18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1556 í B-deild Alþingistíðinda. (1427)

398. mál, framkvæmd sveitarafvæðingar á Austurlandi 1973

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Ég hef vísað þessari fsp. til Rafmagnsveitna ríkisins og fengið svar það, sem hér fer á eftir:

„Í tilefni fsp. á Alþ. frá Vilhjálmi Hjálmarssyni varðandi rafvæðingu sveita á árinu 1973. Fyrsta fsp. er: „Hversu mörg býli af þeim, sem eru á framkvæmdaáætlun 1973, verður eftir að tengja um næstu ársmót?“ Um þetta skal upplýst eftirfarandi:

Á framkvæmdaáætlun voru um 260 býli og aðrir staðir í sveit. Af þessari tölu eru 248 býli, en 18 þeirra hafa fallið út samkv. óskum landeigenda af ýmsum ástæðum. Ef fleiri falla ekki út, munu málin standa þannig um n. k. áramót, að 131 býli verður þá tengt, en 99 býli flytjast yfir áramót til tengingar. Yfirlit þessara mála eftir landshlutum er þetta, miðað við árslok 1973:

Vesturland, tengd 33 býli, ótengt ekkert býli. Vestfirðir, tengd 16 býli, ótengd 20 býli.

Norðurl. v., tengd 10 býli, ótengd 3 býli.

Norðurl. e., tengd 13 býli, ekkert býli ótengt. Austfirðir, tengd 40 býli, ótengd 45 býli.

Suðurland, tengd 19 býli, ótengt 31 býli.

Mörg af hinum ótengdu býlum vantar aðeins spennistöðvar, og er fljótlegt að tengja þau skömmu eftir áramót, þegar spennar berast til landsins. Önnur eru skemmra á veg komin, og má þar sérstaklega nefna Skaftártungu og nágrenni, en við það verk er vinnuflokkur, sem starfar þar áfram í vetur. Enn fremur má nefna Vestfirði, sérstaklega sunnan Patreksfjarðar, en þar dragast framkvæmdir sennilega nokkuð fram eftir sumri vegna veðurfars.

2. fsp. er: „Hvað veldur seinkun þessara framkvæmda?“ Um þetta mál vil ég leyfa mér að taka þetta fram:

1. Á árinu 1973 var gert ráð fyrir að rafvæða um 260 býli og aðra staði í sveit. Til þessara framkvæmda þurfti að byggja um 560 km af háspennulínum og setja upp um 230 spennistöðvar.

2. Tafir á framkvæmdum hafa verið af neðangreindum sökum: Stólpar, sem afgreiðast áttu í júní frá Finnlandi samkv. samningi, voru ekki afgreiddir fyrr en í ágúst vegna verkfalla þar í landi. Spennar frá Bandaríkjunum, sem áttu að afgreiðast í sept., okt. og nóv., 60 stykki í hverjum mánuði samkv. samningi, eru ókomnir enn þá, en 80 stykki væntanleg nú um miðjan des. Efni og vinnuflokkum, sem ætlað var til framkvæmda sveitarafvæðingar, þurfti um tíma að ráðstafa til lagningar línu vegna Viðlegasjóðshúsa víðs vegar um landið. Þannig var t. d. einn slíkur vinnuflokkur um mánaðartíma við byggingu línu til viðlagasjóðshúsa í Keflavík.

Því miður hefur orðið seinkun á þessum framkvæmdum nú, en svo hefur verið á flestum árum í nokkrum mæli, að hluti áætlaðrar rafvæðingar flytjist yfir til byrjunar næsta árs. Á stundum hefur það ekki komið að sök, vegna þess að bændur hafa þá ekki verið tilbúnir með raflagnir í húsum sínum, en í öðrum tilvikum hefur þar átt sök á skortur á áætluðum framkvæmdahraða Rafmagnsveitnanna. Hið síðarnefnda mun aðallega, því miður, eiga við um seinkun þá, sem orðið hefur um rafvæðingu 1973, en Rafmagnsveiturnar munu reyna, svo sem kostur er, að vinna upp þær tafir á fyrri hluta ársins 1974.

Valgarð Thoroddsen.“

Við þetta vil ég bæta því, að ég tel þann drátt, sem þarna hefur orðið á framkvæmdum algerlega óeðlilegan. Eins og fram hefur komið, liggur við, að það sé ekki nema rúmlega helmingur þeirra býla, sem átti að rafvæða á þessu ári, sem munu fá rafmagn fyrir áramót. Þó að þannig sé um allar okkar áætlanir, að þar geti orðið ýmsar tafir, sem erfitt er að sjá fyrir, tel ég þennan mun svo mikinn, að mjög erfitt sé að una því, og ég mun fyrir mitt leyti reyna að sjá til þess að kannað verði, hvort ekki sé hægt að standa þarna betur að verki framvegis. Ég er ekki þeirrar skoðunar, sem fram kom áðan hjá hv. þm. Ingólfi Jónssyni, að viðreisnarstjórnin hafi gert rafvæðingaráætlun, sem hafi verið svo yfirmáta snjöll, að það hafi ekki verið með nokkru móti hægt að hnika neinu sem þar var gert ráð fyrir. Í þeirri áætlun var gert ráð fyrir að rafvæða á 4 árum. Við endurskoðuðum þá áætlun og töldum, að hægt væri að gera þessa framkvæmd á þremur árum, og ég tel, að sú endurskoðun hafi verið fullkomlega raunsæ. Eins og hv. fyrirspyrjandi tók fram, hefur ekki skort fé til þessara framkvæmda.

Hvað þá áætlun varðar, sem hv. þm. Ingólfur Jónsson talaði um, þá var hún ekkert annað en áætlun á blaði. Viðreisnarstjórnin hafði ekki gert neinar ráðstafanir til að tryggja fjármagn til þessara framkvæmda, en þær eru að sjálfsögðu mjög fjármagnsfrekar, og eftir reynslunni af sveitarafvæðingu í tíð viðreisnarstjórnarinnar er ósköp hætt við, að mikill dráttur hefði þar orðið á, því að nú síðustu ár hefur á sumum hlutum landsins verið framkvæmt meira á þessu sviði, en áður hafði verið gert í heilan áratug.