18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1553 í B-deild Alþingistíðinda. (1422)

395. mál, fjöldi starfsliðs við stjórnsýslu

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Hér er um að ræða fsp. frá Heimi Hannessyni varaþm. um fjölda starfsliðs við stjórnsýslu.

Fyrri liður fsp. hljóðar svo: „Hversu stór hluti þjóðarinnar starfar við opinbera stjórnsýslu, þ. á m. bankastörf og önnur opinber þjónustustörf á vegum ríkis og sveitafélaga?“ Þetta er út af fyrir sig alveg skýr spurning og hægt að svara henni, þó að ekki sé mælt fyrir henni. Ég sendi hana til hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunarinnar, en hún gat ekki svarað henni miðað við daginn í dag. Hins vegar segir í umsögn frá Hagrannsóknadeildinni:

Samkv. skýrslum um slysatryggðar vinnuvikur var atvinnumagn við opinbera stjórnsýslu og aðra opinbera þjónustu sem hér segir á árunum 1963 og 1971, tekið til samanhurðar. Og þá er það fyrst í mannárum, 1963 var opinber stjórnsýsla 2410, en 1971 3210. En í prósentum var þetta sem hluti af heildaratvinnu 1963 3.6%, en 1971 3.8%. Önnur opinber þjónusta en það, sem fært er undir stjórnsýslu, í mannárum 1963 5360, en 9630 1971. Sem hluti af heildaratvinnu er þetta 1963 7.9%, en 1971 11.3%. Alls í opinberri þjónustu samkv. þessum liðum í mannárum 1963 7770, en 1971 12840, hluti heildaratvinnu 1963 11.5%, 1971 15.1%. Auk þess eru svo bankar, sparisjóðir, fjárfestingarlánasjóðir og þess háttar 1963 með 950 í mannárum, 1971 1600, hluti af heildaratvinnu 1.4% 1963, 1.9% 1971. Almannatryggingar, lífeyrissjóðir, sjúkrasamlög, sjúkrasjóðir og þess háttar í mannárum 1963 110, 1971 230, hluti af heildaratvinnu 0.2% 1963 og 1971 0.3%. Alls í opinberri þjónustu, við rekstur almannatrygginga og peningastofnana í mannárum 1963 8830, 1971 14670, hluti af heildaratvinnu 1963 13.1% og 1971 17.3%.

2. liður fsp. hljóðar svo: „Eru á dagskrá fyrirætlanir stjórnvalda um að reyna að koma því til leiðar, að hluti þessa vinnuafls hefji bein störf hjá framleiðsluatvinnuvegunum?“ Þessu er því til að svara, að það er ekki um að ræða neinar beinar fyrirætlanir í þessu efni. Helst væri að benda á, að eina raunhæfa leiðin í þessu skyni er í raun og veru alhliða efling atvinnulífsins og aðhaldssemi við útgjaldaákvarðanir hins opinbera.