit er tekið til þessara atriða, verður afstaða skattgreiðenda skiljanlegri, enda þótt hæstv. ríkisstj. ætli seint að átta sig á hlutunum. Ástandið nú minnir á þær ógöngur, sem skattheimta ríkisins var komin f, þegar viðreisnarstjórnin tók við völdum 1960, eftir að vinstri stjórnin þá gafst upp vegna óðaverðbólgu. Ég gat um það áðan, að um 72% allra skattgreiðenda greiða tekjuskatt í hæsta skattþrepi og um 58% allra framteljanda greiða tekjuskatt á þessu ári. Árið 1959 var svo komið, að 80% allra framteljenda greiddu tekjuskatt, en eftir þær breytingar, sem viðreisnarstjórnin beitti sér fyrir á skattalögum, snerist þetta hlutfall við, og árið 1960 greiddu um 20% framteljenda tekjuskatt.

Ég mun nú stikla á nokkrum mikilvægum atriðum í sambandi við þróun og meðferð skattamálanna á síðustu árum og áratugum. Árið 1952 fluttu þeir alþm. Jóhann Hafstein og Magnús Jónsson mjög ítarlegt frv. um nýja skattalöggjöf. Í því frv. var m. a. lagt til, að tekinn yrði upp sérsköttun hjóna og þá um leið ákvarðaðir persónufrádrættir í samræmi við þá löggjöf, sem gilt hafði frá 1942. Með frv. 1952 fylgdi ítarleg grg. eftir Sigurbjörn Þorbjörnsson núv. ríkisskattstjóra um skattamál. Þar segir m.a. varðandi sérsköttun hjóna, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvort sem eiginmaður eða eiginkona eða bæði færa peningatekjur til heimilisins, þá afla þau lífsgæða sér til handa beint eða óbeint í sameiningu og að mínu áliti fyllilega að jöfnu, og í flestum tilfellum njóta þau þess að jöfnu. Og hitt er jafnvíst, að tveir eru aðilarnir í þessu tilfelli, miðað við aðeins einn aðila, ef einhleypingur aflar teknanna og nýtur. Skipting á tekjum hjóna til helminga til skattlagningar er því réttlætismál á þeim grundvelli, að tveir afla teknanna, beint eða óbeint, og tveir njóta. Að mínu áliti er hér ekki um að ræða neinn afslátt til handa hjónum, heldur réttláta skattlagningu þeirra sem tveggja einstaklinga, og kemur því ekki til mála að takmarka slíka skiptingu við neitt sérstakt mark lágtekju- eða hátekjuhjóna. Lágtekju- og hátekjuhjón eru hér saman í bát. Greinarmunur á skattgreiðslu af lágtekjum og bátekjum hefur verið framkvæmanlegur með svonefndum „progressive“ skattstigum, og mun verða það áfram, þótt eigi sé mismunað milli hjóna að öðru leyti.“

Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að það var skoðun Alþfl., að reikna ætti konum aðeins hluta af tekjum mannsins, og hafði það komið fram í tillögu hans hér á Alþ.

Í umræddu frv. var einnig gert ráð fyrir veitingu frádráttar vegna heimilisaðstoðar, þar sem hjónin ynnu bæði utan heimilis, svo og fyrir einstæða foreldra með barn á framfæri. Frv. hlaut því miður ekki afgreiðslu

Á þingi 1956 og 1957 voru flutt frv. um sérsköttun hjóna, og var 1. flm. þá Ragnhildur Helgadóttir, en ásamt henni meðflm. þeir Magnús Jónsson og Jóhann Hafstein, auk þeirra þm. Alþfl., Benedikt Gröndal og Pétur Pétursson. Frv. þessi náðu þá ekki fram að ganga.

Árið 1960 beitti viðreisnarstjórnin sér fyrir, að Alþ. markaði þá stefnu, að almennar launatekjur skyldu vera skattfrjálsar. Þá var lögleitt, að persónufrádráttur hjóna skyldi vera 70 þús. kr., einhleypings 50 þús. og 10 þús. kr. fyrir hvert barn innan 16 ára aldurs. Viðmiðun persónufrádráttur hjóna voru árslaun Dagsbrúnarverkamanns. Hann fékk þá fyrir 52 fullar vinnuvikur á ári og í klst. í eftirvinnu með orlofi, en án annarra sjóðstillaga, 65.771,16 kr., sem var hækkað upp í 70 þús. kr. Í l. var einnig gert ráð fyrir 6 þrepum í tekjuskatti. Jafnframt mótaði viðreisnarstjórnin samræmda heildarstefnu í efnahagsmálum, sem skapaði ólíkt meiri festu í verðlagsmálum, peningamálum, skattamálum og á fleiri sviðum en nú tíðkast. Engar grandvallarbreytingar voru síðan gerðar á skattalögum fyrr en árið 1971, því að líta má á þær breytingar, sem gerðar voru 1964 og 1965, sem uppfærslu á persónufrádrætti og öðrum liðum til samræmis við kaupbreytingar, jafnframt því sem skattþrepum var fækkað úr 6 í 3.

Á erfiðleikaárunum 1967–1969 stóð skattvísitalan í stað, en var hækkuð verulega 1970 og 1971. Má setja, að þessi leið hafi verið valin 1967–1969 í stað þess að leggja beint nýjar álögur á almenning, en leitast var við að bæta þetta upp 1970–1971.

Vorið 1970 flutti fjhn. þessar hv. d. frv. samkv. beiðni þáv. fjmrh. um breyt. á l. um tekju- og eignarskatt. Fól það frv. aðallega í sér breytingu á þágildandi l. varðandi skattlagningu fyrirtækja. Frv. var í megindráttum samið í samræmi við till. embættismannanefndar, sem starfað hafði að athugun á þessum málum í tæpt ár. N. var sérstaklega skipuð til að kanna og gera till. um skattalega aðstöðu við fyrirtæki hér á landi með tilliti til aðildar að EFTA, eins og fram kom í grg, með frv. Frv. var nánast lagt fram til kynningar vorið 1970. Viðameira frv. var síðan flutt af þáv. ríkisstj. á næsta löggafarþingi. Í aths. við það frv. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Á síðasta þingi flutti fjhn. Nd. Alþ. að tilhlutan fjmrh. frv. til l. um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt. Frv., sem fól aðallega í sér breyt. á gildandi l., að því er varðar skattlagningu fyrirtækja, var lagt fram í lok þings, einkum til þess að kynna efni þess og kanna viðbrögð þeirra aðila, sem hér gátu átt hlut að máli eða hagsmuna að gæta. Frv. var í megindráttum samið í samræmi við till. embættismannan., sem starfað hafði að íhugun á þessu efni tæpt ár um þær mundir, sem frv. var lagt fram. N. þessi var sérstaklega skipuð til þess að kanna og gera till. um skattalega aðstöðu fyrirtækja hér á landi með tilliti til aðildar að EFTA. Hafði fjmrh. í skipunarbréfi markað n. ramma að meginstefnu, sem hún skyldi miða við í störfum sínum, en að öðru leyti hafði hún mjög óbundnar hendur um sína tillögugerð.

Það kom skýrt fram í skýrslu þeirri, sem n. fjmrh. á s. l. vetri, að till. n., sem þá lágu fyrir, snertu aðeins hluta þeirra atriða, sem hún taldi nauðsynlegt að marka afstöðu til. Því bar að líta á þær till. n. og frv. sem skref í því endurskoðunarstarfi, sem þarna var hafið.

Að loknu þingi tók fjmrh. mál þetta upp að nýju og gaf embættismannan, nýtt og víðtækara umboð til starfa, um leið og hann fól n. að ljúka því verkefni, sem henni var áður falið. Fól ráðh. henni að framkvæma heildarathugun á skattal. með því markmiði annars vegar að gera skattkerfið sem einfaldast, en hins vegar að gera þær breytingar á ákvæðum laga um tekju- og eignarskatt, að því er varðar skatta einstaklinga, sem n. kynni að telja sanngjarnar og eðlilegar. Í því sambandi fól ráðh. n. sérstaklega að taka til athugunar þau frv. til breyt. á skattal., sem flutt voru á síðasta þingi og flestum var vísað til ríkisstj.

Áfram segir í nál.:

„Eins og getið var hér að framan, má líta svo á, að frv. þetta feli í sér heildartill. um frambúðarstefnu um beina skatta til ríkissjóðs á tekjur og eignir í atvinnurekstri. Sambærilegar till. um tekjuskattlagningu og eignarskattlagningu einstaklinga eru ekki enn undirbúnar þannig, að þær verði lagðar fyrir í frumvarpsformi. Engu að síður hefur þótt rétt að taka upp í þetta frv. allmörg ákvæði, sem snerta beina skatta einstaklinga. Þá tillögugerð verður að skoða í því ljósi, að væntanleg sé heildarúttekt á tekju- og eignarskattlagningu einstaklinga í framhaldi af þeirri lagasetningu, sem Alþ. kynni að ákveða á grundvelli þessa frv. Því er ekki efni til að draga saman yfirlit yfir stefnubreytingar, að því er varðar þessa skattlagningu.“

Frv. var samþ., eftir að hafa tekið nokkrum breyt. í meðförum þingsins og eftir að tillögugerð ýmissa umsagnaraðila hafði verið athuguð.

Hin nýju lög mörkuðu verulegan ávinning í átt að því takmarki að gera fyrirtækjum hér á landi kleift að standa á eigin fótum og standast erlendum samkeppnisfyrirtækjum snúning. En dag skal að kvöldi lofa. L. komu aldrei til framkvæmda, þar sem sólmyrkvi varð um miðjan dag og ný ríkisstj. tók við völdum, sem gekkst upp við það að umturna öllu án þess að athuga, til hvers hlutirnir væru gerðir. Rétt er hér, að formaður Félags ísl. iðnrekenda fái orðið, en hann sagði í ræðu sinni á ársþingi félags síns 26. apríl s. l. eftirfarandi varðandi skattalagabreytingu þá, sem gerð var á þingi 1972, með leyfi hæstv. forseta:

„Eitt af því, sem iðnaðinum var heitið við inngöngu í EFTA, var, að hann þyrfti ekki að búa við lakari aðstæður hvað skattlagningu snertir en erlendir keppinautar hans. Voru þessi fyrirheit efnd, þegar sett voru ný skattalög í júní 1971. Iðnrekendur töldu þau mjög til bóta og þau mundu stuðla að traustari uppbyggingu atvinnufyrirtækja. Ári síðar voru þessi lög numin úr gildi og í staðinn sett lög, sem fólu í sér, að tekið var aftur mest af því, sem áunnist hafði. Þar eð þau lög voru látin gilda aftur fyrir sig, fékk atvinnureksturinn aldrei að njóta hinna hagstæðu skattalaga. Með hinum nýju skattalögum var algerlega brugðist fyrirheitunum um jafna aðstöðu íslenskra fyrirtækja við erlenda keppinauta sína. Nú er því brýn nauðsyn, að skattlagning iðnaðarins verði tekin til endurskoðunar og hann fái að búa við kjör, sem gera honum kleift að byggja upp fyrirtækin að eðlilegu leyti með eigin fjármagni.“

Í áliti embættismannan. frá 1970 kennir margra nýmæla, sem tekin voru inn í frv. 1971, auk ýmissa tillagna og ábendinga, sem sumar hverjar skjóta aftur upp kollinum í nýlegu áliti n. um tekjuöflun ríkisins. Segja má, að hugmyndirnar um breytingu á tekjustofnum sveitarfélaga í útsvör án frádráttarbærni og um hærri fasteignagjöld í stað aðstöðugjalda séu þaðan runnar. N. lagði hins vegar til, að persónufrádráttur gilti til útsvars andstætt því, sem núv. ríkisstj. lögfesti. N. taldi rétt, að tekin yrði upp sérsköttun hjóna sem frambúðarstefna, en gerði til bráðabirgða till. um takmörkun persónufrádráttar giftrar konu við hálfan persónufrádrátt hjóna, en takmörkun frádráttar vegna vinnu við atvinnurekstur hjóna, annars eða beggja, við fjórðung þess frádráttar. N. taldi fjölda smárra gjaldstofna, sem til greina kæmi að fella niður. Hún lagði til niðurfellingu nefskatta og minntist á upptöku virðisaukaskatts, en ekki skulu þessi atriði rakin hér nánar.

Í upphafi yfirstandandi kjörtímabils lagði núv. ríkisstj. fram frv. til l. um breytingu á skattalögunum. Í aths. við lagafrv. um tekjuskatt og eignarskatt var vísað til kaupmála ríkisstj., þar sem segir m. a.:

„Endurskoða ber skiptingu verkefna og valds milli ríkis og sveitarfélaga í því skyni að auka sjálfsforræði byggðarlaga.“

Enn fremur segir svo:

Ríkisstj. hefur sett sér þessi höfuðmarkmið: …. Að endurskoða tekjuöflunarleiðir hins opinbera með það fyrir augum, að skattbyrðinni verði dreift réttlátlegar en nú er gert. Slík endurskoðun skattakerfisins haldist í hendur við endurskoðun tryggingalöggjafar í því skyni, að öllum þjóðfélagsþegnum verði tryggðar lífvænlegar lágmarkstekjur. Tekjur, sem einungis hrökkva fyrir brýnustu lífsnauðsynjum, verði ekki skattlagðar. Skattaeftirlit verði hert þannig, að réttlát skattaframkvæmd verði tryggð betur en nú er.“

Það vantaði sem sé ekki fögru fyrirheitin. Um efndirnar þarf ekki að tala. Reynslan er ólygnust. Þm. Sjálfstfl. sýndu fram á margháttaða galla frv. og bentu á margs konar úrbætur. Má í því sambandi vísa til álits 1. minni hl. fjhn., flm. þessa frv. Þar segir m. a., með leyfi forseta:

„Þar sem ljóst er, að frv. þessi, ef að l. verða, muni auka skattbyrði einstaklinga og félaga, og með hliðsjón af því, sem að framan hefur verið sagt, og því ástandi, sem skapast hefur í skattamálum þjóðarinnar vegna ósæmandi vinnubragða ríkisstj., leggjum við fulltrúar Sjálfstfl. í fjhn. til, að frv, verði vísað frá og endurskoðun skattalaganna fram haldið. Við álagningu skatta ársins 1972 vegna tekna, sem aflað var á árinu 1971, verði skattvísitalan á grundvelli gildandi laga ákvörðuð 121.5 stig í stað 106.5 stig, sem gert var ráð fyrir við gerð fjárlagafrv. fyrir árið 1972. Þessi hækkun skattvísitölunnar verði ákveðin með hliðsjón af almennum hækkunum launatekna á s. l. ári, sem er framhald af því, sem fyrrv. fjmrh. ákvarðaði fyrir ári, þegar hann hækkaði skattvísitöluna um 20% í þeim tilgangi að vinna upp það, sem tapaðist á þeim árum, þegar útflutningsverðmæti afurða okkar stórlækkaði og samdráttur varð í atvinnulífinu af þeim sökum. Þannig var ætlunin að vinna upp á þessu ári og næsta, að skattvísitalan fylgdi hækkun almenara launatekna hverju sinni, miðað við eðlilega þróun í atvinnumálum þjóðarinnar, en sú stefna var mörkuð í upphafi viðreisnartímabilsins“ — eins og ég gat um hér áðan.

„Við undirritaðir leggjum til, að heildarendurskoðun á tekjum ríkis og sveitarfélaga haldi áfram á þeim grundvelli, sem fyrrv. ríkisstj. markaði, með nánu samstarfi við samtök sveitarfélaga, landshlutasamtök, samtök launþega, vinnuveitenda og bænda.

Við vitnum til þess, að Sjálfstfl. telur, að skattlagningu til ríkis og sveitarfélaga eigi að haga á þann veg, að hún örvi einstaklinginn til framtaks og sparnaðar, og búið sé að atvinnurekstrinum þannig, að áhugi almennings fari vaxandi fyrir því að vera beinn aðili að atvinnufyrirtækjum.

Til þess að gera þennan ásetning að veruleika ber fyrst og fremst að skattleggja eyðsluna og gæta hófs í skattlagningu sparnaðar. Í samræmi við þetta þarf að halda áfram þeirri viðleitni að draga úr beinum sköttum og stefna þar að ákveðnu marki á tilteknu árabili.

Gera þarf ákveðnar till. um breytta tekju- og verkefnaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga með það fyrir augum að auka hlut sveitarfélaga eða landshlutasamtaka þeirra í stjórn opinberra mála og jafnframt ábyrgð á þjónustu, framkvæmdum og fjármögnun til þeirra. í þessu sambandi kemur mjög til athugunar, hvort ekki sé rétt, að sveitarfélögin ein fái alla beinu skattana til sinna þarfa, en ríkissjóður byggi í framtíðinni tekjuöflun sína eingöngu á óbeinni skattlagningu. Kannað verði, hvort virðisaukaskattkerfið henti íslenskum aðstæðum betur en núv. söluskattskerfi.

Í stað þess að gera skattkerfið flóknara, eins og frv. núv. ríkisstj. stefnir að, minnum við á stefnu fyrri ríkisstj. í þessum efnum um einföldun skattakerfisins, m.a. vegna fyrirkomulags staðgreiðslukerfis, ef upp verður tekið.

Við leggjum því til, að skattar og útsvör á tekjur einstaklinga og félaga verði ávallt miðuð við nettótekjur, og teljum eðlilegt og sanngjarnt, að tekjum hjóna verði skipt til helminga á milli þeirra við álagningu skatta til ríkis og sveitarfélaga.

Við teljum, að eignarskattar hafi með löggjöfinni frá s. l. vori verið ákvarðaðir út frá eðlilegu og sanngjörnu sjónarmiði.

Frv. núv. ríkisstj. hefur mjög íþyngjandi áhrif í sambandi við eignarskatta, sem við teljum að komi óréttlátlega niður og geti dregið úr sparnaði almennings.

Það er skoðun okkar, að fasteignaskattar séu þjónustuskattar til sveitarfélaga og beri að stilla þeim í hóf. Sveitarfélögum sé í sjálfsvald sett innan ákveðins hámarks í l., hvort og að hve miklu leyti þau nýta þennan tekjustofn.

Við vörum við svo mikilli hækkun fasteignaskatta, sem gert er ráð fyrir í frv., sérstaklega ef aðrir tekjustofnar sveitarfélaga eru svo naumir, að þau neyðast almennt til að nota heimildir til álags á fasteignaskatta.

Við leggjum ríka áherslu á, að hinum ýmsu formum atvinnurekstrar verði ekki mismunað í skattgreiðslum, eins og frv. gerir ráð fyrir, og við höfum varað alvarlega við á því á fundum n.

Að lokum er sagt í nál.:

„Frv, ríkisstj. gerir ráð fyrir, að atvinnurekstrinum sé verulega íþyngt. Sú stefna verður að teljast háskaleg með tilliti til þeirrar gífurlegu dýrtíðaraukningar, sem orðið hefur í kjölfar þeirrar stjórnarstefnu, sem nú hefur verið tekin upp, samfara sívaxandi samkeppni á erlendum mörkuðum.“

Við 3. umr. gerðum við ýmsar brtt. við frv. ríkisstj. um tekjuskatt og eignarskatt, bæði varðandi fyrirtæki og einstaklinga. Þessar till. hefðu orðið til mikilla bóta, ef samþ. hefðu verið, en ekki skal nánar gerð grein fyrir þeim að þessu sinni, heldur vísað til þess, sem ég áður las úr nál. 1. minni hl.

Í nál. var lagt til, að reiknað yrði með skattvísitölunni 121.5 stig, en farið yrði að gildandi l. að öðru leyti við álagningu opinberra gjalda árið 1972. Ríkisstj. miðaði hins vegar allan samanburð milli hins nýja kerfis og þess gamla við skattvísitöluna 106.5, sem jafngilti meðalhækkun vísitölu framfærslukostnaðar milli ára. Á sama tíma var gert ráð fyrir, að meðalhrúttótekjur mundu hækka um 21.5%. Í reynd varð hækkun meðalbrúttótekna á framteljanda 26.8%, þannig að síst var of djúpt tekið í árinni með því að reikna með 21.5% hækkun. Ríkisstj. rembdist eins og rjúpan við staurinn að kreista það út úr vélunum, að allir lágtekjumenn og miðlungstekjumenn mundu hagnast á skattbreytingunni, en vélarnar hlutu að gefa útkomu í samræmi við forsendurnar um skattvísitöluna, sem ríkisstj. bjó til, 106.5 stig. Kauplagsnefnd lék sama leikinn og ríkisstj. og miðaði áhrif skattbreytinganna á vísitölu framfærslukostnaðar við vísitöluna 106.5, ef gamla kerfið hefði gilt áfram. Í ágústhefti Hagtíðinda 1972 er skýrt frá niðurstöðum kauplagsn. Þar segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Þessir útreikningar kauplagsn., sem miðast við hjón með 0–5 börn og með 300–600 þús. kr. brúttótekjur á árinu 1971, leiða í ljós, að á móti 13.900 kr. útgjaldalækkun vegna niðurfellingar nefskatta (þ. e. a. s. almannatryggingagjalds og sjúkrasamlagsgjalds) er vegna skattbreytinganna um að ræða aukin útgjöld til greiðslu tekjuskatts og hliðstæðra skatta, sem nema að meðaltali 3.905 kr. Nettóhagur þeirrar fjölskyldu, sem útreikningarnir miðast við, er þannig 9.995 kr. af kerfisbreytingunni. Svarar þetta til 3.8 vísitölustiga.“

Nú vill hins vegar svo til, að skattgreiðslur af tekjum ársins 1971 og fjöldi framteljenda eftir fjölskyldustærð á tekjubilum eru þekktar stærðir. Þingflokkur Sjálfstfl. hefur látið reikna út, hvaða áhrif kerfisbreytingin hefði haft á framfærsluvísitöluna miðað við skattvísitölu 121.5. Útkoman er sú, að álögur þyngjast að meðaltali um 4.099 kr. í stað þess að léttast um 9.995 kr., eins og kauplagsn. lét reikna það út, en kauplagsn. miðaði við skattvísitölu 106,5. Hefði framfærsluvísitalan því átt að hækka um u. þ. b. 1.5 stig í stað þess að lækka um 3.8 stig. Skekkjan var því í ágúst 1972 5.3 vísitölustig.

Er að furða, þó að almenningur vantreysti því, að útreikningar ríkisstj. hafi verið heiðarlegir?

En hvað gerði svo ríkisstj. næsta ár, þegar ákveða átti skattvísitölu á ný? Var hún sjálfri sér samkvæm og fór eftir hækkun vísitölu framfærslukostnaðar, sem hækkaði að meðaltali um 10.4%. Nei, aldeilis ekki. Ríkisstj. sá þá, að vinsældir hennar mundu þverra enn meir en komið var, ef hún skipti ekki um skoðun. Ríkisstj. hækkaði skattvísitöluna um 28%, sem jafngilti áætlaðri meðalhækkun brúttótekna, nákvæmlega eins og Sjálfstfl. lagði til að gert yrði við álagninguna 1972.

Í aths. við fjárlagafrv. fyrir árið 1974, er ekki heldur fylgt vísitölu framfærslukostnaðar hvað ákvörðun skattvísitölu snertir. Hún hækkar um 20.3%, en áætlað var, að vísitala framfærslukostnaðar hækkaði að meðaltali um 17% á árinu, sem þó í reynd verður meira. Hins vegar þýðir þessi skattvísitala, sem er höfð 158 stig til þess að gera hana háa á yfirborðinu, um 500 millj. kr. aukaskattlagningu á einstaklinga, miðað við að meðalhækkun brúttótekna milli 1972 og 1973 hafi verið 25.5% og skattvísitalan verið hækkuð jafnmikið til samræmis. Reyndar er reiknað með því í hinni nýlegu skýrslu um tekjuöflun ríkisins, að brúttótekjur hafi hækkað á milli ára um 28%, sem þá þýðir enn meiri aukareikning til skattþegnanna, um það bil 800 millj. kr.

Fyrir skömmu birti hæstv. fjmrh. skýrslu, sem tekjuöflunarnefnd ríkisins hafði unnið fyrir hann. Í nál. er að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar og athyglisverð sjónarmið, sem mig langar til að vekja athygli á.

Ef fyrst er vikið að því, sem segir um tekjuskatta einstaklinga, gætir þess sjónarmiðs afar glöggt, að einfalda beri kerfið og fækka, ef ekki útrýma alveg undanþágum. Sömuleiðis setur n. fram hugmyndir um samtengingu fjölskyldubóta og persónufrádráttar í skattkerfinu. Enn fremur er minnst á hugmyndir um enn meiri sambræðslu skattkerfis og tryggingakerfis og vísað til þeirra hugmynda, sem unnið er að erlendis, um svonefndan neikvæðan tekjuskatt eða skattafsláttarkerfi, sem einnig mætti nefna viðurkenningarskatt.

Í þessu sambandi má geta þess, að Sjálfstfl. vann að samtengingu fjölskyldubóta og tekjuskattskerfis í tíð viðreisnarstjórnarinnar, en þær till. fengu því miður ekki nægan hljómgrunn, svo að hægt væri að lögfesta þær. Sjálfstfl. hefur einnig nú í athugun samræmingu á þessum atriðum. Sömuleiðis er á hans vegum unnið að athugun á möguleikum þess að tvinna saman skattkerfið og félagsmálakerfið. Þetta hefði ýmsa ótvíræða kosti í för með sér. Með því fengist bæði betri yfirsýn og betri samsvörun. Framkvæmd yrði einfaldari, hæði séð frá sjónarhóli einstaklingsins og hins opinbera. Millifærslur ríkisins minnkuðu og yrðu meira sjálfkrafa.

Æskilegt hefði verið, að n. hefði gert þessum hugmyndum betri skil, en þetta er eitt brýnasta verkefnið á sviði skatta- og tryggingamála. Hefði n. gert það, er líklegt, að annað stórmál hefði ekki farið fram hjá henni vísvitandi eða óafvitandi, en það er staðgreiðsla skatta eða afdráttarskattkerfi. Það ásamt einföldun gildandi kerfis virðist nauðsynlegt skilyrði fyrir því að njörva saman skatta og tryggingabætur að verulegu marki. Í nál. er aðeins einu sinni minnst á staðgreiðslukerfi skatta og það í lauslegu samhengi við annað. Þá verður n. tíðrætt um, hve lágt tekjuskattshlutfallið sé af árstekjum hér á landi, en gerir tiltölulega litið úr hinu háa jaðarskatthlutfalli, nema á einstaka stað.

Á einum stað segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Telur n. æskilegt, að það hlutfall í heild fari aldrei yfir helming af viðbótartekjum.“ Það er engu líkara en nm, hafi lesið samþykktir af fundum Sjálfstfl. í þessum efnum.

Á öðrum stað segir hins vegar, með leyfi forseta:

N. telur ekki sérstakar rökrænar ástæður til að minnka hlut beinna skatta í heildarfjárhæð tekjuöflunarinnar. Teljist það samt sem áður pólitískt nauðsynlegt, álítur n. rétt, að sú lækkun komi fram á tekjuskatti til ríkisins, en að útsvör verði óbreytt. Telur n. eðlilegast, að breyting af þessu tagi, ef gerð yrði, hafi áhrif á stighækkun tekjuskattsins, þannig að rís skattstigans sé minnkað og jaðarskattar lækkaðir enn frekar en ráðgert er samkvæmt næstu mgr.

Þar sem ekkert samráð var haft um efnisatriði skýrslunnar við fulltrúa þingflokkanna, fjallar n. lítið um heildarskattheimtu hins opinbera, hvert stefni í þeim efnum eða hvert beri að stefna. Virðist mega lesa það af þeim dæmum, sem tekin eru í skýrslunni, að gert sé ráð fyrir sömu heildarskattheimtu og nú er, miðað við þjóðartekjur og skattvísitölu fjárlagafrv. fyrir 1974. N. gerir lítið úr því, að hlutfallið sé hátt hér á landi, en rétt er að átta sig á því, eins og ég gat um áður, að það er komið jafnhátt og það var í Danmörku 1970 og hefur aukist verulega í tíð núv. ríkisstj., eða úr 31.8% 1971 í 35.5% með viðlagasjóðsgjaldi árið 1973.

Þótt erfitt sé að tiltaka, hvað sé eðlileg samneysla og eðlileg afskipti ríkisvaldsins af tekjuskiptingu og sveiflujöfnun hverju sinni, væri fyllsta ástæða til þess að skoða verðstefnu hins opinbera í samhengi við skattheimtuna. Það er alls ekki þar með sagt, þótt hið opinbera annist einhverja þjónustu eða framleiðslu, að allt skuli vera ókeypis. Auðvitað kostar opinber þjónusta fé og fórnarkostnað, þar sem þá er verið að taka til sín vinnuafl, fjármagn og hráefni, sem hefði mátt nota til framleiðslu af öðru tagi í þjóðfélaginu. Það er reynslan bæði hérlendis og annars staðar, að ókeypis þjónusta framkallar nær óseðjandi eftirspurn. Þetta hefur aftur á móti í för með sér, að ríkið þarf að auka skattheimtuna enn meir og það mun meira en gert er ráð fyrir í upphafi. Virðist fyllsta ástæða til þess að íhuga ýmsa málaflokka frá þessu sjónarmiði. Jafnframt er ástæða til þess að athuga nánar verðstefnu opinherra fyrirtækja, sem ekki fá verðhækkanir, en er fleytt áfram með sífelldum lántökum. Því miður er lítið fjallað um þessi sjónarmið í nál. Skýrslan gerir nánast ráð fyrir, að annaðhvort sé innheimtan fullt gjald eða ekkert, en ekkert segir um, hvaða heildarfjárhæðir eru í húfi.

Auk þessa minnist n. á atriði í eftirmála, sem ekki hafi unnist tími til að athuga nægilega, áður en skýrslan var afhent, en þau eru sérsköttun hjóna og skattmeðferð á verðmætisauka fasteigna. Frv, það, sem hér liggur fyrir bætir úr vöntun á fyrra atriðinu, þar sem það gerir ráð fyrir sérsköttun hjóna. Hér kemur enn berlega í ljós sambandsleysið við fulltrúa stjórnmálaflokkanna, því að stjórnarandstaðan hefði vafalítið lagt áherslu á þetta atriði, enda er einnig minnst á sérsköttun hjóna í þáltill., sem Alþfl. hefur flutt um lækkun tekjuskatts á einstaklingum, enda þótt ekki sé gert ráð fyrir því þar, að um sérsköttun hjóna verði um að ræða fyrr en 1975.

Frv. sjálfstæðismanna tekur einvörðungu til tekjuskatta einstaklinga, þótt ástæða væri til að taka skattamálin fyrir á breiðari grundvelli. Ástæðan er einfaldlega sú, að gert er ráð fyrir, að breyt. samkv. frv. komi til framkvæmda strax við álagningu 1974. Ef gera á enn meiri breyt. þarf lengri undirbúning um umþóttunartíma. Það er ætið erfiðara fyrir flokk í stjórnarandstöðu að útfæra breytingar en ríkisstj., þar sem hún getur látið embættismannakerfið vinna fyrir sig.

Nauðsyn þess að lækka tekjuskatta einstaklinganna hefur verið rakin, því skal hér vikið beint að ákvæðum frv. og einstökum aths. við það.

Af hálfu Sjálfstfl. er, eins og áður er sagt, frv. þetta skoðað sem áfangi á þeirri leið að minnka beina skattheimtu ríkisins enn frekar. Flm. frv. telja, að sé stærra stökk tekið í einu í þessum efnum, kalli það á gagngera breytingu á öllu skattakerfinu, sem tæki nokkurn umþóttunartíma og krefðist vandlegs undirbúnings á ýmsum tæknilegum framkvæmdaatriðum. Er þá höfð í huga upptaka virðisaukaskatts í stað söluskatts, mótun hentugs staðgreiðslukerfis og e. t. v. breyting á sjálfu tekjuskattskerfinu og tryggingakerfinu, eins og ég hef áður minnst á.

Með frv. þessu er stefnt að því yfirlýsta marki Sjálfstfl., að tekjum og eignum hjóna beri að skipta til helminga milli þeirra, áður en tekju- og eignarskattur er á lagður. Hvort heldur annað hjónanna eða bæði færa peningatekjur til heimilisins, þá afla þau lífsgæðanna sér til handa, beint eða óbeint, í sameiningu og fyllilega að jöfnu, og í flestum tilfellum njóta þau þeirra að jöfnu.

Með frv. þessu er einnig stefnt að því, að fjárhæðir persónufrádrátta verði í nánu samræmi við samsvarandi frádrætti í skattbreytingunni, sem viðreisnarstjórnin framkvæmdi árið 1960. Sömuleiðis er innbyrðis afstaða þessara frádráttarliða í samræmi við það, sem gilti 1960, en ekki í samræmi við gildandi reglur. Persónufrádráttarliðirnir eru við það miðaðir, að tekjur almenns verkamanns árið 1973, sem vinnur 51 stund á viku í fullar 52 vikur, séu skattfrjálsar. Er þá gert ráð fyrir 24.5% hækkun tekna að meðaltali á þessu ári, en þær koma til álagningar á næsta ári. Samsvarar þetta persónufrádrætti, sem gilti við álagningu 1969, en þá voru almennar launatekjur gerðar skattfrjálsar. Enn fremur er með frv. þessu stefnt að því að létta óhóflega álagningu til tekjuskatts á þær hreinu tekjur manna, sem eru umfram persónufrádrátt, þannig að menn haldi ávallt óskertum yfir 50% þeirra tekna, sem þeir afla. Með þeim tekjuskattstiga, sem lagður er til í frv. þessu, ásamt 1% álagi til Byggingarsjóðs ríkisins, fer tekjuskattur aldrei yfir 38%. Sé þar að auki litið til hæstu lögleyfðra útsvara og kirkjugarðsgjalds, er algjört hámark allra skatta af tekjum 49.66%.

Að lokum er með frv. þessu lagt til, að skattvísitala verði ákveðin af kauplagsnefnd í samræmi við breytingar á almennum launatekjum.

Þetta er í fyrsta skipti, sem flokkur í stjórnarandstöðu leggur fram frv. um breytingu á skattalöggjöf, þar sem nákvæmir útreikningar fylgja á því, hvaða áhrif breytingin hafi á fjárhag ríkissjóðs og einstaka tekjuhópa í þjóðfélaginu.

Í grg. með frv. er gerð grein fyrir einstökum greinum frv.

Í 1. gr. kemur fram till. sú, sem áður hefur verið gerð grein fyrir, og um sérsköttun hjóna. Sé sérsköttunar ekki krafist, er samkv. gildandi l. veittur 50% frádráttur án takmörkunar frá launatekjum eiginkonu, sem aflað er hjá vinnuveitanda ótengdum hjónunum eða ófjárráða börnum þeirra. Enn fremur er heimill 50% frádráttur atvinnutekna eiginkonu, sem aflað er í atvinnurekstri hjóna, annars hvors eða beggja, og ófjárráða barna þeirra eða aflað hjá vinnuveitanda, sem er tengdur hjónum eða ófjárráða börnum þeirra. Þessi 50% frádráttur, sem nú gildir, er þó takmarkaður og mátti nema að hámarki 70.400 kr. við síðustu álagningu tekjuskatts. Með frv. þessu eru sérreglur um tekjur eiginkonu afnumdar. Þess í stað er veittur sérstakur frádráttur, sbr. 4. gr. frv., vinni hjónin bæði utan heimilis eða vinni önnur störf en heimilisstörf á heimilinu.

Í 2. gr. er kveðið á um, að frádráttarheimild vegna heimilisstofnunar hækki úr 55.000 kr. í 124 000 kr. og að lífeyrisiðgjald hækki úr 25 000 kr. í 62 040 kr. og hámarksfrádráttur vegna lífsábyrgðar úr 15 000 kr. í 37 200 kr. Þessar breyt. eru til samræmis við breyt. samkv. 4, gr., sem fjallar um breyt. á 16. gr. laganna, þ. e. a. s. til samræmis við persónufrádrátt. Þá er bætt nýjum staflið í þessa grein, þar sem fjmrh. er veitt heimild til að veita sérstakan frádrátt þeim til handa, sem við fiskvinnslu starfa. Því ber ekki að neita, að það gerist oft, að vinnuafl skortir í sambandi við fiskvinnslu, og er með þessari frvgr., gert ráð fyrir því, að fjmrh. hafi heimild til að veita sérstakan frádrátt handa því fólki, sem við fiskvinnslu starfar, til þess að hvetja fólk til að taka þátt í fiskvinnslustörfum.

Í 3. gr. er hækkaður frádráttur, sem veittur er sjómönnum, til samræmis við hækkaðan persónufrádrátt.

Í 4. gr., frv. er gert ráð fyrir því, að persónufrádráttur einhleypings verði 310 000 kr., sameiginlegur persónufrádráttur hjóna 435 000 kr. eða 217 500 kr. hjá hvoru fyrir sig, frádráttur fyrir hvert barn, sem er yngra en 16 ára, 62 000 kr. Ber að skoða þessar upphæðir sem grunntölur, sem breytast eiga miðað við skattvísitölu, eins og kemur fram í 6. gr. frv. Með þeirri skattvísitölu, sem fram kemur í aths. við fjárlagafrv. fyrir 1974, yrðu samsvarandi frádráttarliðir gildandi laga við álagningu 1974 fyrir tekjur ársins 1973 sem hér segir: Einhleypingur 223 300 kr., í stað þess að frv. gerir ráð fyrir 310 000 kr., hjón 338 800 kr. í staðinn fyrir að frv. gerir ráð fyrir 435 000 kr., og barn 42 600 kr., í stað þess að frv. gerir ráð fyrir 62 000 kr. Þá er gert ráð fyrir, að aukafrádráttur einstæðra foreldra hækki til samræmis við persónufrádráttinn. Og í þessari grein er einnig lagt til að veita hjónum frádrátt, ef bæði vinna utan heimilis, og þá höfð til hliðsjónar ákvæði núv. skattalaga í sambandi við það, ef einstakt foreldri heldur heimili og framfærir börn sín.

Þá eru í 4. gr. teknar upp till. okkar sjálfstæðismanna frá síðasta þingi, þar sem gert er ráð fyrir sérstökum frádrætti fyrir aldraða, þ. e. a. s. að þær tekjur, sem aldraðir eða öryrkjar hafa frá almannatryggingunum, verði skattfrjálsar. Ákvæði sama eðlis var komið inn í skattalögin 1971, en núv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar tóku þetta ákvæði út aftur með skattalagabreytingunni 1972, en urðu, eins og alkunna er, að breyta því ákvæði með brbl. sumarið 1972.

Þá er í 5. gr. frv. gert ráð fyrir því að breyta skattstigum til samræmis við þau sjónarmið, sem fram hafa komið í till. Sjálfstfl. varðandi stefnumótun um skattstiga. Þar er gert ráð fyrir, að fyrsta skattþrepið verði fyrir fyrstu 125 þús. kr., sem skattskyldar eru, og greiddur 15% skattur, á næstu 250 þús. kr. verði 25% skattur og af því, sem er þar yfir, þ. e. a. s. yfir 375 þús. kr., verði 38% skattur.

Í 6. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að allir þeir frádráttarliðir, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., hækki samkv. skattvísitölu, sem ákvörðuð verði á hverjum tíma í samræmi við breytingar á almennum launatekjum.

Í fskj., með frv. er gerð ítarleg grein fyrir því, hvernig skattgreiðslur samkv. frv. yrðu og gerður samanburður á því og gildandi lögum. Skal ég ekki eyða tíma hv. þm. til útskýringa, svo glögg eru dæmin, og vísa ég til fskj.

Áhrif þessa frv. liggja í augum uppi. Skattborgararnir hefðu meira ráðstöfunarfé og eyðslustefnu ríkisstj. yrðu takmörk sett. Ef skattlagning 1973 hefði farið fram samkv. frv. þessu, hefðu tekjur ríkissjóðs orðið 3 100 millj. kr. minni en fjárlög gerðu ráð fyrir, en aðeins 1100 millj. kr. minni, þegar í ljós kemur nú, að áætlað er, að tekjur ríkissjóðs 1973 fari 2 000 millj. fram úr áætlun, og er þar tekjuskattur einstaklinga þyngstur á metunum. Með samræmdri stefnu í efnahagsmálum, hagræðingu í ríkisrekstri hefði auðveldlega verið hægt að brúa þetta bil með sparnaði á vissum sviðum og minni framkvæmdahraða, enda mikill vinnuaflsskortur næstum allt árið, sem tvímælalaust hefur verið verðbólguvaldandi.

Hvað viðvíkur fjárlagagerð núv. ríkisstj. almennt er það að segja, að þar er hlutunum gjörsamlega snúið við. Fyrst er settur upp óskalisti eyðslunnar, síðan byrðunum deilt á skattborgarana, hvað sem þeir segja, í stað þess að gera sér í upphafi grein fyrir því, hversu stórt hlutfall áætlaðra þjóðartekna skuli vera hinu opinbera til ráðstöfunar og það þá miðað við efnahagsaðstæður á hverjum tíma.

Komi í ljós, að tekjuskattur einstaklinga samkvæmt frv. þessu ásamt öðrum tekjum ríkissjóðs yrði ekki nægjanlegur til þess að standa straum af fyrirhuguðum útgjöldum fjárlaga 1974, hafa sjálfstæðismenn ekki farið dult með það, að þeir telja, að fremur eigi að skattleggja eyðsluna en tekjuöflunina og minnka fjárstreymið um ríkissjóð með samtengingu tryggingabóta og skattgreiðslna.

Í þessu sambandi má ekki gleyma því, að reynslan sýnir, að lækkun beinna skatta stuðlar að betri framtölum og þar af leiðandi hlutfallslega betri skattheimtu hins opinbera.

Segja má, að frummarkmið skatta sé að draga úr þensluáhrifum opinberra útgjalda, þ. e. að jafna kostnaðinn við framkvæmdir, þjónustu, bótagreiðslur, stjórnsýslu o. fl. Það er hins vegar vandasamt verk að gera skattkerfið þannig úr garði, að það valdi ekki mismunun eða óréttlæti eða þá brengli verðmyndun og dragi úr vilja manna til vinnu. Skiptir oft sköpum, hvernig til tekst í þessu efni. Beinast liggur við að minnast uppbótakerfisins sáluga og alls konar mismununar í óbeinni skattheimtu gegnum tollakerfið, sem reyndar er ekki alveg útrýmt ennþá.

Tveir merkilegir áfangar eru á þeirri leið að móta samræmda efnahagsstefnu og meira réttlæti í skattamálum. Hinn fyrri er viðreisnin 1960, hinn síðari er innganga Íslands í EFTA 1970. Á sama tíma og hlutfall ríkisútgjalda jókst talsvert miðað við þjóðarframleiðslu á öðrum Norðurlöndum, tókst viðreisnarstjórninni að stilla aukningu á ýmsum sviðum hins opinbera í hóf, þannig að hlutfall ríkisútgjalda miðað við þjóðarframleiðsluna jókst tiltölulega lítið á valda tíma viðreisnarstjórnarinnar. Hún hugðist stefna áfram að því marki að gera kerfið enn einfaldara og sanngjarnara, jafnframt því sem þess yrði gætt að álögur yrðu ekki þyngri á atvinnurekstri hér á landi en í öðrum EFTA-ríkjum.

En nú muna menn tímana tvenna. Eins og komið hefur fram í þessari framsögu, hefur hlutfallstala skatta og þjóðarframleiðslu stórhækkað á undanförnum tveimur árum. Fyrir utan þá auknu heildarbyrði, sem lögð hefur verið á skattgreiðendur, hefur bein skattheimta ríkisins aukist að tiltölu, og er nú svo komið, að almenn óánægja er ríkjandi með beina skatta einstaklinga og þá óðaverðbólgu, sem ríkir og hvort tveggja verður til þess, að ráðstöfunartekjur verða minni en ella.

Sjálfstæðismenn vöruðu stjórnina við afleiðingunum af skattabreytingunum, sem hún framkvæmdi árið 1972, og lagðar voru fram ýmsar till. til úrbóta. Ríkisstj. lét sér hins vegar ekki segjast, og súpa nú skattborgararnir seyðið af því. Sjálfstfl. gerir enn á ný tilraun til þess að færa skattkerfið til betri vegar með því að leggja fram frv., sem auk lækkunar beinna skatta felur í sér nokkur gagnmerk nýmæli, og gerð er grein fyrir þeim leiðum, sem fara á til að mæta afleiðingum frv. Eins og fram hefur komið, ætti sú breyting, sem lögð er til í frv., ekki að vera torveldari en sú, sem meiri hluti Alþ. samþykkti árið 1960 að frumkvæði viðreisnarstjórnarinnar, enda eru persónufrádráttarliðir í samræmi við þær tölur, sem þá giltu, að teknu tilliti til verðbreytinga. Lækkun beinna skatta er bæði nauðsynleg og framkvæmanleg.

Herra forseti. Ég legg svo til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. fjh.- og viðskn.