18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1555 í B-deild Alþingistíðinda. (1425)

397. mál, Félagsmálasáttmáli Evrópu

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir svör hans. Því miður lýsir það, sem fram kom í svari hans, ekki góðum vinnubrögðum hjá hæstv, ríkisstj. eða a. m. k. í sumum rn. Það kom fram, að hæstv. utanrrh. hafði strax eftir fsp. mína 1972 skrifað félmrn., en ekki fengið svör. Það er ekki vansalaust af hálfu eins rn. að láta undir höfuð leggjast að svara bréfum. Þó er hér um svo mikilvægt málefni að ræða, að maður skyldi halda, að meðan maður, sem hefur um áratugaskeið staðið fremst í verkalýðshreyfingunni á Íslandi, var félmrh., hefði hann átt að hafa þá ábyrgðartilfinningu og áhuga að tryggja einmitt, að þetta sjálfsagða mál kæmist í framkvæmd í hans stjórnartíð. Nú er sá tími liðinn.

Nú er hins vegar kominn nýr félmrh., og ég vænti þess, að hann láti nú hendur standa fram úr ermum, svo að hægt verði að ganga frá þessu máli, og þeim mun fremur þar sem mér sýnist, að samkv. eðli málsins hafi hann einnig heilbrmrh. við hlið sér. Ég treysti því, að þær breytingar, sem hafa orðið í þessu efni, leiði til þess, að málið komist í framkvæmd hið fyrsta.