18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (1410)

393. mál, vextir og þóknun lánastofnana

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Spurt er um það í fyrsta lagi: „Var vaxtahækkun sú, sem ákveðin var s. l. vor, gerð með samþykki ráðh. bankamála og ríkisstj.?“

Stjórn Seðlabankans eða bankastjórar Seðlabankans tilkynntu um þessa ákvörðun sína til ríkisstj., og á fundi ríkisstj. með bankastjórum Seðlabankans í apríllok lýsti ég því yfir, að ég væri persónulega andvígur vaxtahækkuninni, og endurtók þar fyrri afstöðu mína til þessara mála, að ég teldi, að þetta mundi hafa frekar hækkunaráhrif í dýrtíðinni í landinu, en mundi hins vegar ekki hafa mikil áhrif í þá átt, sem til væri ætlast. Það kom skýrt fram á þessum fundi, að það er Seðlabankinn, sem tekur ákvörðun um hámark og lágmark vaxta, og lýsti forsrh. því yfir á fundinum, að samkv. lögum væri hér um ákvörðun Seðlabankans að ræða, sem ríkisstj. þyrfti ekki að taka afstöðu til.

Í öðru lagi er spurt: „Álitur bankamrh., að Seðlabanki Íslands geti ákveðið hækkun og lækkun vaxta án samþykkis ríkisstj.?“

Í 13. gr. l. um Seðlabanka Íslands segir: „Seðlabankinn hefur rétt til að ákveða hámark og lágmark vaxta, sem innlánsstofnanir, sem um ræðir í 10. gr., mega reikna af innlánum og útlánum. Nær þetta vald einnig til að ákveða hámarksvexti samkv. l. nr. 58 1960. Vaxtaákvarðanir skuli birtar í Lögbirtingablaði. Ákvörðunarvald þetta nær einnig til þóknunar, sem jafngildir vöxtum að áliti Seðlabankans.“

Það leikur því enginn vafi á því, að það er réttur Seðlabankans að ákveða um hámark og lágmark vaxta, eins og gert hefur verið. (Gripið fram í: Var ríkisstj. á móti vaxtahækkuninni?) Eins og ég var að enda við að segja, lýsti ég afstöðu minni, en ríkisstj. tók ekki ákvörðun um málið, vegna þess að það var ljóst, að ákvörðun Seðlabankans um málið hafði þegar verið tekin og hann hefur vald til að ákveða þetta samkv. lögum.

Það er nauðsynlegt fyrir menn að átta sig á því, a. m. k alþm., hvað er skráð í lög, hvað þeir hafa sett sjálfir lög um, en það eru einstaka þm. hér, sem ætlast til þess af ráðh., að þeir hagi sér á allt annan hátt en lög mæla fyrir um. (Gripið fram í: Hvernig væri að breyta l.?) Jú, jú, það er hægt að breyta l., en þá ættu alþm. að gera það, ef um það væri að ræða. Enginn bannar það.

Þá er spurt: „Hvað voru vextir hækkaðir mikið s. l. vor, og hvað eru vextir nú: a) í Stofnlánadeild landbúnaðarins“ — og síðan koma margir stafaliðir aftur í h um hina einstöku aðila.

Svör við þessu eru í þessari sömu röð:

a) Við Stofnlánadeild landbúnaðarins eru vextir A-lána nú 8½% til framkvæmda bænda, en voru 6½%, allt ársvextir. Vextir B-lána til íbúðarhúsa eru nú 8% á ári, en voru 6% á ári. Við veðdeild Búnaðarbankans eru vextir nú 10% á ári, en voru 8%.

Svar við b-lið fsp., þ. e. um vexti í Fiskveiðasjóði: Vextir eru óbreyttir við Fiskveiðasjóð, þ. e. a. s. 5½% á ári af skipalánum og 7% af fasteignalánum. Þessi lán eru að verulegum hluta í erlendum gjaldeyri og því með gengisákvæði. Sé um vísitölulán að ræða, eru vextir 61/4% og byggingarvísitala miðuð við 1/10 hluta höfuðstóls lána.

Þá er það c-liður fsp. um Iðnlánasjóð. Vextir við Iðnlánasjóð af vélalánum eru nú 11½%, en voru 9½%. Byggingarlán eru nú með 11% ársvöxtum og að 1/4 á grundvelli byggingarvísitölu.

Þá er það d-liður fsp., það eru vextir af viðskiptavíxlum. Vextir við banka og sparisjóði af víxlum almennt eru 113/4% og upp í 12½%, en voru áður 9½–10%.

Þá er það e-liður fsp. um vexti af afurðavíxlum landhúnaðarins og g-liður um vexti af afurðavíxlum iðnaðar, og er svarið við báðum liðunum í einu. Vextir af afurðavíxlum landbúnaðar og iðnaðar frá viðskiptabanka eru nú 7—9½ %, en voru 6—8½%.

Þá er spurt um vexti af afurðavíxlum sjávarútvegs. Vextir af afurðavíxlum sjávarútvegsins frá viðskiptabanka eru nú 7, en voru 6%.

Og þá er b-liður fsp.: af lánum úr lífeyrissjóðum, hvaða vextir eru af lánum úr lífeyrissjóðum? Vextir af lánum lífeyrissjóða eru talsvert mismunandi, en algengt mun, að vextir hafi verið 8–10%, en hækkuðu í 10–12% á þessu ári.

Þá er 4. fsp.: „Er viðskiptabönkum heimilt að taka þóknun, auk vaxta og stimpilgjalds, ef þeir kaupa víxla? Sé svo, í hvaða tilfellum er slíkt heimilt og hve mikil má slík þóknun vera?“ Svarið er á þessa lund: Bönkum er heimilt að taka þóknun samkv. opinberri gjaldskrá fyrir innlánsstofnanir. Þóknun af almennum víxlum er 0.15% af víxilfjárhæð eða 15 kr., sem lágmark. Af viðskiptamannavíxlum er þóknunin 0.3–1% eftir því, hvort víxlar eru vistaðir innan eða utan þess lögsagnarumdæmis, sem kaupaðili er í, og er lágmarksþóknun 45 kr. og 75 kr.

Þá hefur þessum spurningum öllum verið svarað, en auk þessa hef ég hér skrá, sem birt var í Lögbirtingablaði samkv. því, sem skylt er, yfir þá vexti, sem ákveðnir voru 30. apríl 1973, og er auðvelt að láta fyrirspyrjanda hafa þessa skrá, en hún er lengri en svo, að hægt verði að fara að lesa hana hér, en það er auðvelt að sjá hana í Lögbirtingablaðinu. Ég vænti sem sagt, að þessi svör séu fullnægjandi.