18.12.1973
Neðri deild: 47. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1588 í B-deild Alþingistíðinda. (1478)

134. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég tel rétt að segja nokkur orð um þetta frv. þegar við 1. umr. þess, vegna þess að við þm. Alþfl. höfðum áður flutt till. til þál., sem að ýmsu leyti gengur í sömu átt og sú stefna, sem mörkuð er með þessu frv. Það virðist m. ö. o. vera skoðun beggja stjórnarandstöðuflokkanna, að tími sé kominn til að gerbreyta um stefnu í íslenskum skattamálum og hætta að innheimta tekjuskatt til ríkisins af almennum launatekjum.

Ástæðan til þessarar stefnu, sem boðuð var fyrst í till. okkar Alþfl.-manna til þál. og enn er nú boðuð í þessu frv. sjálfstæðismanna til breyt. á skattal., er sú, að skattheimta undir forustu núv. ríkisstj. er komin út í algerar ógöngur, hún er orðin óhófleg, og í raun og veru hefur skapast ringulreið í tekjuskattheimtu ríkisins. Þessi óhóflega skattheimta kemur hvað gleggst fram í því, að svo skuli nú komið, að barnlaus hjón megi ekki hafa meira en 450 þús. kr. í hreinar tekjur á þessu ári til þess að lenda ekki í 55% skattgreiðslu af tekjum sínum. Hún kemur einnig fram í því, að þriggja barna fjölskylda má ekki hafa meiri tekjur en 590 þús. kr. á þessu ári án þess að lenda í 55% skattgreiðslu af tekjum sínum. Slíkt skattakerfi fær ekki staðist til lengdar. Það hlýtur að hrynja. Hvaða stjórn sem er hlýtur í raun og veru að beita sér fyrir breyt. á slíku skattakerfi.

Nú hafa báðir stjórnarandstöðuflokkarnir sett fram sín sjónarmið um þetta efni, og nú er þess að vænta, að ríkisstj. sýni, að hún læri af reynslunni og leiðrétti það ranglæti, sem hún innleiddi fyrir tveimur árum. Það ætti að vera henni sérstök hvatning í því efni, að verkalýðshreyfingin hefur gert það eitt af aðalstefnumálum sínum í þeim kjarasamningum, sem yfir standa, að skattal. verði breytt einmitt í þá átt, sem stjórnarandstaðan hefur bent á.

Ég tel rétt, að það komi fram þegar við 1. umr. þessa frv., að við Alþfl.-menn teljum það ekki vera líklegustu og vænlegustu leiðina til að fá fram leiðréttingu í þessum efnum að flytja frv. til breyt. á skattal., þar sem kveðið sé á um öll einstök framkvæmdaatriði, eins og þm. Sjálfstfl. hafa gert í þessu frv. Við kusum að fara þá leið að flytja till. til þál. um, að skattalöggjöfin skyldi endurskoðuð, og marka í till. þá stefnu, sem fylgja skyldi við þá endurskoðun. Ástæðan til þess að við töldum rétt að fara þessa leið, er einfaldlega sú, að augljóst er, að breyt. á skattal. verður ekki gerð nema með samstarfi milli flokka á Alþ. og samstarfi á milli stjórnmálamanna annars vegar og sérfræðinga hins vegar. Skattalög eru það flókin lagasetning, að nauðsynlegt er, að að henni vinni sérfræðingar ásamt stjórnmálamönnum, og það er líka augljóst, að víðtækt samstarf þarf að vera á milli stjórnmálaflokkanna, ef von á að verða til þess, að einhver breyting nái fram að ganga, en eftir því, um hvað verður samkomulag, um hvað verður málamiðlun, þarf lagaákvæði í einstökum atriðum að sjálfsögðu. Þess vegna töldum við, að ekki væri rétt að færa hugsanlegar breyt. á tekjuskattsl. í lagabúning, fyrr en útséð væri, um hvaða breytingar gæti orðið samkomulag milli flokka á hinu háa Alþ., þ. e. a. s. um hvað gæti tekist samstaða. Þegar það lægi ljóst fyrir, væri rétti tíminn kominn til að færa hugmyndirnar í frv: form eða lagabúning.

En þótt við Alþfl.-menn hér á þingi teljum, að þetta frv. stefni í rétta átt, að svo miklu leyti sem það miðar að því að létta tekjuskattsbyrði af launþegum, er því ekki að leyna, að við teljum það vera veigamikinn galla á frv., að það gerir ekki ráð fyrir neinni tekjuöflun í stað þess tekjumissis, sem ríkissjóður hlýtur að verða fyrir, 4–5 milljarðar kr., ef tekjuskattur af almennum launatekjum verður felldur niður. Ég tel þetta vera alvarlegan galla. Frv. virðist vera byggt á þeirri hugsun, að unnt sé að bæta ríkissjóði þær tekjur, sem hann missir við lækkun tekjuskattsins, með því móti að spara hjá ríkissjóði, að spara í ríkisrekstrinum. Ekki efast ég um, að unnt væri að spara verulegar fjárhæðir í ríkisrekstrinum með því að taka upp sómasamlega stjórn á ríkisbúinu, sem ekki á sér stað nú, og taka upp ábyrgari afstöðu við fjárlagaafgreiðslu en horfur virðast vera á, að nú muni eiga sér stað. Engu að síður, þótt ég telji, að hægt sé að spara verulegar fjárhæðir, hvarflar ekki að mér, að hægt sé að spara allt það, sem ríkissjóður mundi missa í í tekjum við það að lækka tekjuskattinn jafnmikið og við gerum ráð fyrir í till. okkar og þm. Sjálfstfl. gera ráð fyrir í frv. sínu. Þegar ekki er bent á tekjustofna til að standa undir lækkun skattsins, óttast ég, að málið verði ekki tekið alvarlega, að tillöguflutningur í þessa átt verði ekki tekinn alvarlega og það spilli því í raun og veru fyrir þeim góða málstað, sem það er að stinga upp á að gera till. um lækkun á tekjuskatti á almennum launþegum. Þess vegna harma ég það, að þm. Sjálfstfl. skuli hafa tekið svo létt á þessu máli að telja sér ekki skylt að benda á tekjuöflunarmöguleika í staðinn.

Þetta töldum við þm. Alþfl. við ekki mega leyfa okkur og ekki geta leyft okkur. Þetta vildum við ekki leyfa okkur, vegna þess að okkur er fullkomin alvara með flutningi þessa málsstaðar okkar. Okkur er fullkomin alvara um það, að brýna nauðsyn beri til að afnema tekjuskatt á almennum launatekjum, og þá finnst okkur gefa auga leið, að við getum ekki ætlast til þess, að till. okkar um þetta efni yrðu teknar alvarlega, nema við jafnframt bentum á tekjuöflunarmöguleika í staðinn, og það gerðum við í till. okkar. Við bentum á, að hægt væri að vinna upp tekjurnar með því að halda viðlagasjóðsgjaldinu, sem ella ætti að falla niður 1. mars n. k. og nemur tveimur söluskattsstigum og hækka söluskattinn um 3 stig til viðbótar. Við gerum okkur að vísu ljóst, að þetta, að breyta tekjuskatti í svona ríkum mæli í söluskatt, gæti haft í för með sér, að ýmsar tekjulágar stéttir, margir tekjulágir einstaklingar mundu greiða meira í söluskatt eftir kerfisbreytingu en þeir hefðu áður greitt í tekjuskatt. Við þessu reyndum við að sjá með því að gera till. um stofnun sérstaks sjóðs, sem ætti að starfa innan almannatryggingakerfisins og ætti að nota til að hækka tekjur hinna lægst launuðu, þ. e. a. s. þeirra, sem sköðuðust á kerfisbreytingunni. Við gerðum líka till. um tekjuöflun í þennan sjóð með því að halda ýmsum gjöldum, sem lögleidd voru í sambandi við viðlagasjóðsmálið og mundu gefa á ársgrundvelli, miðað við núverandi aðstæður, um 600–700 millj. kr. í tekjur. M. ö. o.: við reyndum að öllu leyti að taka eins ábyrgt á málinu og við frekast gátum hugsað okkur í því skyni að sýna, að okkur væri fullkomin alvara, það væri fullkomin alvara á bak við till. okkar um hina brýnu nauðsyn þess að létta tekjuskatti af almennum launþegum.

Enn fremur vil ég geta um tvö atriði, sem ég tel vera galla á frv. þeirra sjálfstæðismanna. Í fyrsta lagi tel ég frv. gera ráð fyrir allt of miklum mun á skattalækkun hátekjumanna og lágtekjumanna. Mér þykja þeir skattstigar og þær reglur almennt, sem settar eru í frv., gera ráð fyrir því, að hátekjumenn hagnist óeðlilega miklu meira en látekjumönnum er ætlað að hagnast á þessari skattbreytingu, og þetta tel ég vera galla. Ég tel þetta líka vera vel til þess fallið að efla andstöðu við þá ágætu hugmynd, sem það er að létta tekjuskatti af almennum launþegum, að hætta innheimtu tekjuskatts af almennum launatekjum. Ef hægt er að benda á jafnmikla ívilnun til handa hátekjumönnum og hægt er að gera með tilvísun til frv. þeirra sjálfstæðismanna, miðað við það, sem lágtekjumenn munu hagnast á tekjuskattslækkuninni, þá óttast ég, að hægt verði að gera allt málið tortryggilegt, því miður. Þess vegna gerum við ekki ráð fyrir jafnmiklum mun á skattalækkun í krónum talið hjá hátekjumönnum og lágtekjumönnum og verða mundi afleiðing af samþykkt frv. þeirra sjálfstæðismanna.

Þá vil ég víkja að reglum frv. um sérsköttun hjóna. Gert er ráð fyrir að sinna því réttlætismáli, sem sérsköttun hjóna hlýtur að teljast, á þann hátt að skipta tekjum og eignum hjóna ávallt í tvo helminga, ávallt í tvennt. Það mundi þýða, að ef hjón hafa 2 millj. kr. tekjur t. d. og eiginmaðurinn borgar nú tekjuskatt af 2 millj. kr., þá mundi hvort hjóna um sig borga tekjuskatt af 1 millj. kr., og mundi skatturinn því, miðað við heilbrigðan tekjuskattsstiga, verða miklu lægri, miðað við þessa reglu varðandi sérsköttun hjóna. Við höfum stungið upp á því að fara aðra leið í þessu efni, að fara þá leið til að bæta úr því ranglæti, sem samsköttun hjóna er, að ætla giftri konu ávallt vissan hluta af tekjum makans, hvort sem hún vinnur utan heimilis eða ekki, m. ö. o.: allar konur skuli verða sjálfstæðir skattþegnar, hvort sem þær eru giftar eða ógiftar og hvort sem þær afla sér tekna með vinnu utan heimilis eða ekki. Við gerum ráð fyrir því að ætla giftri konu tekjur, sem svara til hæfilegra, venjulegra launa — í lægri kantinum þó, t. d. 300–400 þús. kr., minna mætti það ekki vera. Varðandi þau hjón, þar sem eiginmaðurinn hefði 2 millj. kr. tekjur, mætti ætla konunni af því 300–400 þús. kr. tekjur, en skattleggja síðan 1.6–1.7 millj. kr. hjá bóndanum. Það er augljóst mál, að lækkun skatts af hátekjum er í þessum tilfellum líka miklu meiri samkv. frv. sjálfstæðismanna en við í Alþfl. teljum eðlilegt og réttmætt.

Ég tel því, að þó að þetta frv. stefni að sjálfsögðu í rétta átt og ég sé meginhugsun þess algerlega sammála og styðji hana, þá meginhugsun þess, að hætta beri að innheimta tekjuskatt af venjulegum launatekjum, tel ég engu að síður frv. vera gallað að mjög verulegu leyti, svo gallað, að mér er til efs, að það styðji eins og vera þyrfti þann góða málstað, sem í því er fólginn að berjast fyrir afnámi tekjuskatts af launatekjum. En úr þessu má eflaust bæta, þegar frv. fer til nefndar.

Ég geri mér vonir um, að till. okkar Alþfl.-manna verði samþykkt, þannig að þá mætti taka allt tekjuskattsmálið upp til heildarathugunar í samstarfi allra þingflokkanna. Þetta vandamál verður ekki leyst öðruvísi en allir þingflokkarnir hefji samstarf um það, með hvaða hætti skynsamlegt og réttmætt sé að setja nýja tekjuskattslöggjöf. Þá gæti það farið saman að athuga þetta frv. þeirra sjálfstæðismanna og aðrar hugmyndir, sem kynnu að koma fram.

Ég tel sem sagt langfarsælustu lausnina á þeim vanda, sem hér er um að ræða, vera að samþykkja till. okkar Alþfl-manna til þál. um að koma nefnd á laggirnar, samstarfsnefnd stjórnmálamanna úr öllum þingflokkunum annars vegar og embættismanna sérfróðra um skattamál hins vegar, og taka síðan núgildandi skattalög, till. sjálfstæðismanna og allar aðrar hugmyndir, sem upp kynnu að koma, til athugunar og undirbúa frv. að skattalögum, sem hægt yrði að afgreiða, áður en þingi lýkur nú í vor, þannig að þau gætu komið til framkvæmda við skattlagningu á tekjur ársins 1973. Ég tel, að við þm. Alþfl. höfum bent á einu færu og einu skynsamlegu leiðina til að koma viti í skattamálin á fyrri hluta næsta árs, þannig að skattheimta af tekjum ársins, sem nú er að líða, geti orðið réttmæt og sanngjörn.