18.12.1973
Efri deild: 45. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1580 í B-deild Alþingistíðinda. (1454)

152. mál, tollskrá o.fl.

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Á þskj. 250 ber ég fram ásamt hv. 1. landsk. þm. tvær brtt. við 3. gr. frv. undir heimildarlið:

„1. Að endurgreiða með nánar ákveðnum skilyrðum gjöld af efni, vélum og tækjum í hitaveitur.“

Sá atburður gerðist á laugardaginn var á Suðurnesjum, að stofnað var til samveitu með Suðurnesjum, og ríkisvaldinu, og mér þykir rétt að vekja athygli á þeirri hugmynd, að hitaveitur njóti sama réttar í sambandi við tollaeftirgjafir og rafveiturnar. Þess vegna berum við þessa till. fram og segjum í till.: „með nánar ákv. skilyrðum“ af hendi rn. Tel ég, að það sé vel hægt að verða við því varðandi stofnveiturnar, því að það hefur komið fram í ræðum manna á hv. Alþ., að ekki er um betri kjarabót að ræða nú fyrir almenning á landinu á þeim stöðum, þar sem það er hægt, en að framkvæma hitaveitu og útvega mönnum heitt vatn. Og það mundi flýta fyrir því að gera stofnveituna eins ódýra og hægt er, af því að við verðum að útvega mikið lánsfé í því efni, hvort sem um er að ræða bæjarfélög eða aðrar samvinnuheildir.

2. liðurinn er varðandi það að endurgreiða af nýsitækjum í skólum. Það mætti segja, að þessi liður fari, eins og frsm. meiri hl. sagði, úr vinstri vasanum í þann hægri. En það er nú svo, að fjárveitingar eru oftast eins lágur og hægt er að komast af með, en ekki öfugt, þannig að ég held, að það mundi flýta fyrir þróun nútímakennslutækni, að ekki verði reiknað með eins háum gjöldum og tollar eru af þessum hlutum í tollskrá.

Ég vænti þess a. m. k., að hv. d. geti léð því lið að liðka til í sambandi við stofnveitur í þágu hitaveituframkvæmda.