18.12.1973
Efri deild: 44. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1562 í B-deild Alþingistíðinda. (1439)

102. mál, veiðar með botnvörðu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að bera fram skrifl. brtt., þar sem ekki hefur unnist tími til að fá hana prentaða og útbýtt, við 10. gr. frv., þar sem segir, að ráðh. sé „heimilt, að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar, að veita eftirgreindar veiðiheimildir í fiskveiðilandhelginni, auk þess, sem annars staðar er getið í lögum þessum“. Inn í þessa mgr. vil ég bæta Fiskifélagi Íslands, þannig að 1. mgr. 10. gr., hljóði svo:

„Ráðh, er heimilt, að fenginni umsögn Fiskifélags Íslands og Hafrannsóknastofnunarinnar, að veita eftirgreindar veiðiheimildir í fiskveiðilandhelginni, auk þess, sem annars staðar er getið í lögum þessum.“

Þá er það till. mín í samræmi við þessa, að síðasta mgr. 10. gr. hljóði svo: „Togveiðiheimildir samkv, tölul. nr. 1–8 skulu jafnan vera tímabundnar.“ Er það á sama veg og er í frv. nú, en niður mundi falla eftirfarandi orð: „og auk umsagnar Hafrannsóknastofnunarinnar skal ráðh. leita umsagnar Fiskifélags Íslands eða annarra aðila, þegar honum þykir ástæða til.“

Hér er sem sagt um tiltölulega mjög saklausa breytingu að ræða. Ráðh. er gert skylt að fá umsögn bæði Fiskifélags Íslands og Hafrannsóknastofnunarinnar, eins og ég tel eðlilegt og sjálfsagt, þar sem Fiskifélag Íslands hefur innan sinna vébanda flest hagsmunasamtök útgerðarinnar í landinu, og því er rétt, að ráðh. hafi til hliðsjónar umsögn þeirra aðila jafnframt umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar. Enda er það svo, að í lok gr. er í raun og veru óþarft að tala um, að ráðh. skuli leita umsagnar Fiskifélags Íslands eða annarra aðila, þegar honum þyki ástæða til, því að í augum liggur uppi, að ráðh. hefur þetta vald, án þess að þess sé sérstaklega getið í lögum.

Ég vænti þess, að hv. þdm. geti fallist á þessar brtt.