18.12.1973
Efri deild: 44. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1562 í B-deild Alþingistíðinda. (1441)

102. mál, veiðar með botnvörðu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna brtt. á þskj. 290, sem ég tel satt að segja að stefni þessu máli í algeran voða, sérstaklega b-liður, við F. 4, þar sem lagt er til, að togveiðiheimildir á Breiðafirði verði auknar frá því, sem er í frv., með því að færa línuna, sem takmarkar þessar heimildir að norðanverðu, nær Bjargtöngum og Látrabjargi almennt.

Þetta á sér nokkra sögu, og verð ég að skýra það, þótt ég skuli hafa um það eins fá orð og ég get.

Áður fyrr var þessu hagað svo, að á Breiðafirði voru þarna tvö hólf. Syðra hólfið var opið frá 1. júní til 16. sept., en nyrðra hólfið opið frá 16. sept. til 1. jan. Þetta var gert með tilliti til þess, að á norðurhlutanum eru stundaðar dragnótaveiðar frá suðurhluta Vestfjarða, en þær eru þar einkum á fyrri hluta þessa tímabils, þ. e. á tímabilinu frá 1. júní til 16. sept., en þá var nyrðra hólfið lokað fyrir togveiðum. Þessar veiðar fara ekki vel saman, og um þetta varð samstaða, þegar þessi skipan var upp tekin á sínum tíma. Fiskveiðilaganefnd virtist vera ríkjandi áhugi á því við Breiðafjörð, eða á Snæfellsnesi réttara sagt, að togveiðar þarna yrðu minnkaðar frá því, sem er. Að vísu skal það viðurkennt, að um það voru allskiptar skoðanir og margar komu fram, en almennt var það niðurstaða okkar, að rétt væri að stefna að slíku. Því var horfið að því að færa austurlínu þessara hólfa utar. Við það minnkuðu hólfin verulega og einnig þótti mönnum vafasamt að skipta þessu í tvennt, og var þá tekin upp sú till. að færa nyrðri línuna, eins og nú er í frv., suður á 65°16', ef ég man rétt, þannig að dragnótaveiðar, sem þar eru fyrir norðan, fengju þá að vera í friði, en hólfin, sem eftir eru, yrðu hins vegar í einum tíma. Við það stækkar syðra hólfið frá því, sem það hefði orðið, ef þessu hefði verið skipt eftir fyrri reglu.

Ég teldi fyrir mitt leyti koma til greina að hafa þetta svæði stærra, eins og lagt er til í brtt., en skipta því þá með tilliti til tíma, eins og áður var. Það þótti mönnum, eins og ég sagði, gera hólfin tvö of lítil og því óeðlileg framkvæmd. Ég held hins vegar, að með því að stækka hólfið án þess að hafa tvískiptan tíma þarna sé málinu stefnt í hreinan voða.

Ég vil einnig vekja athygli á því, að á norðurhlutanum eru togveiðar að ýmsu leyti erfiðar. Þar eru hraun og grynningar og aðeins á takmörkuðum punktum, sem unnt er að toga. Svæðið er langtum hentugra fyrir dragnótaveiði, og fyrir færaveiði, sem þar er mikil. Ég legg því ríka áherslu á fyrir mitt leyti, að liður F. 4 verði ekki samþykktur, þ. e. a. s. stækkun þessa hólfs.

Um aðra liði í þessari till. vil ég segja það, að ég er út af fyrir sig ekkert undrandi yfir því, að flm. vilja flytja línuna frá 6 sjómílum í 9 sjómílur í lið F. 2. En ég vil varpa fram þeirri spurningu, hvort með slíkri breytingu sé ekki verið að stefna málinu í vandræði. Það náðist samkomulag um auknar togveiðar, ekki eingöngu fyrir Vesturlandi, heldur einnig fyrir Suðurlandinu öllu, og ég óttast, að með slíkri breytingu fylgi aðrar breytingar á eftir í Nd.

Um c-liðinn skal ég ekki fjölyrða. Ég sé satt að segja ekki ástæðu til að veita þessa heimild. Frv. stefnir að því að minnka togveiðar á innfjörðum, og ég held, að sú heimild sé algerlega óþörf og ekki í anda frv.