17.12.1973
Neðri deild: 45. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1529 í B-deild Alþingistíðinda. (1392)

134. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Á þsk. 171 er frv. til l. um breyt á l. um tekju- og eignarskatt. Í grg. frv. segir frá því, að þeir, sem samið hafi frv., séu hv. alþm. Gunnar Thoroddsen, fyrrv. fjmrh., hv. þm. Geir Hallgrímsson, fyrrv. borgarstjóri í Reykjavík, hv. þm. Magnús Jónsson, fyrrv. fjmrh. og hv. þm. Matthías Bjarnason, sem er búinn að vera lengi í bæjarstjórn og fjhn., og hv. þm. Matthías Á. Mathiesen, sem er einnig í fjhn., og auk þeirra hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson. Til viðbótar þessum ágæta her manna er svo dr. Guðmundur Magnússon prófessor, og ríkisskattstjórinn, Sigurbjörn Þorbjörnsson, leiðbeinandi í þessum ágæta hópi manna.

Þegar litið er á þetta frv., sem hér liggur fyrir, er mér efst í huga gömul setning, sem segir svo: „Fjöllin tóku jóðsótt og fæddist lítil mús.“ Það, sem hefur verið mest til umr, í sambandi við skattamálin, er einmitt, að það, sem skipti meginmáli, sé, að skattar séu réttilega á lagðir, að þegnarnir í þjóðfélaginu standi nokkurn veginn jafnt gagnvart sköttunum, og ef skattarnir séu réttilega á lagðir, muni þegnarnir þola þá betur.

Um það má í sjálfu sér alltaf deila, hvort á að afla tekna með beinum eða óbeinum sköttum. Ég hef áður gert grein fyrir því á hv. Alþ., að ég væri reiðubúinn og hef setið í samningum nú og sit í samningum enn þá um að lækka beinu skattana, ef á móti komi óbeinir skattar, sem ekki gangi inn í vísitöluna. Það mundu engir menn, sem með þessi mál fara, gera jöfn kaup annars vegar á sköttum, sem ekki fara inn í vísitölu, og hinum, sem fara þangað beint.

En hugsið ykkur nú, hvernig á að koma í veg fyrir skattsvik. Við skulum taka síðasta málsliðinn í 2. gr. þessa ágæta frv. þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt skal fjmrh. að veita þeim, er við fiskvinnslu starfa, sérstakan frádrátt samkv. nánari ákvæðum í reglugerð.“

Allir þeir, sem hafa unnið að skattamálum og eru þeim best kunnugir, og það, sem er uppistaðan í grg. þeirri, sem n. um skattamál hefur lagt fram, mjög vel unninni og merkilegri grg., er að sýna fram á það með ljósum rökum, að allar undanþágur séu hættulegar í skattakerfinu, þær séu það, sem þurfi að forðast, ef skattakerfið eigi að vera réttlátt. Og hugsið ykkur nú valdið, sem fjmrh, er fengið með því, að hann á að ákveða að veita þeim, sem vinna við fiskvinnslu, sérstakan frádrátt. Mér er sem ég sjái það, að fyrirrennarar mínir, hv. þm. Gunnar Thoroddsen og hv. 2. þm. Norðurl. e., Magnús Jónsson, hefðu kosið þetta vald sér til handa, að þeir hefðu átt að ganga í frystihúsin og segja: Þú vinnur í fiski góði, þú átt að fá frádrátt. — Svo hefðu þeir átt að labba út á götuna, þar var maður að vinna við gatnagerð, og segja: Nei, nei, nei, þú vinnur við gatnagerð, góði, og þú skalt ekki fá neinn sérfrádrátt, þeir þarna inni eiga að fá hann. — Svo eru bílstjórarnir, sem keyra fiskinn, og alls konar fólk, sem kemur að þessu óbeint. Nei, nei, nei, þið fáið ekki neitt, ég ákvað, að þeir þarna inni í salnum skyldu fá þetta. — Dettur raunverulega nokkrum hv. þm. í hug, að þetta sé framkvæmanlegt af fjmrh.? (Gripið fram í: Það má setja reglugerð.) Það er nógu erfitt að fást við undanþágurnar, þó að þær séu í lögum, hvað þá í reglugerð. Þess vegna er ég undrandi á því, þegar slíkir menn eins og t. d. hv. 5. þm. Reykv., fyrrv. fjmrh., með jafnmikla reynslu sem fjmrh. og sem borgarstjóri í Reykjavik, skuli láta sér í alvöru detta þetta í hug. Og mér dettur ekki í hug, að honum komi þetta til hugar í alvöru, það væri alveg óhugsandi. Ef við samþykktum þetta frv., þá dytti andlitið af Sjálfstfl. Slíkt slys hefðu þeir aldrei getað hugsað sér að lifa af.

Við skulum halda áfram og líta dálítið betur á þetta. Þeir eru hér að lýsa, hver þróunin í skattamálunum hafi orðið, og þeir hafa gert það áður. Ég sýndi fram á það í fjárlagaræðu minni um daginn, að það, sem hefur gerst í þessu landi og valdið skattbreytingum, eru formsbreytingarnar og hækkunin, sem hefur orðið á almannatryggingakerfinu og sjúkrasamlagskerfinu. Ef þetta hefði ekki komið til á þessum tíma, þá væri skattabreytingin minni nú á árunum 1972–1974 heldur en hún var frá 1969–1971, miðað við tekjur. Þetta sýndi ég fram á með glöggum dæmum. Og ég sýndi fram á það, að það mætti lækka þennan skatt um 3600 millj., ef við vildum hverfa aftur að því að taka upp persónuskattana í tryggingunum, — 35–37 þús. á hjón yrði þetta núna, sjúkrasamlagsgjöldin beint eins og þau áður voru, — og láta svo bæjar- og sveitarfélögin borga sitt. Þetta sýndi ég greinilega fram á. Með þessu móti kæmust þið langleiðina í að lækka skattana eins og þið talið um, hv. flm. En ég dreg það í efa, að það takist eftir öðrum leiðum, og skal þó koma betur að því. Þó skal ég ekki eyða löngum tíma í þetta.

Hér segir í 4. gr. frv., með leyfi hæstv. forseta: „Frá tekjum þeirra, sem eru á framfæri í foreldrahúsum eða við nám, skal draga það, sem sem útheimtist þeim til framfæris eða menningar, eftir nánari ákvörðun skattyfirvalda.“

Hvernig halda hv. þm., að væri fyrir skattstjórana að fara að framkvæma þetta atriði? Nú veit ég, að hv. 5. þm. Reykv., sem mun hafa skipað flesta skattstjórana, skipaði í þetta ágætis lið manna. En drottinn minn dýri, ef ætti að fara að skilgreina þetta, það stæði í þeim mörgum og skattskýrslurnar kæmu þá seint frá þeim sumum hverjum, að ég ætla, og ég held flestum, ef þeir ættu að fara að fást við mörg svona atriði til skilgreiningar. Og mig undrar í sjálfu sér, ef ríkisskattstjóri hefur verið þeim þægur ljár í þúfu við undirbúning tæknihliðarinnar, sjálfstæðismönnum, á þessu frv., ef honum hefur sést yfir framkvæmdina á þessu. Ég mundi með allri virðingu fyrir þeim ágæta embættismanni — telja, að það mundi vefjast fyrir honum og nokkuð yrði skrifað, áður en niðurstaðan yrði komin.

Svo er margt fleira. Í grg, frv. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Þær tillögur, sem hér liggja fyrir um breyt. á l. um tekju- og eignarskatt, eru fyllilega tímabærar.“ Við skulum segja, að svo sé. „Jafnframt teljum við, að þessar breyt. séu viðráðanlegar fyrir ríkissjóð, þar sem hann getur bætt sér upp tekjumissinn með breyttri efnahagsstefnu, sparnaði á ríkisútgjöldum, hagræðingu í ríkisrekstrinum og, ef nauðsyn krefur, með breyttum tekjuöflunarleiðum.“

Svo mörg eru þau orð, og ekki er hér um mikið að ræða. Hér er verið að ræða um fjárhæð, sem er 4500 millj. kr. En má ég minna hv. flm. á það, að þó að þeir skæru út af fjárlagafrv. núna eftir 2, umr. allt framkvæmdafé til barna- og gagnfræðaskóla, allt framkvæmdafé til menntaskóla, allt framkvæmdafé til héraðsskóla, allt framkvæmdafé til byggingar sjúkrahúsa, sjúkraskýla og læknisbústaða, allar hafnaframkvæmdir og lendingarbætur vegagerðarféð allt, Háskóla Íslands, framkvæmdafé þar og til Kennaraháskóla Íslands, iðnskólanna, sjómannaskólanna, dagvistunarheimilanna, Íþróttasjóðs, bændaskólanna, nýja varðskipsins, ríkisspítalanna, landshafnanna og hinna margumtöluðu Grindavíkur, Hafnar í Hornafirði og Þorlákshafnar, þá næðu þeir ekki þessari upphæð. Og svo koma hv. þm. og segja: Með ráðdeild, sparnaði og skipulagsbreytingum má gera þetta allt saman. — Það er hægt að gera þetta, eins og ég sagði hér áðan, með því að færa persónuskattana aftur yfir á fólkið, alveg án tillits til tekna. Þá er hægt að breyta stóru. En það verður ekki gert með ráðdeild, sparnaði eða breytingu á kerfinu. Lengi hafa þeir hv. sjálfstæðismenn setið í ríkisstj., og þeim gleymdist að gera slíkt á þeim 12 árum, sem þeir réðu þar.

Og svo halda þeir áfram, með leyfi hæstv. forseta:

„Af hálfu Sjálfstfl. er frv. þetta skoðað sem áfangi á þeirri leið að minnka beina skattheimtu ríkisins enn frekar.“

Svo er nú það. En hvað er verið að gera hér? Það er verið að minnka beina skattheimtu um tæp 69%. Það er bara áfangi á leiðinni. Hvað yrði eftir, þegar væri komið í hlað, fyrst þetta er bara fyrsti áfanginn, og það getur ekki verið sá stysti, því að það er ekkert rými fyrir það. En dettur hv. þm. í hug, að í raun og veru sé framkvæmanlegt fyrir okkur eða hyggileg stjórnmálastefna að leggja beina skatta alveg niður? Náttúrlega er það miklu eðlilegra en fara þá leið, sem hér er bent á af hv. flm.

Þetta sýnir í raun og veru, að hér er frv. til l. um að gera allt fyrir alla, án þess að það kosti neitt. Það er ekkert annað, sem gerist. Mönnum er boðið upp á, að lækka skuli á þeim skattana, sama sem fella þá niður, og það sé hægt að gera með haganlegum orðum hér á miðsiðunni í grg., það þurfi ekki að kosta annað. Heldur t. d. hv. 5. þm. Reykv., fyrrv. borgarstjóri í Reykjavík, að hann geti stjórnað Reykjavík með svona „apparati“, fögrum orðum, fyrirheitum, að hann þurfi ekki að taka neitt af neinum, en skuli samt gera allt fyrir alla? Nei, það dettur mér ekki í hug, og honum dettur það ekki í hug heldur. Lífið er ekki svo einfalt, að það komi til.

Hv. frsm. nefndi hér ýmislegt gott úr sögu sjálfstæðismanna í skattamálum og nefndi þá árið 1960, þá hefðu þeir náð vissum áfanga. En af hverju nefndi hv. þm. ekki 1964? Það er þó nær okkur, það er styttra síðan, nærri 10 ár. Voru menn ánægðari með skattana þá heldur en þeir hafa verið nú? Ef ég man rétt, var það árið, þegar ríkisstj. hélt sérstakan fund um skattamálin og ráðlagði peningastofnunum að lána skattgreiðendum peninga, til þess að þeir gætu borgað skattana sína. Þetta var samt eftir að „viðreisn“ var búin að vera í nokkur ár og meðhöndla skattamálin ekki með neinu flumbri eða flaustri, heldur af sínum alkunnu hyggindum. Samt gerðist þetta. En í þetta er ekki sérstaklega vitnað í grg. Ef við berum saman þróunina í þessum málum, þá er það nú svo, að 1967–1968 eru beinir skattar svipaðir af þjóðarframleiðslu og þeir eru núna, og þá er skattheimtan um 32%. Og milli áranna 1970 og 1971 var hærri hækkun en hún var á milli 1971 og 1972, þrátt fyrir kerfisbreytinguna. Þess vegna held ég, að ef við lítum á söguna raunhæft, þá sýnir saga þeirra sjálfstæðismanna í skattamálum breyskleik eins og saga okkar hinna og síst betri. Þeir hafa gleymt því góða, sem þeir ætluðu að gera, meðan þeir gátu það, en eru svo að reyna að grípa til þess núna.

En á því er ég mest undrandi, að menn, sem eru svo vanir slíkum störfum og þekkja svo vel til, skuli láta sér detta í hug að bera fram slíkt frv., gera það ekki raunhæft, svo að menn taki það alvarlega. Ég t. d. álít, að Alþfl. hafi tekist þetta miklu betur. Hann setur þó upp ábendingar til athugunar, sem megi vinna úr, en ekki svona algerlega út í bláinn, sem engum dettur í hug, við gætum framkvæmt.

Til þess að gera slíka byltingu á tekjuöflun ríkisins eins og hér er um að ræða, yrðum við að gera stórfellda byltingu í lagasetningu hér á Alþ. Við yrðum að ganga í tryggingakerfið og skera það niður um helming, til að komast út úr þessu, eða skera það niður um 30–40% og taka svo virklegu framkvæmdirnar og yfirleitt skera allt niður. Mér dettur ekki í hug að halda, að Sjálfstfl. legði þetta á sig. Þeir væru þá breyttir frá því, sem þeir voru, ef þeir vilja fallast á slíkt.

Ég er alveg sannfærður um, að það er hægt að gera breytingu á skattakerfinu til bóta, og að því hef ég látið vinna. Grg. sú, sem liggur fyrir núna, er svo vel gerð, að það er mjög auðvelt að vinna að þeim málum með stefnumótandi framkvæmdum eftir þá grg. Ég er alveg sannfærður um, að rétta leiðin í því verður að hverfa meira að brúttóskatti og gera kerfið þannig einfaldara og hverfa frá þeim sífelldu undanþágum, sem hafa innleitt skattsvikin, því að það eru undanþágurnar og aftur undanþágurnar, sem eiga mestan þátt í skattsvikunum, það er ég alveg sannfærður um og eftir því sannfærðari sem ég kynni mér þetta betur. Þess háttar breytingu þarf að gera, og þess háttar breyting verður gerð á kerfinu, og jafnhliða þarf svo að ákveða hlutfallið á milli beinna skatta og óbeinna, og inn í þá breytingu kemur vísitölukerfið. Það þýðir ekkert að vera með vangaveltur yfir því, það hverfa engir frá beinum sköttum yfir í óbeina, ef þeir eiga að borga þá aftur með vísitölunni. Það verður að taka þetta saman. Og það verður að taka tryggingakerfið inn í þetta, og er náttúrlega miklu nær að gera það heldur en það, sem gert var í tíð viðreisnarstjórnarinnar, að setja tryggingarnar upp með þeim hætti, að fjölskyldubæturnar væru liður í vísitölu, sem hefur gert það að verkum, að það er hægt að borga með 13/4 úr krakka. Ef það er í lagi, þá er vísitalan í lagi, og svo er hægt að hætta að greiða með hinum. Þannig er vísitalan byggð upp, og þannig er þetta kerfi byggt upp. Eftir það er alveg sama um þetta, því að þá hættir vísitalan að mæla. En þá er tryggingakerfið hætt að vera tryggingakerfi, eins og það er hugsað.

Nú skal ég ekki fara að þreyta ykkur með lengri ræðu út af þessu frv. Ég vona, að þrátt fyrir að svona skuli frv. sjást hér á hv. Alþ. og það frá jafnfærum og lífsreyndum mönnum og eru á bak við þetta frv., að hv. Alþ. beri gæfu til að vinna að þessum málum á heilbrigðan hátt, en ekki með skrumi og yfirboði, eins og hér er um að ræða, því að það leysist enginn þáttur með því. Það verður ekki hægt að fella niður 4500–4600 millj. tekjur ríkissjóðs án þess að sækja það fé eftir öðrum leiðum. Þess vegna verður niðurstaða mín af þessu, sem ég vil segja nú við 1. umr., að ég hafði reiknað með því, þegar það var auglýst, að sjálfstæðismenn ætluðu að leggja fram sérstakt frv. um tekjuskatt, að einhvers staðar yrði bitastætt í því, en ekki að það væri frv. um það eitt að bjóða upp á að gera allt fyrir alla í sköttum, þeir mættu bara vera skattlágir, ef þá langaði til að vera það, auka á möguleikana til þess að svindla fyrir þá fáu, sem ættu að greiða skatta, og hafa svipinn með þeim hætti, að það væri hægt að leysa ríkisfjármálin með fögrum orðum, því að það veit ég, að þeim dettur ekki í hug, þótt þeir hafi sett það hér á blað. Þess vegna þarf ekki miklum orðum að þessu að eyða, því að þetta verður þeirra vegna og allra annarra, sem betur fer, aldrei að raunveruleika, heldur þarf að vinna að skattamálunum, þar sem tekið er á þeim með raunhæfum hætti, og það er búið að undirbúa grundvöllinn til þess að gera það.