18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1554 í B-deild Alþingistíðinda. (1424)

397. mál, Félagsmálasáttmáli Evrópu

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vestf, bar fram svipaða fsp. í aprílmánuði 1972, eins og hann reyndar greindi frá áðan. Í svari mínu rakti ég nokkuð sögu sáttmálans og mun ekki endurtaka það nú, aðeins láta þess getið, að ég er alveg sammála því, sem hv. þm. sagði um gildi sáttmálans. Ég gat þess jafnframt, að félmrn. hefði haft til meðferðar málið um aðild Íslands að sáttmálanum og að utanrrn. hefði oft spurst fyrir um gang málsins hjá félmrn. En utanrrn. gerði þegar á árinu 1965 drög að íslenskri þýðingu á félagsmálasáttmálanum.

Hinn 28. apríl 1972 ritaði utanrrn. bréf til félmrn. og spurðist fyrir um, á hvaða stigi málið um félagsmálasáttmálann væri, og óskaði eftir svörum fljótlega. Það var þegar fyrri fsp. var komin fram. Þau svör hafa ekki borist. Hinn 7. des. s. l. gerði utanrrn. munnlega fsp. til félmrn. og fékk þau svör, að málið væri enn í athugun, en þeir þættir félagsmálasáttmálans, sem tækju til félagslegs öryggis og almannatrygginga, heyrðu nú undir heilbr.- og trmrn. í dag ræddi ég mál þetta við hæstv. félmrh., og tjáði hann mér, að úr þessu mundi bætt strax eftir jólaleyfið og mundi hann hafa forgöngu um það.

Af utanrrn. hálfu er að sjálfsögðu ekkert því til fyrirstöðu að fullgilda sáttmálann, strax og jákvæð svör berast frá hlutaðeigandi ráðuneytum.