18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1549 í B-deild Alþingistíðinda. (1415)

393. mál, vextir og þóknun lánastofnana

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Það verður naumast tölum talið, hve oft núverandi stjórnarliðar héldu því fram, bæði í ræðu og riti, að helsta bjargráð í efnahagsmálum væri að lækka vexti. Enn fremur var þetta eitt af þeim atriðum, sem þeir lofuðu þjóðinni, að þeir skyldu hrinda í framkvæmd, í sínum málefnasamningi, sem frægur er orðinn að endemum. Samt sem áður liggur það fyrir, að almennir vextir, vextir stofnlánasjóða a. m. k. sumra atvinnuveganna og vextir afurðalána atvinnuveganna hafa aldrei verið hærri en þeir eru í dag. Ég hygg, að það þýði ekki að segja hvorki hv. Alþingi né þjóðinni í heild, að þessi vaxtahækkun hafi verið gerð án samþykkis núv. hæstv. ríkisstj. Og meira að segja gegn vilja núv. hæstv. bankamrh. Því trúir ekki nokkur maður, þrátt fyrir það að hæstv. bankamrh. hafi nú margítrekað yfirlýsingar sínar um þetta efni.

Ég vil láta það koma hér fram, að þrátt fyrir það, að Framsfl. hafi um áraraðir talið sig vera mesta málsvara bændastéttarinnar og eitt af mestu hagsmunamálum bænda væri að fá lækkaða vexti af sínum stofnlánum og afurðalánum, er svo komið, að vextir af þessum lánum eru bærri nú en nokkru sinni hefur áður gerst. Ég hygg, að það hafi komið ýmsum bændum, sem trúðu á þennan fagurgala Frumsóknarforingjanna, í helst til opna skjöldu, þegar þessi vaxtahækkun dundi yfir.

Ég endurtek, að það er of ótrúleg saga, til þess að nokkur trúi, að þessar vaxtahækkanir hafi verið gerðar án samþykkis núv. hæstv ríkisstj.