18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1539 í B-deild Alþingistíðinda. (1405)

136. mál, grænfóðurverksmiðjur

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Um það þarf ekki að fara mörgum orðum, hversu hagkvæmt það er fyrir landbúnaðinn að breyta heyfeng með þessum hætti í kjarnfóður. Ég fagna því, sem fram kom í orðum hæstv. fjmrh., að í athugun væri að taka fjárfestingarlán til þess að standa við þann framkvæmdahraða, sem áætlaður hafði verið í þessu efni. Eins og fram kom í hans svari, var bygging grænfóðurverksmiðju í Flatey á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu efst á blaði, og s. l. vor gaf hann ótvíræð svör um uppbyggingu þeirrar verksmiðju þann veg, að gera mætti ráð fyrir, að hún kæmist í gagnið á árinu 1975. Og ég vil nú spyrja beint að því, hvort ekki megi gera ráð fyrir, að við þá áætlun verði staðið?

Þá vil ég enn fremur inna eftir því, þar sem mér er kunnugt um það, að Búnaðarsamband Austur-Skaftafellssýslu hafði boðið fram að sínum hluta ræktun, en mér er enn fremur kunnugt um það, að ekkert svar hefur verið gefið við þessu boði, og vil þess vegna spyrja: Á að skilja þetta á þann veg, að ekkert sé hirt um þetta boð og það sé hunsað, eða á að skoða þessa þögn sem samþykki við boði Búnaðarsambandsins?