18.12.1973
Neðri deild: 47. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1584 í B-deild Alþingistíðinda. (1469)

102. mál, veiðar með botnvörðu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Frv. þetta er nú komið hingað aftur til Nd., eftir að Ed. hefur fjallað um málið. Í Ed. voru gerðar nokkrar breyt. á frv., en þær breyt. er að finna á þskj. 270.

Segja má, að í 1. brtt. á því þskj., sem er í 4 liðum, sé ekki um neinar efnisbreytingar að ræða frá því, sem ákveðið var við afgreiðslu málsins í hv. Nd. Hér er um vissar leiðréttingar að ræða, sem voru nauðsynlegar og til þess að gera viss ákvæði nokkru skýrari, Hér er því ekki um efnisbreytingu að ræða, heldur hreinlega byggt á því meginsamkomulagi, sem afgreiðslan í hv. Nd. byggðist á.

En í 2. brtt. á þessu þskj., 270, er aftur um nokkra efnisbreytingu að ræða, og þar er um ágreiningsatriði að ræða, sem hefur komið glögglega fram hér í umr. Þar er gert ráð fyrir því að breyta aftur í upphaflegt form, eins og gert var ráð fyrir í upphaflega frv., ákvæðum í 10. gr. frv. undir stafl. 1. Eins og hv. þdm. muna eftir, var í upphaflega frv. gert ráð fyrir því, að þær heimildir, sem veittar eru í 10. gr. fyrir ráðh., skyldu ekki ná til þess að heimila dragnótaveiðar á Faxaflóa. Við afgreiðslu málsins í Nd, var þetta sérstaka ákvæði varðandi Faxaflóa fellt niður og því slegið föstu, að rétt væri, að sama regla gilti um Faxaflóasvæðið og önnur svæði við landið. Hv. Ed. hefur ekki viljað fallast á þetta sjónarmið og sett á nýjan leik þetta ákvæði inn í 10. gr. Í því formi, sem frv. er nú, er þetta komið inn og gr. því orðin eins orðuð og hún var í frv. upphaflega.

Aðrar breyt. hafa ekki verið gerðar á frv. í Ed., og ég tel því, að eins og frv. liggur nú fyrir, sé í öllum aðalatriðum byggt á því samkomulagi, sem varð um afgreiðslu málsins hér í Nd.

Ég vil vænta þess, að hv. d. fallist á að afgreiða málið í þeim búningi, sem það kemur nú frá Ed., þannig að það þurfi ekki að hrekjast lengur á milli deilda, því að það má telja alveg augljóst, að fari Nd. að breyta þessu ákvæði varðandi Faxaflóann á nýjan leik, lendir málið í Sþ., og ég sé ekki annað en það sé verið að stefna afgreiðslu málsins í heild í ógöngur, ef það verður gert. Ég held líka, að þó að gert sé að forminu til, eins og hv. Nd. gerði, ráð fyrir því, að ráðh. megi heimila dragnótaveiðar í Faxaflóa á næstu árum eins og annars staðar, þá sé mjög ólíklegt, að nokkur sjútvrh. mundi nota þá heimild, á meðan jafnmikill ágreiningur er um það mál og nú er hjá þeim aðilum, sem eiga mestra hagsmuna að gæta hér við flóann, og það sé mjög ótrúlegt, að þessi heimild yrði notuð. Er þá alveg eins gott að hafa það skýrt og ákveðið í l., að þessi heimild skuli ekki ná til Faxaflóans, og það er í samræmi við lög, sem voru samþykkt um þetta fyrir nokkru. Þetta segi ég, þó að það sé skoðun mín, að það eigi ekki að telja neinn almennan mun á Faxaflóasvæðinu og öðrum svæðum við landið varðandi þessar veiðar. Ég met það að jöfnu við mörg önnur svæði. En ég vil vænta þess, að menn fari ekki að togast á um þetta atriði, ekki veigameira en það er í sjálfu sér. Það eru því eindregin tilmæli mín til hv. þd. að fallast á að samþykkja frv. í þeim búningi, sem það er nú, eftir að það hefur fengið afgreiðslu í Ed., og það verði þar með gert að lögum.