19.12.1973
Sameinað þing: 39. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1592 í B-deild Alþingistíðinda. (1481)

1. mál, fjárlög 1974

Frsm. meiri hl. (Geir Gunnarsson) :

Herra forseti. Síðan 2. umr, um fjárlagafrv. fór fram, hefur fjvn. haldið 3 fundi, og eru fundir n. vegna fjárlagafrv. þá orðnir samtals 46.

Auk tekjuhliðarinnar voru við 2. umr. óafgreiddir ýmsir stórir útgjaldaliðir, svo sem hækkun lífeyris- og sjúkratrygginga og hækkun launaliða vegna aukningar verðlagsbóta á laun frá 1. des. s. l., svo og hækkun launaliða vegna samninga ríkisins við Bandalag starfsmanna, ríkis og bæja, en þeim var þá ekki lokið. Auk þess voru óafgreidd ýmis erindi, þ. á m. allar heimildartillögur.

Eins og ég gat um við 2. umr., komu fulltrúar hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins, þeir Jón Sigurðsson hagrannsóknastjóri og Ólafur Davíðsson hagfræðingur, á fund fjvn. fyrir 2. umr. og gáfu þá n. bráðabirgðayfirlit um afkomu ríkissjóðs á þessu ári og horfur ársins 1974. s. l. laugardag komu þessir aðilar að nýju á fund fjvn. og gerðu ítarlega grein fyrir endurskoðaðri tekjuáætlun, þeirri sem brtt. meiri hl. fjvn. eru byggðar á. Grg. frá hagrannsóknadeild um endurskoðun tekjuáætlunar hefur að þessu sinni verið afhent öllum fjvn.-mönnum, en sú hefur ekki verið venjan fyrr.

Í kafla um áætlanir um innheimtar tekjur ríkissjóðs á árinu 1973 segir m. a., að undirstaða tekjuáætlunar fjárlagafrv. 1974 hafi verið áætlun um innheimtu 1973, byggð á innheimtureynslu á fyrri helmingi ársins og spá um þann siðari, sem reist var á þjóðhagsspá hagrannsóknadeildar, eins og hún var birt í Þjóðarbúskapnum nr. 3 í júlí 1973. Reynslan hafi sýnt, að þessi áætlun hafi verið til muna of lág, enda hafi þróunin á árinn 1973 orðið önnur en búist var við. Raunar hafi farið saman, að aukning þjóðarframleiðslu og þjóðartekna hafi reynst mun meiri en áætlað var framan af árinu og eins hafi vöxtur veltu og verðlagsþróun orðið mun örari á síðari hluta árs en fyrir varð séð um mitt ár. Sérstaklega hafi aukning innflutnings orðið mikil, sem að sjálfsögðu feli í sér tekjuauka fyrir ríkissjóð að óbreyttu tollahlutfalli. Auk þess sé nú fyrirsjáanlegt, að hækkun peningatekna almennings á árinu 1973 verði miklu meiri en reiknað hafi verið með í sumar og gefi einnig ástæðu til endurskoðunar áætlana um álagðan tekjuskatt árið 1974 að óbreyttu skattkerfi.

Í skýrslu hagrannsóknadeildar eru síðan raktar nokkrar samanburðartölur um breyt. á hinum ýmsu þáttum, sem þar eru tilgreindar og valda því, að tekjur ríkissjóðs munu fara verulega fram úr fyrri áætlun. Magnaukning þjóðarframleiðslu 1972–1973 var í júlíspá áætluð 3.6%, en er í desemberspá 5.1%. Magnaukning þjóðartekna var í júlíspá 5.5%, en er í desemberspá 7.5%. Verðmætisaukning útflutnings var í júlíspá 43%, en í desemberspá 49%. Verðmætisaukning útflutnings í heild var í júlíspá 48%, en í desemberspá 58%. Magnaukning almennrar innlendrar verðmætaráðstöfunar var í júlíspá 2.5%, en í desemberspá 5%. Verðhækkun almennrar innlendrar verðmætaráðstöfunar var í júlíspá 20%, en er í desemberspá 24%. Og verðmætisaukning almenns vöruinnflutnings var í júlíspá 27%, en er í desemberspá 40%.

Með hliðsjón af desemberspá um breytingar þessara þátta á árinu 1973 er í þeirri áætlun hagrannsóknadeildar, sem till. meiri hl. fjvn. eru byggðar á um breyt. á tekjuhlið fjárlagafrv., gert ráð fyrir eftirgreindum þjóðhagsforsendum á árinu 1974: Magnbreyting almennrar innlendrar verðmætaráðstöfunar 1973–1974 6.5%, en forsenda frv. var 4.1%. Verðbreyting almennrar innlendrar verðmætaráðstöfunar 10.5, en í fosendum frv. 4.6%. Magnbreyting almenns vöruinnflutnings 8.2% í stað 5%. Verðbreyting almenns vöruinnflutnings að frátöldum olíum 7%, var 4%. Verðbreyting innflutnings að meðtöldum olíum 13%. Í ofangreindum þjóðhagsforsendum, hefur verið gert ráð fyrir aukningu almennrar innlendrar verðmætaráðstöfunar, sem telja má að leiði af nýgerðum kjarasamningum BSRB og ríkissjóðs.

Í þeirri spá hagrannsóknadeildar um tekjur ríkissjóðs, sem lögð er til grundvallar þeim till. um breyt. á tekjuhlið frv., sem meiri hl. fjvn. leggur fram í þskj. 287, er byggt á raunverulegri innheimtu til nóvemberloka og óbreyttri spá hagrannsóknadeildar um innheimtu í desember og á þeim breytingum á þjóðhagsforsendum, sem ég var að rekja. Önnur atriði, sem byggt er á í nýrri tekjuáætlun fyrir árið 1974, eins og hún kemur fram á þskj. 287, eru:

1) Að hækkun tekna einstaklinga á árinu 1973 verði 25% til 26% í stað 23%, eins og gert var ráð fyrir í forsendum fjárlagafrv., en reynslan hefur sýnt, að var of lágt áætlað.

2) Að fallið verði frá hækkun söluskatts.

3) Að afkoma flestra atvinnuvega verði svipuð 1973 og 1972, en hagur sjávarútvegsins er þó að dómi hagrannsóknadeildar mun betri en í fyrra. Er því gert ráð fyrir um 250 millj. kr. hærri álögðum tekjuskatti félaga á næsta ári eða um 33 % hækkun.

4) Þótt flutt hafi verið frv. um breyt. á tollskrá á þann veg, að tollar lækki um 600 millj. kr. á næsta ári, er ekki gert ráð fyrir öðrum breytingum á þeim en skylt er að gera samkv. samningum við EFTA og Efnahagsbandalagið, svo sem gert er í fjárlagafrv., en þar er reiknað með 200 millj. kr. lækkun tolla. Verði tollafrv. samþ., þarf því að koma til fjáröflun á móti frekari tollalækkun.

5) Gert er ráð fyrir, að viðlagasjóðsgjöld falli niður 1. mars 1974.

6) Gert er ráð fyrir hækkun á rekstrarhagnaði Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.

7) Gert er ráð fyrir hækkun niðurgreiðslna um 400 millj. kr. frá fjárlagafrv., en í því var miðað við nokkra lækkun frá því stigi, sem niðurgreiðslur voru á 1. sept. 1973.

8) Miðað er við verðlag og kaupgjald í desember 1973, að öðru leyti en því, að gert er ráð fyrir því, að magnaukning almennrar innlendrar verðmætaráðstöfunar verði þeim mun meiri sem leiðir af nýgerðum kjarasamningum BSRB og ríkisins, jafnframt því, sem útgjaldaaukning vegna samninganna er tekin inn á útgjaldahliðina með sérstakri brtt. til viðbótar þeirri upphæð, sem fyrir var á liðnum óviss útgjöld, til að mæta viðbótarútgjöldum vegna launahækkana. Aðrir væntanlegir kjarasamningar, sem ekki er flutt till. um að gera ráð fyrir í fjárl., mundu leiða af sér frekari hækkanir, bæði á útgjalda- og tekjulið, og er að dómi hagrannsóknadeildar talið líklegast, að slík hækkun tekna gæti orðið mun meiri en útgjaldaauki vegna þeirra samninga.

Þetta eru helstu atriðin, sem byggt er á í nýrri tekjuáætlun, og mun ég nú rekja till. meiri hl. fjvn. um breytingar á einstökum tekjuliðum.

Lífeyristryggingagjald atvinnurekenda hækkar um 38 millj. 300 þús. í 566 millj, kr. Eignarskattur einstaklinga hækkar um 4 millj. kr. í 189 millj. kr. Byggingasjóðsgjald af eignarskatti einstaklinga hækkar um 40 þús. kr. í 1 millj. 890 þús. kr. Eignarskattur félaga hækkar um 2 millj. kr. í 167 millj. kr. Erfðafjárskattur hækkar um 15 millj. kr. í 35 millj, kr. Tekjuskattur einstaklinga hækkar um 246 millj. kr. í 5806 millj. kr. Byggingasjóðsgjald af tekjuskatti einstaklinga hækkar um 2 millj. 460 þús. í 58 millj. 60 þús. kr. Tekjuskattur félaga hækkar um 165 millj. kr. í 922 millj. kr. Byggingasjóðsgjald af tekjuskatti félaga hækkar um 1 millj. 650 þús. kr. í 9 millj. 220 þús. kr. Aðflutningsgjöld hækka um 923 millj. kr. í 7.278 millj., en hlutur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hækkar um 46 millj. 150 þús. kr. í 363.9 millj. kr. Tekjur af aðflutningsgjöldum af sjónvarpstækjum hækka um 500 þús. kr. í 34 millj. kr. Byggingariðnaðarsjóðsgjald hækkar um 1 millj. í 9 millj. kr. Tollstöðvagjald hækkar um 4 millj. 615 þús. í 36 millj. 390 þús. Byggingasjóðsgjald af innflutningi hækkar um 4 millj. til 5 þús. kr. í 36 millj. 390 þús. Innflutningsgjald af bifreiðum hækkar um 84 millj. kr. í 410 millj. Hagnaður af sölu varnarliðseigna hækkar um 10 millj. 750 þús. kr. í 35 millj. kr. Í stað textans „Gjald af innlendum tollvörutegundum“ kemur: Vörugjald, og hækkar um 19 millj. kr. í 173 millj. kr. Álgjald lækkar um 2 millj. 600 þús. í 52 millj. og 600 þús. kr. Söluskattur lækkar um 487 millj. kr. frá frv. í 7.285 millj. kr. Hlutur sveitarfélaga lækkar um 38 millj. 960 þús. kr. Launaskattur hækkar um 155 millj. kr. í 1.200 millj., kr.

Rekstrarhagnaður Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins hækkar um 578 millj. kr. í 2.958 millj. kr.

Gjald af seldum eldspýtum hækkar um 200 þús. kr. í 1.9 millj. kr. Síldargjald hækkar um 1.1 millj. í 1.7 millj. kr. Ferskfiskmatsgjald hækkar um 7 millj. kr. í 32 millj. kr. Tekjuliðurinn Hluti innflutningsgjalds af sjávarafurðum, hækkar um 3.8 millj. kr. í 19.8 millj. Síldarmatsgjald lækkar um 8 þús. kr., í 2 þús. kr. Síldarsölugjald lækkar um 10 þús. kr. í 10 þús. kr. Stimpilgjald hækkar um 45 millj. kr. í 332 millj. kr. Aukatekjur hækka um 5 millj. kr. í 46 millj. kr. Tekjur af þinglýsingum hækka um 20 millj. kr. í 129 millj. kr. Skrásetningargjald bifreiða hækkar um 700 þús. kr. í 10 millj. kr. Skoðunargjald bifreiða hækkar um 1 millj. kr. í 16.5 millj. kr. Vitagjald hækkar um 900 þús. kr. í 16,5 millj. kr. Liðurinn Hluti af umboðsþóknun og gengismismun gjaldeyrisbankanna lækkar um 10 millj. kr. í 171 millj. kr. Leyfisgjald hækkar um 2 millj. kr. í 13 millj. kr. Skipulagsgjald hækkar um 1.5 millj. í 20 millj. kr.

Þá leggur meiri hl. fjvn. til á þskj. 295, að útgjöld vegna niðurgreiðslna lækki um 400 millj. kr., eins og ég hef áður getið. Hef ég þá rakið brtt. meiri hl. fjvn. og kem þá að till. fjvn. á þskj. 286.

Lagt er til, að 430 millj. kr. verði varið til að mæta útgjöldum vegna hækkunar á kaupgjaldsvísitölu um 7.4% 1. des. s. l. Þar af færast 15 millj. 613 þús. kr. samtals á framlög til fjögurra stofnana í B-hluta, en eftir standa þá á liðnum 414 millj. 387 þús. kr.

Í till. nr. 4 er lagt til, að liðurinn Styrkur til útgáfustarfsemi hækki um 75 þús. kr., en þar er um að ræða greiðslu til Björns Björnssonar vegna útgáfu Linguaphone-námskeiðs á íslensku, sem hann hafði kostnað af að gefa út. Er miðað við það, að hér sé um að ræða síðustu greiðslu. — Þá er og lagt til, að framlag til listasafna verði hækkað um 200 þús. kr. Er þar um að ræða hækkun á styrk til Listasafns Alþýðusambands Íslands, en safnið hefur undanfarið aukið starfsemi sína á þann hátt m. a. að halda sýningar úti á landi. — Lagt er til, að 3.5 millj. kr. verði varið til listahátíðar í Reykjavík á næsta ári, en Reykjavíkurborg greiðir einnig til hátíðarinnar á móti ríkinu. — Þá leggur n. til, að styrkur til Íþróttasambands Íslands hækki um 2 millj. kr. í 9 millj. 639 þús. kr.

Lagt er til, að teknir verði upp tveir nýir útgjaldaliðir hjá Landnámi ríkisins: Til skipulagningar 2 millj. kr. og til varmaveitna 1 millj. kr., en gert mun ráð fyrir slíkum styrkjum í gildandi lögum. Þá er enn fremur lagt til, að framlag til grænfóðurverksmiðja hækki um 5.5 millj. kr. í 20.1 millj. kr. — Lagt er til, að liðurinn Jarðræktarframlög hækki um 850 þús. kr. Þar er um að ræða hluta ríkissjóðs, 65% af launum tveggja héraðsráðunauta. — Þá leggur n. til, að Æðarræktarfélagi Íslands verði veittur 100 þús. kr. styrkur.

Þá er till. varðandi Hafrannsóknastofnunina. Þar sem stofnunin hefur nú eignast fjórða rannsóknarskipið, er lagt til, að liðurinn Leiguskip 6 millj. 459 þús. kr. falli niður, en tekin verði í fjárlögin nýr liður, r/s Dröfn, og nemi 9 millj. 459 þús. kr. eða 3 millj. kr. hærri útgjöld en átti að verja til leiguskipa. Enn fremur verði áætlun um viðgerðarkostnað hækkuð um 3 millj. kr. og viðbótin færð í viðhaldslið r/s Hafþórs. Ég tel að best færi á, að viðhaldsliður væri ekki sundurliðaður fyrir fram á einstök skip, heldur væri óskiptur á fjárl. og síðan notaður, eftir því sem í ljós kæmi, að eðlilegast væri í framkvæmd. Þyrfti að taka það til athugunar við undirbúning næsta fjárlagafrv. Með þeim brtt., sem hér eru fluttar, verður heildarkostnaður við Hafrannsóknastofnunina um 180 millj. kr., þar af eru laun rúmlega 105 millj. kr.

Lagt er til, að veittar verði 300 þús. kr. vegna Jafnlaunaráðs, en lög um jafnlaunaráð voru samþ. á síðasta þingi, og verður að gera ráð fyrir einhverjum kostnaði af þeim sökum.

Lagt er til, að framlag til lífeyristrygginga hækki um 270 millj. kr. vegna hækkana, sem verða á lífeyrisbótum 1. júní, n. k. í samræmi við hækkun kaupgjaldsvísitölu. Enn fremur flytur n. till. um, að framlag til sjúkratrygginga hækki um 400 millj. kr. Þessi hækkun er áætluð til að mæta væntanlegri hækkun á daggjöldum og svarar til um 25% hækkunar á daggjöldum, sem nú er verið að taka ákvörðun um. Auk þess er í hækkunartölunni gert ráð fyrir útgjaldaaukningu vegna fjölgunar starfsliðs ríkisspítalanna á næsta ári. Þar eru um 134 stöður, þar af eru um 11 nemar. Gert er ráð fyrir, að kostnaðaraukning á árinu 1974 verði af þessum orsökum 9 millj. 647 þús. kr., en vegna þess að margt af þessu fólki er ráðið síðari hluta ársins, er gert ráð fyrir, að útgjöldin verði á ársgrundvelli 56 millj. 378 þús. kr. Starfsliðsaukningin skiptist þannig á stofnanir: Landsspítali 34½ staða. Kleppsspítali 22½ staða. Fæðingardeild 67 stöður, þar af 11 nemar. Vífilsstaðir 4 stöður. Rannsóknarstofnun háskólans 5 stöður. Skrifstofur ríkisspítalanna 1 staða.

Hækkun útgjalda vegna starfsliðsaukningar á sjúkrahúsunum kemur fram í daggjöldum og greiðist að 90% af sjúkratryggingum. Er sá kostnaðarauki reiknaður með í till. um hækkun framlags til sjúkratrygginga, en kostnaðarauki vegna starfsliðsaukningar hjá Rannsóknastofnun háskólans og Skrifstofu ríkisspítalanna færist til útgjalda hjá þeim stofnunum, og flytur n. því till. um, að launaliður hjá Ranasóknastofnun háskólans hækki um 830 þús. kr. og hjá Skrifstofu ríkisspítalanna um 294 þús. kr. Þá er lagt til, að launaliður hjá Heilbrigðiseftirliti ríkisins hækki um 708 þús. kr.

Lagt er til að veittar verði 10 millj. kr. til fjárfestingar í Kleppsspítala. Er hér um að ræða breytingar á eldhúsi og útbúnaði í því sambandi til að koma upp matmóttöku á máltíðum frá eldhúsi Landsspítalans. Mun það spara nokkra milljónatugi í fjárfestingu, sem ella væri óhjákvæmileg við byggingu nýs eldhúss fyrir Kleppsspítalann.

Liðurinn bygging sjúkrahúsa o. fl., til undirbúnings framkvæmda, hækkar um 1 millj, kr. vegna Blönduóss.

Liðirnir styrktarfé og ýmis eftirlaun, embættismenn og ekkjur, hækka samtals um 146 þús. kr. vegna hækkunar hjá einum aðila og vegna tveggja nýrra.

Þá leggur n. til, að gert verði í fjárl. ráð fyrir útgjaldaaukningu, sem hlýst af nýgerðum kjarasamningum við opinbera starfsmenn, með því að hækka liðinn óviss útgjöld um 300 millj. kr., en á liðnum eru 100 millj. kr. fyrir, sem voru ætlaðar m. a. til að mæta launahækkunum. Eins og ég áðan greindi, flytur n. þar að auki till. um 430 millj. kr. hækkun útgjalda til að mæta hækkun launa vegna hækkunar verðlagsbóta 1. des. s. l.

Þá leggur n. til, að framlag til landshafna hækki um 18 millj. kr.: vegna hafnarframkv. við Njarðvíkurhöfn 13 millj. og við Rifshöfn 5 millj. kr., og hækka lánahreyfingar til ríkisaðila um sömu upphæð.

Fjvn. leggur fram till. um nýjan lið, Sjóslysanefnd, laun 832 þús. kr. og önnur rekstrargjöld 300 þús. kr. eða samtals 1 millj. 132 þús. kr. Sjóslysanefnd hefur áður verið til húsa hjá Siglingamálastofnun ríkisins, en nú er ráðgert, að starfsemi sjóslysan. flytjist í hús Slysavarnafélagsins á Grandagarði. Hluti launakostnaðar sjóslysan. hefur áður verið færður til gjalda hjá Siglingamálastofnun, og er á fjárlagafrv. gert ráð fyrir útgjöldum hjá stofnuninni af þeim sökum, 560 þús. kr., og er lagt til, að launaliður hjá Siglingamálastofnuninni lækki um þessa upphæð, þegar starfsemi sjóslysan. verður sérstakur liður á fjárlögum.

Þá leggur n. til, að veitt verði 5 millj. kr. framlag til Ferðaskrifstofu ríkisins til landkynningarstarfsemi, en gert er ráð fyrir, að eigin tekjur fyrirtækisins lækki að sama skapi frá fyrri áætlun.

Þá leggur n. til, að önnur rekstrargjöld hjá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins hækki um 600 þús. kr. Til fjvn. hafa borist óskir frá Samtökum sveitarfélaga í Vestfjarðakjördæmi og Austurlandskjördæmi um styrk til að leita að og rannsaka efni til byggingarframkvæmda og vegagerðar, einkum í sambandi við olíumöl. N. taldi eðlilegast að koma til móts við þessar óskir með því að veita Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins þessa upphæð til að annast athuganir í þessu skyni.

Fjvn. flytur till. um breytta fjárlagaáætlun fyrir Ríkisútvarpið, þannig að launaliður er hækkaður samkv. hækkun á verðlagsvísitölu, og þeim rekstrarhalla, sem fram kemur í fjárlagafrv., er eytt með hækkun auglýsingataxta hljóðvarps og sjónvarps og hækkuðum afnotagjöldum.

Í B-hluta hækka tekjur fyrir seldar vörur og þjónustu hjá flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli um 17 millj. 490 þús. kr. og fjárfestingar um sömu upphæð. Þá er með till. 35 gert ráð fyrir sundurliðun fjárfestinga Landsspítalans á fjárlögum, en við 2. umr. gerði ég grein fyrir skiptingu upphæðarinnar, 113.2 millj. kr., á einstaka framkvæmdaliði.

Næstu till. eru um hækkun launaliða heilbrigðisstofnana vegna starfsliðsaukningar, sem ég hef áður getið um.

Þá flytur fjvn, till. um breytta áætlun um rekstur Pósts og síma á árinu 1974 miðað við fjárlagafrv. Laun eru færð upp til desemberkaupgjalds og hækkuð um 304 millj. 175 þús. kr. Fjárfestingar eru hækkaðar um 21 millj. 819 þús. kr. í 586 millj. 906 þús. kr. Á móti þessari útgjaldaaukningu eru tekjur hækkaðar um 8.4%, og auk þess er gert ráð fyrir framkvæmdaláni, 143 millj. kr., sem er nýr liður.

Lagt er til, að fjárfestingar Rafmagnsveitna ríkisins verði auknar um 131.3 millj. kr. frá fjárlagafrv. Verður þá varið til framkvæmda á vegum Rafmagnsveitnanna alls 520.3 millj. kr., en gert er ráð fyrir, að framkvæmdir verði sundurliðaðar á fjárl. og eru upphæðir heildarliða þessar:

Virkjanir 213.6 millj. kr., stofnlinur og aðveitustöðvar 183.5 millj. kr., innanbæjarkerfi 45 millj. kr., vélar og verkstæði 17.2 millj. kr., dísilvélar 63 millj, kr. og ýmislegt 8 millj. kr.

Er þá komið að 6. gr. frv., heimildarliðum. Það er fyrst heimildartill. varðandi Landgræðslusjóð og hluta hans af álagi á selda vindlinga. Fyrir liggur, að mjög veruleg hækkun verður á innfluttum áburði, sem Landgræðsla ríkisins notar mest við uppgræðslu lands. Jafnframt hafa Skógrækt ríkisins og skógræktarfélögin óskað mjög eindregið eftir hækkun á framlagi til Landgræðslusjóðs af hverjum seldum vindlingapakka úr 30 aurum í 1 kr. Í sambandi við vandamál þessara aðila, Skógræktar og Landgræðslu, hefur verið um það rætt, að eðlilegt væri, að einhver hluti af framlagi til Landgræðslusjóðs vegna álags á selda vindlinga rynni til Landgræðslunnar, en ekki eingöngu til Skógræktar ríkisins, eins og verið hefur, enda þótt í stofnskrá sé gert ráð fyrir, að landgræðslustjóri eigi sæti í stjórn sjóðsins. Gæti einnig nafn sjóðsins bent til þess, að einhver og jafnvel verulegur hluti af þessu framlagi rynni til Landgræðslunnar, þótt svo sé ekki í reynd.

Þegar sjóðurinn var stofnaður í tilefni af lýðveldishátíðinni 1944, skipaði landgræðslan enn ekki þann sess í hugum landsmanna sem hún gerir í dag. Hefur því verið um það rætt í sambandi við þarfir Landgræðslu og Skógræktar fyrir aukið fé til starfsemi sinnar, að jafnframt hugsanlegri hækkun á álagi á selda vindlinga yrðu endurskoðaðar núgildandi reglur um notkun þess fjár, sem af því álagi rennur til Landgræðslusjóðs, á þann veg að gera ráð fyrir, að ákveðinn og tiltekinn hluti þeirra tekna renni til Landgræðslu ríkisins. Þessi mál eru enn í deiglunni, og komast þarf að samkomulagi um þau, áður en hækkun á álaginu taki gildi. Leggur því fjvn. fram viðaukatill. við V. lið 6. gr. fjárlagafrv., hann er svo hljóðandi í frv.: „Að heimila Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins að greiða Landgræðslusjóði 30 aura af hverjum seldum vindlingapakka.“ Till. fjvn. er, að við bætist: „þegar settar hafa verið nýjar reglur og samþ. af fjvn. og landbrh. um ráðstöfun á því fé, sem til Landgræðslusjóðs rennur vegna sölu á vindlingum, er heimilt, að upphæðin nemi 1 kr. af hverjum seldum vindlingapakka.“

Þá er till. um: Að heimila Hafnabótasjóði að taka lán allt að 50 millj. kr. til að létta afgreiðslubyrði hafnarsjóða af lánum samkv. reglum sjóðsins. Ráðherra skal gera till. til fjvn. um skiptingu fjárins, og skal við skiptinguna hafa hliðsjón af tekjum og gjöldum hafnarsjóðs, framlagi sveitarfélags til hafnarsjóðs, fólksfjölda og öðrum þeim atriðum, sem hafa áhrif á greiðslugetu hafnarsjóðsins. Á núgildandi fjárlögum er sams konar heimildartill. um 40 millj. kr. fjárhagsaðstoð við hafnarsjóði. Við 2. umr. gerði ég grein fyrir því, að fjvn. hefði s. l. sumar skipt upphæðinni milli hafnarsjóða, og gat þess, að við 3. umr. yrði flutt hliðstæð till. N. hefur talið rétt að hækka upphæðina um fjórðung frá núgildandi fjárl., í 50 millj. kr. Ég vil taka fram, að ég hef jafnan talið það mjög til baga við afgreiðslu hafnarmála í sambandi við afgreiðslu fjárl., að ekki skuli liggja fyrir upplýsingar og áætlanir um mál Hafnabótasjóðs og upplýsingar um fjárútveganir til einstakra hafnarsjóða í samræmi við hlut þeirra í hafnarframkvæmdum, eins og hann verður, þegar ákvarðanir eru teknar um framlög ríkissjóðs til einstakra framkvæmda. Sú ákvörðunartaka getur engan veginn orðið nógu markviss, þegar ekki liggja fyrir upplýsingar um getu einstakra hafna til að sjá um sinn hlut og hver er þörf Hafnarbótasjóðs í lánsfé til að framlána til hafnarsjóða vegna framkvæmda. Sú hefur verið venjan, að fyrst þegar kemur fram á sumarið er farið að leggja fyrir fjvn. till. um lánveitingar úr Hafnabótasjóði til hafnarsjóða til framkvæmda, sem ákveðnar eru í fjárl., en allt þyrfti þetta að vera miklu fyrr á ferðinni.

Þá er till. um: Að ábyrgjast fyrir St. Jósefsspítala í Hafnarfirði allt að 12 millj. kr. lán vegna viðbyggingar við spítalann. — Að selja dýralæknisbústaðinn að Lagarási 20, Egilsstöðum. — Að ábyrgjast lán allt að 5 millj. kr. fyrir Byggingasjóð rannsóknastofnana sjávarútvegsins vegna viðbyggingar við Skúlagötu 4, Reykjavík. — Að ábyrgjast lán allt að 50 millj. kr. vegna byggingar dráttarbrauta og skipasmíðastöðva. Að fella niður aðflutningsgjöld og söluskatt af vísindatækjum og búnaði til Norrænu eldfjallarannsóknastöðvarinnar. — Að selja Eskifjarðarhneppi öll þau réttindi, er ríkissjóður kann að eiga til svonefndra „frílóða“ í Eskifjarðarhreppi, þ. e. Mjóeyrarinnar allrar og spildu ofan aðalgötu milli Blómsturvallarlækjar og Lambeyrar, fyrir það verð, er um kann að semjast eða ákveðið verður samkv. mati dómkvaddra manna. — Að selja húseignina Fossberg á Raufarhöfn, sem er eign Síldarverksmiðja ríkisins. — Að endurgreiða aðflutningsgjöld og söluskatt af efni til dísilstöðvar, aðveitustöðvar og orkuflutningsveitu fyrir Vestmannaeyjakaupstað. — Að láta af hendi við Seyðisfjarðarkaupstað án endurgjalds gamla símstöðvarhúsið nr. 44 við Hafnargötu á Seyðisfirði, gegn því, að húsið verði notað fyrir safn muna og minja úr sögu Seyðisfjarðar í samvinnu við Safnastofnun Austurlands, samkv. nánara samkomulagi við ríkisstj. — Að selja eignarhluta ríkissjóðs í fyrrverandi skólahúsi að Strönd á Rangárvöllum. — Að selja hreppsnefnd Flateyrarhrepps eignir Síldarverksmiðja ríkisins að Sólbakka við Önundarfjörð. — Að greiða allt að 40 millj, kr. vegna rekstrar togara á árinu 1973 samkv. reglum, sem hún setur. — Að taka lán allt að 10 millj, kr. til tækjakaupa fyrir vita- og hafnarmálastjórnina. — Að ábyrgjast lán allt að 50 millj. kr. vegna tækjakaupa og endurskipulagningar Ríkisprentsmiðjunnar Gutenberg. — Að verja tekjum, sem fást af sölu muna, sem framleiddir hafa verið vegna þjóðhátíðar 1974, til að kosta hátíðarhald á Þingvöllum sumarið 1974 og greiða úr ríkissjóði það, sem á kynni að vanta. — Að taka innlend og erlend lán að jafnvirði allt að 300 millj. kr. til framkvæmda við þangþurrkstöð á Reykhólum, ef niðurstöður rannsókna sýna að fyrirtækið muni reynast hagkvæmt.

Að ábyrgjast allt að 60 millj. kr. lán til byggingar fiskvinnslustöðva og stöðva til þess að vinna úr landbúnaðarafurðum, þó ekki yfir 60% af matsverði hverrar framkvæmdar. Ég vil taka fram í sambandi við þessa till., að fjvn. lítur svo á, að sú heimild, sem í þessari till. felst um ríkisábyrgð vegna fiskvinnslustöðva, taki þar á meðal til fiskimjölsverksmiðja og eigi það að sjálfsögðu einnig við um sams konar heimild á núgildandi fjárl. Hefur hæstv. fjmrh. fallist á þessa túlkun. Er af þessum ástæðum ekki ástæða til að flytja sérstaka till. um ábyrgðarheimild fyrir fyrirtækið Lýsi og mjöl h/f í Hafnarfirði, eins og fjmrn. hafði áður óskað eftir. Það fyrirtæki á að geta fengið ríkisábyrgð, hvort heldur er heimildarákvæði í núgildandi fjárl. eða samkv. þeirri till., sem hér er flutt, ef samþ. verður.

Þá er heimildartill., sem fjallar um heimild til ríkisstj. til að selja húseign Tækniskóla Íslands að Skipholti 37 til að afla fjár til að greiða kostnað við leigu, innréttingu og stofnbúnað nýs húsnæðis og að greiða úr ríkissjóði það, sem á kynni að vanta. Tækniskóli Íslands er nú til húsa á þrem stöðum, þ. e. a. s. í Skipholti 37, í Hótel Esju og Sjómannaskólahúsinu. Þetta húsnæði er samtals um 1500 fermetrar og er óhentugt og of lítið. Til athugunar hefur verið að taka á leigu og innrétta um 3500 fermetra húsnæði og bæta þar með verulega aðstöðu Tækniskólans og fresta þá um nokkurn tíma að ráðast í nýbyggingu skólans. Gefur það færi á að undirbúa þá framkvæmd mun betur en ella og skipta henni í smærri áfanga en annars væru tök á, jafnframt því sem hægara væri að sinna einhverjum af öðrum afar brýnum þörfum á byggingarframkvæmdum fyrir ýmsa sérskóla. Óljóst er enn, hver leigukjör yrði unnt að fá og hver yrði kostnaður við innréttingar og búnað. Með flutningi till. er því ætlunin að fá færi á að láta verða af því að bæta úr húsnæðisskorti skólans með þessum hætti. Nánari athugun verður að leiða í ljós, hvort unnt er að nota heimildina, en full ástæða er til að ætla, að þessi leið reynist hagkvæm. Ég tel, að hafa beri samráð við fjvn, um notkun þessarar heimildar. Gert er ráð fyrir, að reynist leigumálar hagkvæmir og kostnaður við innréttingar hóflegur, þannig að rétt verði talið að leigja nýtt húsnæði, að fjár verði aflað með því að selja húsnæði Tækniskólans að Skipholti 37, en talið er, að söluverð þess geti numið 20–30 millj. kr. Í sambandi við frekari fjáröflun er enn fremur haft í huga, að í fjárlagafrv. eru veittar 25 millj. kr. til síðasta áfanga í nýbyggingu Sjómannaskólans, en færi Tækniskólinn úr Sjómannaskólanum, losnar þar húsnæði, sem Sjómannaskólinn og Vélskólinn fengju til afnota, og þar að auki hefur þar einnig losnað nýlega húsnæði, sem Veðurstofan notaði áður. Kæmi til greina að fresta á næsta ári síðasta áfanga nýbyggingarinnar af þessum sökum, en lagfæra í staðinn það húsnæði, sem losnar, en nota það fé, sem afgangs yrði, til að tryggja Tækniskólanum nýtt húsnæði. Allt þetta þarf nánari athugunar við, og tel ég, að einnig um þessi atriði beri að hafa samráð við fjvn., þegar þessi mál liggja ljósar fyrir. Till. n. er flutt til að afla heimildar til að gera þessar ráðstafanir, ef nánari athugun sýnir, að þær feli í sér hagkvæma lausn þessara mála, og till. er flutt í samráði við hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh., og vænti ég þess, að hv. Alþingi geti á hana fallist.

Þá er till. um að ábyrgjast lán allt að 12 millj. kr. fyrir Lagmetisiðjuna á Siglufirði vegna tækjakaupa. — Að endurgreiða aðflutningsgjöld og söluskatt af vélum og tækjum til væntanlegrar virkjunar Blævardalsár í Nauteyrarhreppi. — Að endurgreiða aðflutningsgjöld og söluskatt af vélum og tækjum vegna virkjunar Sængurfoss í Húsadal í Reykjarfjarðarhreppi í Norður-Ísafjarðarsýslu, sem rekin verður af Rafveitu Reykjarfjarðar. — Að ábyrgjast fyrir Skúla Pálsson fiskræktarbónda allt að 15 millj. kr. lán vegna byggingar fiskeldisstöðvar í landi jarðarinnar Þóroddsstaða II í Ölfushreppi, gegn þeim tryggingum, sem hún metur gildar. — Að ábyrgjast fyrir Laxárvirkjun lán að upphæð allt að 50 millj. kr. vegna fyrsta áfanga vararafstöðvar á Akureyri. — Að ábyrgjast gegn þeim tryggingum, sem hún metur gildar, lán Flugleiða h/f, eða Loftleiða h/f erlendis, að fjárhæð allt að 2 millj. Bandaríkjadollara. — Að ábyrgjast lán allt að 25 millj. kr. fyrir Bandalag starfsmanna ríkis og bæja til áframhaldandi uppbyggingar orlofsheimilis að Munaðarnesi, gegn þeim tryggingum, sem hún metur gildar. — Að ábyrgjast lán allt að 25 millj. kr. fyrir Alþýðusamband Íslands til byggingar orlofsheimila, gegn þeim tryggingum, sem hún metur gildar.

Þá er till, um að heimild til útgáfu happdrættisskuldabréfa vegna vegaframkvæmda á Skeiðarársandi verði hækkuð úr 300 millj. kr. í 400 millj. kr., og hækka þá útgjöld Vegagerðar að sama skapi, jafnframt því sem liðurinn lánahreyfingar út hækkar um 100 millj. kr.

Flutt er till. um nýjan lið á 6. gr.: Fjmrh. er heimilt fyrir bönd ríkissjóðs að afla innlends eða erlends lánsfjár að jafnvirði allt að 476,3 millj. kr., til framkvæmda á sviði orkumála 458,3 millj. og við landshafnir 18 millj. kr. — Áður hefur verið getið um 18 millj, kr., en af þeim eru í sambandi við landshöfnina í Keflavík og Njarðvik 13 millj. og vegna hafnarinnar á Rifi 5 millj. kr. Af upphæðinni vegna orkumála hefur þegar verið getið aukinna framkvæmda Rafmagnsveitna ríkisins. Að öðru leyti er í þessum lið um að ræða heimild til 100 millj. kr. lántöku vegna Laxárvirkjunar svo og heimild til lántöku vegna hækkunar á fjárveitingum til Orkustofnunar vegna lagningar háspennulínu milli Norður- og Suðurlands, 100 millj. kr. hækkun eða úr 200 í 300 millj. kr. Af brýnni nauðsyn á að hraða lagningu línunnar vegna ástandsins í raforkumálum Norðlendinga leggur n. til, að 300 millj. kr. verði varið til verksins á næsta ári og gert verði ráð fyrir auknum lántökuheimildum í samræmi við það. Þá er í þessari heimildargrein einnig um að ræða lánsheimild vegna orkurannsókna, en n. leggur til, að fjárveiting til orkurannsókna verði aukinn mjög verulega eða úr 16 millj. 295 þús. kr. í 143 millj. 295 þús. kr., um 127 millj. kr., og verði gert ráð fyrir sérstakri lántökuheimild fyrir hækkuninni.

Hækkunin skiptist þannig: Rafhitarannsóknir 17.2 millj. kr., jarðhitarannsóknir 55.2 millj. kr., almennur rekstur Orkustofnunar 1.6 millj. kr., kaup á bortækjum 47 millj. kr. og aukin jarðhitalán til sveitarfélaga 6 millj., samtals 127 millj. kr.

Eins og í þessari sundurliðun kemur fram, er gert ráð fyrir kaupum á bortækjum fyrir 47 millj. kr., en fyrirsjáanleg eru stórlega aukin verkefni fyrir Jarðboranir ríkisins, einkum við leit að jarðhita og við jarðhitarannsóknir. Til þess að ekki standi á því, að unnt sé að sinna þeirri þörf, er nauðsynlegt að bæta borkost Jarðborana ríkisins til þessara hluta. Jafnframt er nauðsynlegt að bæta tækjabúnað nýjasta jarðbors Jarðborananna.

Með hliðsjón af mikilvægi hitaveitu Suðurnesja og nýjum viðhorfum í húshitunarmálum, sem gera enn brýnna, að rannsóknum í Svartsengi sé hraðað sem frekast er kostur, er með till. fjvn. lagt til, að ráðstöfunarfé til borana í Svartsengi verði aukið til að kanna afkastagetu svæðisins og hve stóran markað það getur hitað. Nauðsynlegt er að bora 2 rannsóknarholur á Svartsengissvæðinu, en auk rannsóknagildis munu þær væntanlega nýtast sem vinnsluholur fyrir væntanlega hitaveitu. Ef till. fjvn. verða samþ., verður ráðstöfunarfé til þessara borana 32 millj. kr. Í varmaveitu frá Svartsengi er gert ráð fyrir, að kalt ferskt vatn sé hitað upp með jarðsjó og síðan sent til markaðarins. Byrjunarrannsóknir á þessu sviði voru gerðar árið 1973. í fjárlagatill. Orkustofnunar var ekki gert ráð fyrir borunum eftir köldu vatni árið 1974, en vegna aukins rannsóknahraða frá því, sem áður var gert ráð fyrir, er nú lagt til, að varið verði 2 millj. kr. til borana eftir köldu vatni. Til þess að hraða fullnaðaráætlun varmaveitunnar er lagt til, að varið sé 2 millj. kr. í aðkeypta verkfræðiþjónustu til forhönnunar á varmaskiptastöð og aðfærsluæðum til þéttbýlissvæða.

Í fjárlagafrv. er ekki gert ráð fyrir neinum borunum við Kröflu árið 1974, en þar hafði Orkustofnun lagt til, að veittar yrðu 19 millj. kr. til borunar tveggja rannsóknarhola. Vegna hækkaðs verðlags eru þær nú taldar kosta 24 millj. kr., og er í till. fjvn. gert ráð fyrir þeirri upphæð. Til þess að tryggja, að rannsóknir í Kröflu dragist ekki á langinn og seinki þannig ákvörðunartöku um virkjun á Norðurlandi, er þannig í brtt. fjvn. gert ráð fyrir borun tveggja hola á næsta ári og varið verði til þeirra 24 millj, kr. Í undirbúningi hefur verið heildarfrv., sem búið er að leggja fram hér nú, um jarðgufuvirkjun í Kröflu. Að þeirri heimild fenginni þarf að gera forhönnun fyrir virkjunina, en hún er undanfari endanlegrar hönnunar. Þar sem enginn innlendur aðili hefur áður fengist við hliðstætt verkefni, er líklegt, að leitað yrði til erlendra aðila með reynslu í hönnun jarðgufuvirkjana. Í brtt. fjvn. er gert ráð fyrir 10 millj. kr. fjárveitingu til þessa.

Lagt er til, að 3 millj. kr. verði varið til þess að vinna nánar að mikilvægustu verkefnum til nýtingar jarðhita með frumáætlunum, sem yrði að nokkru leyti aðkeypt verkfræðileg þjónusta.

Þá er í till. fjvn. að lokum gert ráð fyrir samkv. ákvæðum í skattal., að tekin verði upp ný grein í fjárlög um skattvísitölu, 7. gr., og er lagt til, að gr. verði svo hljóðandi:

„Skattvísitala árið 1974 skal vera 154 stig.“ Til samanburðar skal þess getið, að skattvísitala við álagningu á þessu ári var 122.5 stig og 100 stig árið 1972.

Ég hef þá gert grein fyrir brtt. meiri hl. fjvn. og þeim brtt., sem n. öll flytur.

Í sambandi við hækkun tekjuhliðar samkv. þeim till., sem fyrir liggja, er þess að geta, að hækkun tiltekinna tekjuliða hefur jafnframt í för með sér hækkun á útgjöldum, vegna þess að markaðir tekjustofnar, sem hækka, dreifast í útgjaldahlið til viðtakenda. Sé tekið tillit til þessa, en sú útgjaldahækkun nemur í heild 29 millj. 390 þús. kr. og dreifist á ýmsa liði, og enn fremur gert ráð fyrir, að samþ. verði allar till. fjvn. og meiri hl. fjvn., svo og brtt. samvn., samgm. um styrki til flóabáta og vöruflutninga á þskj. 288, munu rekstrargjöld á fjárlögum ársins 1974 verða 29 milljarðar 393 millj. 936 þús. kr., tekjur 29 milljarðar 179 millj. 784 þús., kr., og gjöld umfram tekjur 215 millj. 152 þús. kr., lánahreyfingar inn 2 milljarðar 187 millj. og 213 þús. kr., og lánahreyfingar út 1 milljarður 871 millj. 733 þús. kr. Afgangur á lánahreyfingum yrði þá 315 millj. 480 þús. kr., og greiðsluafgangur ríkissjóðs 101 millj. 328 þús. kr.