18.12.1973
Neðri deild: 46. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1581 í B-deild Alþingistíðinda. (1456)

167. mál, Norðurlandasamningur um hjúskap, ættleiðingu og lögráð

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti.

Það frv., sem hér liggur fyrir, er um það að veita ríkisstj. heimild til að fullgilda samning, sem undirritaður var í Stokkhólmi 20. nóv. s. l., en sá samningur eða það samkomulag felur í sér nokkrar breytingar á Norðurlandasamningi frá 1931 um hjúskap, ættleiðingu og lögráð. Ástæðan fyrir þessum viðbótarsamningi nú er sú, að Svíþjóð hefur sett hjá sér ný hjúskaparlög, sem eru nokkuð á annan veg en hin samræmdu hjúskaparlög á hinum Norðurlöndunum, og þessum viðbótarsamningi er ætlað að brúa það bil, sem þar er á milli, og leysa úr þeim vandkvæðum, sem af því lagamisræmi gætu hlotist.

Það er gert ráð fyrir því, að þessi viðbótarsamningur á milli Norðurlandanna öðlist gildi 1. jan. eða 1. júlí næst á eftir, að hann hefur verið fullgiltur, og er nú lögð áhersla á það af hálfu hinna Norðurlandanna, að það sé gengið frá þessu fyrir l. jan. Þess vegna er óskað eftir þessari lagaheimild nú fyrir áramótin, og er óskað eftir því, að þetta frv. verði afgreitt, áður en þingi er frestað.

Frv. hefur gengið í gegnum Ed., og var þar afgreitt alveg ágreiningslaust. Ég vona, að hér verði ekki heldur neinn ágreiningur um það og hægt verði að afgreiða það á þeim stutta tíma, sem eftir er fram að jólaleyfi.

Samningur þessi er prentaður þarna með sem fskj., og í aths. eru gefnar skýringar á því, hvers efnis þær greinar eru, sem þar er um að ræða. Ég sé ekki ástæðu til að fara að lesa það upp hér eða gera nánari grein fyrir því, en ég vil leyfa mér að óska þess, að frv. verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til hv. allshn. Vil ég beina þeim tilmælum til hennar, að hún vildi nú svo vel gera að afgreiða þetta frv. með nokkrum hraða. Ég veit ekki, hvort hér eru nokkrir allshn.-menn í salnum, en það verður þá reynt að hafa samband við þá. Ég leyfi mér sem sagt að leggja til, að frv. sé vísað til hv. allshn.