18.12.1973
Neðri deild: 46. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1582 í B-deild Alþingistíðinda. (1460)

94. mál, lyfjaframleiðsla

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Þess gerist ekki þörf, að ég fylgi þessu frv. úr hlaði hér í Nd. með langri ræðu. Ég flutti þetta mál á síðasta þingi og þá í hv. þd. hér. Um það urðu nokkrar umr., og um það var fjallað í n. Að þessu sinni var það hins vegar lagt fram í Ed., og stafaði það af því, að ég hef lagt það fyrir mín rn. að skipta málum á milli d. Það kom fram í fyrra réttmæt gagnrýni frá Ed. um, að það væru lögð fram fleiri mál í Nd. en Ed. Þess vegna lenti þetta mál þar fyrst að þessu sinni, og Ed. er búin að fjalla um það og afgreiða það frá sér.

Þetta frv. fjallar um lyfjaframleiðslu. Í I. kafla þess eru almenn ákvæði um lyfjaframleiðslu, þar sem kveðið er á um eftirlit og öryggisatriði í sambandi við nútímaviðhorf á því sviði.

II. kafli frv. er um sameiginlegt fyrirtæki um lyfjaframleiðslu, en þar er íslenska ríkinu heimilað að gerast stofnaðili að fyrirtæki ásamt einkaaðilum, og er að því stefnt, að hvor aðili eigi þarna helmingsaðild. Þetta er hugmynd, sem upphaflega er komin frá Apótekarafélagi Íslands. Rn. hefur rætt þetta mál við þá apótekara, sem stunda lyfjaframleiðslu, og mér virðist vera áhugi á því að koma slíku sameiginlegu fyrirtæki á laggirnar. Raunin er sú, að lyfjaframleiðsla hér á Íslandi hefur verið að dragast saman, vegna þess að við höfum ekki komið upp nægilega öflugu og myndarlegu fyrirtæki, vegna þess að markaður okkar er svo takmarkaður, að við höfum naumast tök á því að reka lyfjaframleiðslu í stórum stíl nema í einu fyrirtæki. II., kafli fjallar um þetta.

III kafli fjallar svo um verðlagningu lyfjaframleiðslu og önnur ákvæði eru í IV. kafla. Þegar þetta mál var til umr. í Ed., kom fram nokkur gagnrýni á fyrirkomulag frv. Menn töldu, að hægt hefði verið að stefna að þessu marki á annan hátt en gert er ráð fyrir í frv. En mér virtist af þeim umr., sem ég fylgdist þar með, ekki vera neinn ágreiningur um það meginmarkmið að koma á samvinnu ríkisins og einkaaðila um að reyna að efla innlenda lyfjagerð, og frv. var að lokum samþ. þar mótatkvæðalaust.

Ég legg, svo til. herra forseti, að frv, verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.