18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1540 í B-deild Alþingistíðinda. (1406)

136. mál, grænfóðurverksmiðjur

Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka svör hæstv. ráðh. og taka undir með hv. 4. þm. Austf. og þakka það, að ekki varð annað skilið á svörum ráðh. en ætlunin væri að standa við þá áætlun, sem fyrir liggur, og enn fremur það, að í till. fjvn. nú fyrir 3. umr. fjárl. er gert ráð fyrir að hækka framlag til grænfóðurverksmiðja á fjárl. næsta árs upp í 20 millj. Þrátt fyrir þetta hygg ég, að ástæða hefði verið til þess að taka stærra skref í þessum efnum, því að ljóst er eftir þeim gögnum, sem mér er kunnugt um, að hér er um töluvert fjárfrekar framkvæmdir að ræða. En ekki kom orð um það efni fram í svari hæstv. ráðh., þótt um það væri spurt.

Varðandi það, sem hæstv. ráðh. sagði, að taka þyrfti þessi mál til nýrrar athugunar vegna mikillar hækkunar á olíuverði í heiminum, þá er það skiljanlegt, vegna þess að þessi fyrirtæki þurfa mikla olíu. En eftir þeim gögnum, sem ég hef undir höndum, sýnist það vera svo, að ef olía hækkar t. d. um 100%, þá muni þurfa að hækka verð á framleiðslu verksmiðjanna um 60–70 aura, vegna þess að hér er um svartolíu að ræða. Hér er því ekki um svo stóran lið í heildarframleiðslukostnaði þessarar vöru að ræða, að það gefi tilefni til að raska áætlun, sem gerð hefur verið um þessi efni.

Ég vil að lokum treysta því, að hæstv. ráðh. sjái til þess, að með fjármagni utan fjárl., með fjárfestingarlánum og á annan hátt verði staðfastlega að því staðið, að þessar verksmiðjur verði byggðar upp með þeim hætti, sem gert hefur verið ráð fyrir. Ég vil minna á í þessu sambandi, að nú eru liðin tvö ár eða a. m. k. tvö sumur, síðan hæstv. ráðh. staðfesti þá áætlun, sem hér liggur fyrir, og það fjármagn, sem fengist hefur til þessara framkvæmda síðan, er miklum mun minna en svo, að með sama hætti verði haldið áfram. Ef svo héldi fram, mundi þessa áætlun reka í algert strand. Þótt framlög á fjárl. næsta árs verði hækkuð upp í 20 millj. kr., nægir það ekki meira en svo til þess að halda sama hraða við uppbyggingu hinna nýju verksmiðja vegna þess, hve mikill hluti af þessu fjármagni fer til að standa við skuldbindingar, sem myndast hafa við kaup verksmiðjunnar í Saurbæ í Dölum. Þrátt fyrir þetta vil ég treysta því, að hæstv. ráðh. sjái til þess, að ekki verði um stöðnun framkvæmda á þessu sviði að ræða.