18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (1413)

393. mál, vextir og þóknun lánastofnana

Jón Árnason:

Herra forseti. Mér datt í hug: „Bragð er að, þá barnið finnur“ — þegar ég heyrði ræðu hv. fyrirspyrjanda, Björns Pálssonar, í sambandi við þetta mál. Það eru vitanlega fleiri úr stjórnarherbúðunum, sem finnst, að málin gangi nokkuð í öfuga átt fyrir ríkisstj. í sambandi við það, sem lofað var, og hér kemur fram hjá hæstv. ráðh., um að hann hafi ekki ráðið við þessar vaxtahækkanir. En ég vil spyrja ríkisstj. í heild: Til hvers voru þeir að taka inn í stjórnarsáttmálann, að þeir ætluðu að láta lækka vextina, það stendur þar svart á hvítu, beita sér fyrir því, ef það liggur svo fyrir, að þeir ráða ekkert við þessi mál? Ef þeir ráða engu um þessi mál, því koma þeir þá ekki fram með löggjöf á þingi, sem tryggi þeim að standa við þau loforð, sem þeir hafa gefið í stjórnarsáttmálanum?

Það er staðreynd, sem hér liggur fyrir í þessum efnum, að t. d. sjávarútvegurinn hefur aldrei orðið að búa við jafnháa vexti og nú, við skulum segja í yfirdráttarlánum, sem hann verður meira og minna að bjargast við í sambandi við sinn atvinnurekstur. Þá verður hann að borga 12½%. Slíkt hefur aldrei átt sér stað áður, að ég hygg. Sama má segja í sambandi við Fiskveiðasjóðinn. Ég hygg, að það sé í fyrsta sinn núna, að hluti af þeim lánum, sem Fiskveiðasjóður veitir útgerðarmönnum, er vísitölutryggður, að hluta eru það vísitölulán. Það er algert einsdæmi.

Það er augljóst, að núv. ríkisstj. hefur síður en svo staðið við það fyrirheit, sem hún gaf í stjórnarsáttmálanum varðandi þennan þátt í sambandi við atvinnureksturinn. Það skiptir vitanlega mjög miklu máli, ef sú þróun hefði getað orðið áfram, eins og átti sér stað, þegar vextirnir voru lækkaðir niður í 6%, seðlabankalánin, í sambandi við afurðalán, og annað hefði gengið eftir því. En það er nú eitthvað annað. Um leið og vextirnir eru hækkaðir, er tekið inn í lánakerfið að veita lán að sumu leyti í sambandi við Fiskveiðasjóðinn með vísitölutryggðum lánum. Það segir sig sjálft, að með þeirri verðbólguþróun, sem nú á sér stað og ef hún á um einhverja framtíð að verða í svipuðum mæli og nú á sér stað, þá verður — (Gripið fram í.) — þeir eru 8%, vextirnir af þeim hluta lánanna, sem Fiskveiðasjóður veitir, þá verður það margfalt hærri upphæð, sem þar verður um að ræða.