18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1539 í B-deild Alþingistíðinda. (1404)

136. mál, grænfóðurverksmiðjur

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Út af fsp. hv. 5. þm. Norðurl. v. á þskj. 177 vil ég gefa svo hljóðandi svör:

Með bréfi, dags. 2. júní 1972, samþykkti landbrn. áætlun um uppbyggingu grænfóðurverksmiðja í Flatey í Mýrahreppi í Austur-Skaftafellssýslu, á Hólminum í Skagafirði og Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu. Gert er ráð fyrir, að framkvæmdatími við uppbyggingu verksmiðjanna verði allt að 8 ár.

Eftir að þessi áætlun var gerð, kom það í hlut Landnáms ríkisins fyrir hönd ríkissjóðs að kaupa eignir Fóðuriðjunnar h/f að Lindarholti í Saurbæjarhreppi í Dalasýslu, en stjórn Landnáms ríkisins hafði m. a. mælt með, að það yrði gert.

Með kaupum graskögglaverksmiðjunnar í Dalasýslu var raskað þeirri áætlun, sem gert var ráð fyrir 1972. En rn. stefnir að því að hraða uppbyggingu grænfóðurverksmiðja svo sem verða má, og ríkissjóður hefur í því skyni keypt jarðirnar Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu og Flatey í Austur-Skaftafellssýslu.

Í frv. til fjárl. fyrir árið 1974 er gert ráð fyrir, eins og það verður nú, 20 millj. kr. til grænfóðurverksmiðja. Vegna aukinnar fjármagnsþarfar, sem leiðir af kaupum grænfóðurverksmiðjunnar í Dalasýslu og almennum verðhækkunum, er nú í athugun fjármögnun uppbyggingar grænfóðurverksmiðja, og telur rn., að hjá því verði ekki komist að taka fjárfestingarlán, eigi að halda þeim framkvæmdahraða, sem ákveðinn var, sérstaklega eftir að kaupin á Dalasýsluverksmiðjunni komu til. En hjá þeim var ekki komist, nema láta það verða að engu, sem búið var að framkvæma þar. Auk þess ber brýna nauðsyn til þess vegna Vestfjarða að hafa heykögglaverksmiðju í vestanverðri Dalasýslu.

Kaupverð grænfóðurverksmiðjunnar í Dalasýslu var 31 838 749 kr. Frá þeirri fjárhæð var dregið framlag Landnáms ríkisins til verksmiðjunnar, 4 millj. Eftirstöðvarnar, 27 838 794 kr., eru skuldbindingar við erlenda og innlenda lánardrottna, sem ríkissjóður tók að sér að greiða.

Þegar verksmiðjan var keypt, var talið, að viðbótarfjármagn, sem þyrfti til verksmiðjunnar, til þess að verksmiðjan gæti hafið fulla starfrækslu, væri á árinu 1973 2 millj. 775 þús. og á árinu 1974 6.9 millj. kr. eða samtals 9 millj. 680 þús. Ekki er alveg ljóst nú, hvort þarf á þessu fjármagni að halda á árinu 1974. En verksmiðjan starfaði verulega á árinu 1973 og skilaði góðum afköstum.

Ég vil að lokum vekja athygli á því, að málefni heykögglaverksmiðjanna koma nú til sérstakrar athugunar á nýjan leik vegna hinnar miklu verðhækkunar á olíu, sem hlýtur að hafa áhrif á rekstur þeirra.