18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1550 í B-deild Alþingistíðinda. (1417)

393. mál, vextir og þóknun lánastofnana

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður. Ég vildi bara ítreka það, sem ég tók fram áðan og ekki kom fram hjá hæstv. sjútvrh. í sambandi við vísitölutryggðu lánin, að það er eitt af því versta, sem um er að ræða, ef sjávarútvegurinn verður að fara meira og meira út í að bjarga sér á lánum frá Fiskveiðasjóðnum, sem verða tekin handa honum og endurlánuð með vísitöluklásúlu. Við vitum allir, hvernig það er í lánakerfinu, og núv. stjórnarflokkrar, á meðan þeir voru í stjórnarandstöðu, voru ekki svo lítið búnir að ræða um þá byrði, sem t. d. var varðandi húsnæðismálin með þeirri klásúlu, sem var á þeim. Maður hefði síst búist við því, að það yrði farið að bjarga sér með Fiskveiðasjóðinn á slíkum lánum.

Ég minntist líka áðan á þau fyrirheit, sem voru í stjórnarsáttmálanum. Þær koma einkennilega fyrir sjónir, þær upplýsingar, sem hér koma frá hæstv. sjútvrh., að ríkisstj. hafi engin afskipti haft af vaxtahækkun, sem nú hefur átt sér stað. Hann segir: Ég skal ekkert um það segja, hvað gerst hefði, ef ríkisstj. hefði beitt sér gegn þessari vaxtahækkun. — Það liggur þá á borðinu — að hún hafi ekki beitt sér gegn henni, hún hafi ekki viljað standa við þau loforð, sem hún gaf í stjórnarsáttmálanum. Það er gott, að þetta liggi á borðinu.

Varðandi þau afrek, sem núv. ríkisstj. er búin að gera til þess að leiðrétta afurðalánin, má geta þess, að þegar hún tók við, voru seðlahankalánin með 6½% vöxtum. Þau eru komin nú upp í 7, og það munar ½%. Það eru öll afrekin í þessum efnum eftir 2½ ár, og virðist stefna í öfuga átt um óhagstæð vaxtakjör fyrir sjávarútveginn.