19.12.1973
Sameinað þing: 39. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1603 í B-deild Alþingistíðinda. (1482)

1. mál, fjárlög 1974

Frsm. minni hl. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. fjvn. gat um í lok ræðu sinnar, verða gjöld samkv. fjárlfrv., eins og það liggur nú fyrir, ásamt brtt. meiri hl. fjvn. og fjvn. sameiginlega, komin í 29 milljarða 394 millj. kr., en tekjur frv. 29 milljarðar 180 millj. kr., þannig að gjöld umfram tekjur eru liðlega 215 millj. kr., en mismunur á lánahreyfingum inn og út er 315 millj. kr., þannig að greiðsluafgangur er áætlaður 101 millj. kr. Verður ekki sagt, að um mikinn greiðsluafgang sé að ræða við afgreiðslu þessa fjárlfrv. í því góðæri, sem hefur ríkt í landi okkar á þessu ári, þegar tekjur þjóðarinnar hafa farið langt fram yfir það, sem sérfræðingar í efnahagsmálum þorðu að spá fyrir gerð síðustu fjárlaga og þorðu að spá meira að segja um mánaðarmótin júní–júlí á þessu ári.

Við gerð fjárlfrv. fyrir árið 1974 var tekjuáætlunin byggð á áætlun hagrannsóknadeildar um innheimtu ríkistekna á árinu 1973 og spám deildarinnar um breytingu þeirra hagstærða, sem mestu ráða um ríkistekjur, á milli yfirstandandi árs og ársins 1974, eins og þær stóðu í lok júlímánaðar á þessu ári. Verðlagsforsendur tekju- og gjaldaliða frv. voru miðaðar við það verðlag, sem var ríkjandi í septembermánuði s. l., og miðað við að það verðlag mundi haldast út árið 1974. Síðan hefur margt breyst. Hækkun varð á vísitölunni 1. des. s. l. úr 139.54 stigum í 149.89 stig. Áætlun hagrannsóknadeildarinnar frá júní s. l. hefur nú tekið miklum breytingum, eins og hv. form. fjvn. gat nokkuð um í sinni ræðu. Þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur hafa aukist mun meira en ætlað var á fyrri hluta þessa árs, og sama er að segja um verðlagsþróunina og vöxt veltu.

Það er eftirtektarvert, að magnaukningu þjóðarframleiðslu 1972–1973 var spáð í júlí 3.6%, en nú í des. er spáð, að hún verði 5.1%, magnaukningu þjóðartekna var spáð í júlí 5.5%, en nú spáir hagrannsóknadeildin, að hún verði 7.5%. Verðmætisaukningu útflutnings var spáð 43% í júli, en nú í des. er spáð, að hún verði 49%. Verðmætisaukningu innflutnings í heild er spáð í júlí 48%, en nú í des. 58%. Magnaukningu almennrar innlendrar verðmætaráðstöfunar var spáð í júlí 2.5%, en nú er spáð, að hún verði 5%. Verðhækkun almennrar innlendrar verðmætaráðstöfunar var spáð í júlí 20%, en nú í des. 24%. Og verðmætaaukningu almenns vöruinnflutnings var spáð í júlí 27%, en nú 40%.

Samkvæmt fjárl. yfirstandandi árs var talið, að innheimtar tekjur ríkisins á þessu ári, árinu 1973, mundu nema 21 milljarði 970 millj. kr. Í spá hagrannsóknadeildarinnar í júlilok var talið, að tekjurnar mundu nema 23 milljörðum 37 millj. kr., og nú við þessa síðustu spá, desemberspá, er talið, að tekjur ríkissjóðs verði 24 milljarðar og 13 millj. kr. Það verður því að segja, að spár hagrannsóknadeildarinnar fyrir afgreiðslu fjárl. voru mjög varfærnislegar, og þá var því haldið fram af okkur, að þær væru of lágar. Það var líka talið í júli, að þessar spár væru mjög varfærnislega gerðar. Þó skal ég ekki álasa þeim, sem þessar spár gera og leggja til grundvallar liðinn tíma, fyrir að fara varfærnislega í áætlanirnar, en hins vegar hefur þenslan á öllum sviðum þjóðlífsins orðið meiri en það, sem menn þorðu að spá í júlímánuði á þessu ári.

Tekju- og eignarskattar fara sennilega rúml. 300 millj. kr. fram úr fjárlagaáætlun. Tekjur af almennum aðflutningsgjöldum eru nú áætlaðar 6151 millj. kr., sem er 636 millj, kr. hærri upphæð en í fjárlagaáætlun. Þetta stafar að sjálfsögðu af hinum mikla innflutningi. Þegar tekjuáætlun fjárlagafrv. var gerð, var áætlað, að söluskattstekjur færu 530 millj. kr. fram úr áætlun fjárlaga og mundu nema 5550 millj. kr. Þessi hækkun söluskattstekna, sem á rætur að rekja til meiri almennrar veltuaukningar en reiknað var með, var hins vegar að talsverðu leyti komin fram í innheimtum söluskatti á miðju þessu ári. Af öðrum tekjuliðum, sem fara verulega fram úr áætlun, má nefna launaskattinn, sem verður sennilega um 1 milljarður, eða nær 50 millj. kr. umfram fjárlagaáætlun, þrátt fyrir niðurfellingu launaskatts af útgerð, sem ákveðin var eftir afgreiðslu fjárlaga yfirstandandi árs.

Bílainnflutningurinn á árinu hefur orðið miklum mun meiri en reiknað var með í upphafi ársins, og er talið, að tekjur af innflutningsverðmæti bíla muni verða því sem næst 150 millj. kr. hærri en fjárlagaáætlunin á s. l. sumri gerði ráð fyrir. Ég fékk upplýsingar um, að heildartekjur ríkissjóðs af bílainnflutningi á s. l. ári hafi numið 920 millj. kr. Nú er vitað, að heildartolltekjur ríkissjóðs af bílainnflutningi einum í lok októbermánaðar nema 1430 millj. kr., eða 110 millj. kr. hærri upphæð en á fyrstu 10 mánuðum ársins á undan. Á þessu ári er búið að flytja inn til októberloka um 6365 bifreiðar, þar af eru 5100 fólksbílar, 720 jeppar, 119 sendiferðabílar, 285 vörubílar, 20 rútubílar og 50 aðrir bílar. Í nóvembermánuði er talið, að innflutningur bíla sé eitthvað á 7. hundrað, og í des. fer innflutningur bíla ekki eftir kaupgleði manna, heldur eftir því, hvað vöruflutningaskipin anna að flytja marga bíla til landsins í þessum síðasta mánuði, því að mörg hundruð bílar bíða nú í útskipunarhöfnum í Evrópu, en þó einkum vestanhafs, að komast til landsins. En það er talið of varfærnislega áætlað, að skipin muni ekki anna nema flutningi á um 750 bifreiðum í þessum mánuði, þannig að það er sjáanlegt, að bílainnflutningurinn mun nálgast að vera 8 þús. bílar að tölunni, en talið er, að verðmæti bílanna sé 14% meira á bil á þessu ári en var í fyrra. En það segir ekki þá sögu, að bílar hafi hækkað um 14%, heldur getur einnig verið hér um að ræða kaup og innflutning á tiltölulega dýrari gerðum bíla en áður var, en um það skal ég ekkert fullyrða.

Þetta, sem ég hef nú gert nokkuð að umræðuefni, bílainnflutninginn, talar að vissu leyti sínu máli um þann óhóflega innflutning, sem er á öllum sviðum, og það mikla kapp, sem allir leggja á að eyða peningunum sínum sem allra fyrst, þannig að menn geymi yfirleitt ekki peninga á vöxtum, bíði ekki með að eyða þeim til erfiðleikaáranna, og þar virðist almenningur hafa tekið sér, því miður, ríkisstj. til fyrirmyndar, því að hún hefur gert meira heldur en eyða öllum þeim peningum, sem hún hefur aflað. Hún hefur einnig þurft að taka nú á hverju ári stór lán. Að vísu skal játað, að mörg lán, sem tekin eru, eru tekin til arðbærra framkvæmda. En hún hefur einnig tekið lán til framkvæmda, sem gefa engan arð og hafa aukið skuldir þjóðarinnar stórkostlega á þeim tíma, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur setið að völdum.

Ég hefði kosið, að hagrannsóknastjóri og aðstoðarmaður hans, sem komu á fund fjvn. s. l. laugardag, hefðu komið fyrr á fund n. til þess að skýra fyrir henni þær miklu breytingar, sem eiga sér stað í þjóðfélaginu. Form. fjvn. sagði við 2. umr., að þessar upplýsingar hefðu ekki árið áður legið fyrr fyrir. Ég skal játa, að það er rétt. En það er ekki til fyrirmyndar. Hins vegar skal ég einnig láta í ljós ánægju mína yfir því, að sú grg., sem hagrannsóknastjóri flutti í fjvn., hefur ekki verið lögð fram í n. fyrr, en við fulltrúar stjórnarandstöðunnar gerðum kröfu um að fá þessa grg. afhenta, til þess að við gætum áttað okkur betur á þeim mörgu tölum og flóknu dæmum, sem yfir okkur voru lesin, en hagrannsóknastjóri skildi eitt eintak eftir í vörslu formanns n. Form. fjvn. sagðist ekki sjá ástæðu til þess, að hann einn hefði þetta eintak í höndum, og sagði, að hann teldi frá sínum bæjardyrum séð eðlilegt, að fjvn.-menn allir fengju eintak af þessari skýrslu, og hann mun hafa rætt það mál við hæstv. fjmrh. S. l. mánudag var okkur fulltrúum stjórnarandstöðunnar afhent þessi skýrsla. Ég kann formanni fjvn. þakkir fyrir þá víðsýni, sem hann sýnir með þessu, og sömuleiðis hæstv. fjmrh., sem vafalaust hefur veitt leyfi til þess. Ég tel, að samstarfið verði betra með því að viðhafa þessi vinnubrögð heldur en að neita um mikilvæg gögn, sem er í raun og veru þýðingarlaust að neita um, því að þessara gagna verður alltaf hægt að afla með einhverju móti, þó að þau kæmu eitthvað seinna í hendur stjórnarandstöðu á hverjum tíma.

Ég vildi bæði út af þessu og margvíslegum öðrum samskiptum við form. fjvn. þakka honum fyrir mjög drengilegt og gott samstarf í n. eins og jafnan áður, þó að leiðir okkar hafi skilið og margt beri á milli í skoðunum okkar í meiri hl. og minnihl. í n.

Í tekjuáætlun frv., sem hér liggur fyrir, fyrir árið 1974 er gert ráð fyrir tveimur meiri háttar breytingum á tekjuöfluninni. Það er hækkun söluskatts um 2 stig frá 1. jan. n. k., sem öll átti að renna í ríkissjóð, og svo lækkun tolla frá sama tíma skv. aðildarsamningi að EFTA og viðskiptasamningi við Efnahagsbandalag Evrópu, sem næmi 180–200 millj. kr. á næsta ári, og svo í þriðja lagi er gert ráð fyrir því, að viðlagasjóðsgjöld falli niður frá 1. mars n. k. Nú hefur verið fallið frá hækkun söluskatts að svo stöddu, eins og kom fram hjá form. fjvn., og þó að komið sé fram frv. til tollskrár, sem felur í sér yfir 600 millj. kr. lækkun tolla, er ekki gert ráð fyrir öðrum breytingum en þeim í fjárlagafrv., sem skylt er skv. samningi við EFTA og Efnahagsbandalagið að gera. Að öðru leyti er ekki tekið tillit til þeirra lækkana, sem tollskrárfrv. gerir ráð fyrir.

Þá er gert ráð fyrir hækkun á næsta fjárlagaári á áfengis- og tóbaksverði. En það er auðvitað háð ákvörðun fjmrh., hvenær hann lætur það koma til framkvæmda, og enn fremur, hversu mikið það verður. Enn fremur er gert ráð fyrir í till. fjvn., og þá tekið fram, að það er tili. meiri hl. fjvn., fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna, að lækka niðurgreiðslu á vöruverði um 400 mill,i. kr. frá áætlun fjárlagafrv. Ég mun koma síðar að því að ræða niðurgreiðslu á vöruverði.

Álagður söluskattur á öllu landinu fyrstu 9 mánuði þessa árs var næstum því 35% hærri en á sama tímabili árið 1972. Innheimta söluskatts nú í nóv. bendir til þess, að álagningarstofninn muni hækka um 36–37% á milli áranna og innheimtur söluskattur muni nema 5550 millj kr. á árinu, sem er 530 millj. kr. umfram fjárlagaáætlun.

Langveigamestu breytingarnar á tekjuhlið fjárlagafrv. eru í fyrsta lagi nokkrar á beinu sköttunum. Þeir eru nú áætlaðir 866.8 millj. kr., persónuskattar og eignarskattar eru áætlaðir tæplega 395 millj. kr. Er talið, að bæði tekjuskattur einstaklinga og tekjuskattur félaga muni hækka mjög verulega frá fjárlagafrv., eða úr 6380 millj. kr. í 6795 millj. kr. Þar er mest hækkunin á tekjuskatti félaga, úr 757 millj, kr. í 922 millj. kr., og tekjuskattar einstaklinga er áætlað að hækki frá fjárlagafrv. úr 5 milljörðum 560 millj. kr. í 5 milljarða 806 millj. kr. Hækkun aðflutningsgjalda er mjög veruleg frá fjárlagafrv., sem er auðvitað vegna þess mikla innflutnings, sem verið hefur síðara hluta ársins og ég gat um hér áðan. Er ætlað, að aðflutningsgjöld hækki frá fjárlagafrv. úr 6355 millj. í 7278 millj. og heildargjöld af innflutningi hækki frá fjárlagafrv. um næstum því heilan milljarð, eða úr 7 milljörðum 533 millj. í 8 milljarða 515 millj. M. ö. o.: tekjuhlið fjárlagafrv. hækkar frá áætluninni um yfir 2000 millj. Stór liður, sem ég hef ekki nefnt áður, er reiknað með að hækki frá fjárlagafrv., þ. e. rekstrarhagnaður Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, sem er ætlað að hækki frá fjárlagafrv. úr 2 milljörðum 280 millj. í 2 milljarða 958 millj. kr. Söluskattur hins vegar lækkar af þeirri ástæðu, að fallið er frá 2% hækkuninni, sem gert var ráð fyrir í frv., en er nú horfið frá a. m. k. í bili, og mun ég síðar koma að því.

Ég leitaði mér upplýsinga um útgreiðslu gjaldaliða skv. ríkisbókhaldi frá jan.-septemberloka, og þar er að sjá, að töluverður munur er á hlutfallsnotum fjárlaga frá ári til árs. Ef við miðum við fyrstu 9 mánuði ársins 1972 og ársins 1973, til septemberloka, þá er hlutfallið þannig, að 1972 eru þau í forsrn. 75.1%, en núna 92.5%. Í landbrn. er hlutfallið frá 1972 81.5%, en nú 93.3%, í sjútvrn. er hlutfallið 1972 69.7%, en nú 78.1%, í heilbrrh.- og trmrn. fer hlutfallið úr 70.2% í 76.2% og í fjmrn. úr 59% í 79.8%. Þessar upplýsingar eru frá ríkisbókhaldinu.

Það liggur nokkurn veginn ljóst fyrir, að nú í nóvemberlok er gjaldahlið fjárlagafrv, komin í 21 milljarð 118 millj. kr., eða næstum því í sömu upphæð og fjárlögin fyrir allt árið gera ráð fyrir að verði, en þau gera ráð fyrir, að gjöldin nemi 21 milljarði 457 millj. kr. Á s. l. ári voru gjöld í desembermánuði einum 1 milljarður og 700 millj., og ef við gerum ráð fyrir því, að gjöldin í desember verði í hlutfalli við annað, um 400 millj. hærri en í fyrra, þá er sjáanlegt, að gjöld skv. því, sem greitt verður út, verða aðeins á 3. milljarð hærri en fjárlögin á yfirstandandi ári gera ráð fyrir. En tekjuhlið fjárlaganna hefur einnig hækkað mjög verulega, eða í kringum 2000 milljónir. Það verður því ekki sagt, að það hafi verið erfitt að stjórna þessum búrekstri á yfirstandandi ári, þegar tekjur hafa svo mjög farið fram úr áætlun. Hins vegar hefur verið erfiðara að sjá við því, að gjöldin hafa stigið að sama skapi eða jafnvel meira. Ég skal ekki um það fullyrða, það kemur til með að liggja fyrir innan nokkurra mánaða.

Ef við lifum nú á þetta fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, þá held ég, að það fari ekki á milli mála, að það virðast vantalin gjöld í þessu fjárlagafrv., sem nema verulegum upphæðum. Þá á ég sérstaklega við, að það er nú vitað, að hækkun vísitölunnar vegna þeirra aðgerða, sem nú hafa verið gerðar eða verða gerðar og ákveðið er að gera, muni nema í lágmarki 5.5 vísitölustigum, fyrir utan þau áhrif, sem lækkun fjölskyldubóta kann að hafa á hækkun kaupgreiðsluvísitölunnar. Það er talið nú skv. fjárlagafrv., eins og það liggur fyrir, að launaliður þess sé liðlega 6600 millj., og ég geri ráð fyrir því, að eitt vísitölustig muni nema 44 millj. skv. launaliðnum, eins og hann er nú. Hækkun lífeyristrygginganna, sem hefur verið breytt hér í meðförum þingsins vegna hækkunar kaupgreiðsluvísitölu, kemur til með að verða a. m. k. 26 millj. á hvert vísitölustig, og sjúkratryggingarnar koma til með beint og óbeint að hækka um allt að 15 millj. kr. á hvert vísitölustig. Þá er eftir að taka tillit til þeirra hækkana, sem síðar hafa verið gerðar á fjárlagafrv., en inni í 6600 millj., sem ég nefndi áðan, er hækkun vegna kaupgreiðsluvísitölunnar í des., 430 millj. kr., og hækkun vegna áhrifa af nýgerðum samningi við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, sem nú er í brtt. 300 millj. kr., en inni í fjárlagafrv. er 100 millj. kr., svo það gerir samtals um 400 millj.

Það liggur nokkurn veginn ljóst fyrir, að áhrif vegna breytinga á vörum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á næsta ári muni hækka kaupgreiðsluvísitöluna um 1.2 stig, og launahækkanirnar, miðað við þá launaliði, sem inni eru, og þær breytingar, sem verða vegna hækkunar launa, muni aldrei nema undir 3.7 kaupgreiðsluvísitölustigum. Talið er, að sú breyting, sem lagt er til að gera á tekjum Ríkisútvarpsins, bæði sjónvarps og hljóðvarps, muni valda 0.6 kaupgreiðsluvísitölustiga hækkun, þannig að hér er um algera lágmarksupphæð að ræða, að kaupgreiðsluvísitalan er með þessum breytingum og gerðum hækkuð um 5.5 stig. Þar við bætast þau áhrif, sem lækkun fjölskylduhótanna kemur til með að hafa á kaupgreiðsluvísitöluna, og skal ég nú koma frekar að þeim.

Fjölskyldubætur eru áætlaðar 250 millj. kr. lægri en ef miðað væri við bæturnar í lok septembermánaðar s. l. Frá 1. maí á þessu ári voru fjölskyldubætur hækkaðar úr 13000 kr. í 18000 kr. með hverju barni, en frá 1. okt. s. l. voru fjölskyldubæturnar lækkaðar úr 18000 í 15000 kr. Í fjárlögum þessa árs eru fjölskyldubætur áætlaðar 969.6 millj. kr., en í frv., eins og það var lagt hér fyrir á s. l. hausti, eru fjölskyldubæturnar komnar í 855.9 millj. kr. og hafa því lækkað frá gildandi fjárlögum um 113.7 millj. kr. Það er nokkurn veginn víst, að sú upphæð, sem nú er inni í fjárlagafrv., hrekkur engan veginn til þess að greiða 15000 kr. með hverju barni, og þá er alveg víst, að það vantar um 160–170 millj. kr. inn í fjárlagafrv., ef á að halda sér við þá ákvörðun, sem nú er í gildi, að greiða í fjölskyldubætur 15000 kr. með hverju barni. Ég spyr: Hvers vegna er þessari upphæð ekki breytt í fjárlagafrv.? Hvers vegna kemur engin till. frá stjórnarflokkunum um að hækka fjölskyldubæturnar í fjárlagafrv., eða ætlar ríkisstj. að lækka fjölskyldubæturnar frá því, sem þær nú eru, úr 15000 kr. og þá niður fyrir 13000 kr., til þess að sú upphæð dugi, sem nú er í fjárlagafrv.? Það væri fróðlegt að fá að vita, hvort það er hér vísvitandi verið að áætla fjölskyldubætur 160–170 millj. kr. lægri en þær eru eða hvort aðeins er beðið eftir að tilkynna, að það eigi að lækka fjölskyldubæturnar frá því, sem þær eru núna. Það væri fróðlegt, ef hæstv. ríkisstj. upplýsti Alþingi um það, hvora leiðina hún ætlar að fara, hvort hún ætlar að lækka fjölskyldubæturnar eða láta vanta á upphæðina í fjárlagafrv., eins og allar þær stóru upphæðir, sem ég nefndi hér áðan í sambandi við launaliðina.

Þá ætla ég að koma nokkuð inn á niðurgreiðslur á vöruverði, en niðurgreiðslur á vöruverði voru áætlaðar miðað við niðurgreiðslustig í júní 2 290 millj., framlag í lífeyrissjóð bænda 108 millj., svo að niðurgreiðslur voru með framlagi til lífeyrissjóðs bænda komnar í 2 398 millj. Síðan var áætluð lækkun, 500 millj., og þegar hún er dregin frá þessari upphæð, eru eftir 1898 millj. en það er sú upphæð, sem er í fjárlagafrv. Áætlun niðurgreiðslna á vöruverði frá því í ágúst s. l. nam 2 261 millj., og ríkisstj. tók svo ákvörðun 17. sept. að lækka niðurgreiðslur um 188 millj. kr., þannig að talið var, að niðurgreiðslurnar yrðu 2 073 millj., að viðbættu framlagi til lífeyrissjóðs bænda 108 millj., svo að skv. þeirri ákvörðun, sem enn ríkir, eru niðurgreiðslur áætlaðar 2181 millj., en í fjárlagafrv. eru, eins og ég sagði áðan, 1898 millj. Það var því þörf á, ef niðurgreiðslur hefðu verið óbreyttar, — ákvörðun um þær hefði verið óbreytt, — að hækka niðurgreiðslur í fjárlagafrv. til samræmis við það um 283 millj. kr. Nú leggur ríkisstj. til, að niðurgreiðslur á vöruverði verði lækkaðar um 400 millj. kr. frá fjárlagafrv., en það þýðir, að ríkisstj, hefur í raun og sannleika tekið ákvörðun um að lækka niðurgreiðslur á vöruverði frá því, sem þær eru núna, um hvorki meira né minna en 683 millj. kr., og þessu á svo að velta inn í verðlagið, með þessu á að stefna að stórhækkaðri kaupgreiðsluvísitölu og stefna að aukinni verðbólgu í landinu.

Ég kalla þetta vera meira en kjark hjá hæstv. ríkisstj., mér finnst vera hrein og bein fífldirfska að taka slíka ákvörðun, eins og allt er nú í pottinn búið.

Þegar ríkisstj. tók ákvörðun um lækkun niðurgreiðslna í haust, var sú lækkun í reynd um 187.7 millj. kr. Það voru lækkaðar niðurgreiðslur á dilkakjöti um 76 millj. kr. og lækkaðar niðurgreiðslur á kartöflum sem nam um 111.7 millj. kr. Ég held, að það sé rétt munað, að niðurgreiðsla ríkissjóðs sé nú 8 kr. á kg á alla verðflokka af kartöflum,en var fyrir þessa ákvörðun 18.20 kr. Niðurgreiðsla á dilkakjöti nam á einingu 78.50 kr. eftir þessa lækkun. En það verður fróðlegt að sjá, hvaða ákvarðanir verða teknar, því að ef við tökum þá upphæð, sem hefur verið ríkjandi frá 17. sept. í niðurgreiðslum, þá skiptast þær þannig, að til niðurgreiðslu á dilkakjöti eru í ársútgjöldum áætlaðar 675 millj., á ærkjöti 52 millj., og geymslukostnaður á kjöti er greiddur niður um 83 millj., nýmjólk er 759 millj., smjör 359.5 millj. og ostar eru um 56.2 millj. kr. Þetta eru helstu liðirnir í ársútgjöldum. Það verður fróðlegt að sjá, hvaða stökkbreytingum verðlag landbúnaðarafurða tekur, þegar verður farið að framkvæma þessa nýju ákvörðun um niðurgreiðslur, en nú er niðurgreiðsla á hvern mjólkurlítra um 16.15 kr., svo að það verður að lækka þær verulega og á öllum þessum liðum, og ég er hræddur um, að verðið á smjörinu komi til með að hækka mjög verulega, en niðurgreiðslur á smjörkg eru nú hvorki meira eða minna en 224.70 kr.

Ég býst við því, að ýmsir hæstv. ráðherrar og aðrir þm. stjórnarliðsins hefðu sagt eitthvað, ef það væri önnur ríkisstj. við völd í landinu, sem tæki ákvörðun um svona stórfellda lækkun á niðurgreiðslum á vöruverði. Ég er hræddur um, að það hefði ekki verið sparað stóra letrið í Þjóðviljanum og Tímanum næstu daga, ef það hefði verið gert af ríkisstj., sem var við völd hér á undan, ef hún hefði tekið þessa ákvörðun í slíkri bullandi verðbólgu sem nú er ríkjandi og hefur verið ýtt undir, hreinlega ýtt undir af hæstv. ríkisstj. að magna sem mest í byrjun, þó að ég skuli fúslega játa sem sanngjarn maður, að það eru mörg verðbólguáhrifin, sem eru óviðráðanleg, eru af erlendum toga spunnin. En sennilega er þetta eina ríkisstj. í heiminum, sem sjálf hefur pantað sem mesta verðbólgu og spanað verðbólguna upp á sig, því að allar aðrar hafa þó verið að reyna að hamla á móti, hvort sem þær hafi verið hægri eða vinstri stjórnir. En það var á fyrstu mánuðum þessarar ríkisstj., þegar veislan stóð sem hæst og allt var boðið öllum. (Heilbr.- og trmrh.: Það var þegar við hækkuðum ellilífeyrinn, var það ekki?) Það var búið að taka ákvörðun um það, það var bara framkvæmdaatriði og aurar í kassanum hjá Halldóri til að borga, svo að það þarf ekki að gorta lengur af því.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri í sambandi við niðurgreiðslurnar. Ég sé, að hæstv. heilbr.- og trmrh. er að verða svolítið órór, en hann kemst að sjálfsögðu hér á eftir að með sínar skýringar, ef ég þekki hann rétt, nema hann velji þann kostinn, sem hann er nú farinn að gera töluvert í seinni tíð, að sitja og þegja heldur. (Gripið fram í.) Það er alveg rétt hjá hv. þm., það fer betur á því.

Í fjárlagafrv. eru 20 millj. kr. til uppbóta á línufisk, og er búið að vera í frv. alllengi. Á árinu 1971 nam magn þess fisks, sem veiddur er á línu, 43 621 lest, og þá voru verðuppbæturnar 14.4 millj. kr. Á árinu 1972 var þetta magn mjög svipað eða 43 643 lestir, eða aðeins meira, en uppbæturnar í krónutölu námu 17 millj. 457 þús. kr. Nú á þessu ári er búið að greiða þegar út um 15 millj. kr., og er magnið 37 356 lestir. Ef við lítum á, hvernig þessar uppbætur urðu til og hvað lá á bak við það, þegar þær voru teknar inn í fjárlög, þá var það sú ákvörðun Verðlagsráðs sjávarútvegsins,fiskkaupenda og ríkisvaldsins að hækka nokkuð þann fisk, sem veiddur er á línu, þannig að hann væri borgaður hærra verði en annar fiskur, til þess að stuðla að því, að þessar veiðar drægjust ekki meira saman, því að það hefur orðið ákaflega mikill samdráttur í þessum veiðum, og þessi ákvæði eru tekin upp árið 1966 á þann hátt, að kaupendur greiða ofan á hið lögákveðna verð 25 aura á hvert kg og ríkissjóður aðra 25 aura á móti. Á árunum 1967 og 1968 er þessi upphæð óbreytt frá fiskkaupendum, en ríkissjóður hækkar á árinu 1967 upphæðina upp í 30 aura og á árinu 1968 í 60 aura, en það er það hæsta á kg, sem ríkissjóður hefur greitt. Síðan hefur verið á þessu töluverður tröppugangur, en þó alltaf á sama veg frá hendi fiskkaupenda, að þeir hafa hækkað sinn hluta í uppbótinni úr 25 aurum í 75 aura á þessu ári, þannig að þeir hafa frá árinu 1968 þrefaldað sínar uppbætur, en ríkissjóður hefur aftur frá byrjun, frá 25 aura uppbótinni, hækkað hana í 40 aura. En eins og ég sagði áðan, var hún frá ríkissjóði 60 aurar á árinu 1968. Þegar þar við bætist, að fiskurinn hefur stigið stórkostlega síðan þetta hófst, þá er þetta ekki nema smáupphæð miðað við það, sem var á árunum 1966–1968. En það mun svo vera, að hæstv. sjútvrh. hefur ekki haft neinn áhuga á því að hækka þessar uppbætur, þrátt fyrir það, að þær hafa í raun og veru stórkostlega lækkað. Hann kemur sennilega til með að segja, að þetta mál sé auðvelt að leysa gegnum Verðlagsráð sjávarútvegsins, en það hefur ekki í öll þessi ár verið auðvelt að leysa það á þann hátt. Hins vegar hef ég ekkert á móti því, ef hann getur komið því í kring í sambandi við verðlagningu á fiski um næstu áramót, að þetta mál verði leyst með því, að línufiskur verði verðlagður mun hærra en annar fiskur, og þá skal ég ekkert segja um þetta. En það hefur ekki tekist í öll þessi ár, og ég hef því ekki mikla trú á því, að það takist, jafnvel þótt hæstv. fjmrh. leggi sig allan fram um að leysa málið á þennan hátt. Ég hygg, að það hefði verið hyggilegra að hreyfa þetta eitthvað af mörgum ástæðum, en sennilega vill ríkisstj, velta þessum vanda áfram til næstu áramóta, en það verður skammgóður vermir.

Hv. formaður fjvn. gerði nokkuð að umræðuefni hækkunartill. vegna ríkisspítalanna og skýrði þær mjög greinilega, og þarf ég ekki að endurtaka það að öðru leyti en því, að fyrst var farið fram á af stjórnarnefnd ríkisspítalanna að till. forstöðumanna ríkisspítala að fjölga starfsfólki um 282 starfsmenn á öllum ríkisspítölunum og þar af á Landsspítalanum einum um 106 starfsmenn og Fæðingardeildinni um 90 starfsmenn. Þessi till. forstöðumanna ríkisspítala hefði kostað ríkissjóð, miðað við launin eins og þau voru nú í byrjun des., á ársgrundvelli 96.5 millj. kr. Till. stjórnarnefndar ríkisspítalanna er sú að fjölga starfsmönnum þeirra um 217, sem mundi kosta á ársgrundvelli 67 millj. 340 þús. kr. Í till. fjvn, er lagt til að hækka launin vegna heimildar um nýja starfsmenn um 9 millj. 647 þús., en því til skýringar, að þessi upphæð er ekki hærri, er það, að miðað er við, að flestir þessara starfsmanna verði ráðnir seint á næsta ári. En ef væri miðað við kostnað á ársgrundvelli, mundu þessar starfsmannaráðningar einar kosta um 56.4 millj. kr.

Það er mjög eftirtektarvert í sambandi við rekstur ríkisspítalanna og þá sérstaklega Landsspítalans, að þar eru deildir, sem ekki er hægt að reka vegna manneklu. Höfuðástæðan fyrir því að það eru ónotuð sjúkrarúm á Landsspítalanum mest allt þetta ár, er hjúkrunarkvennaskortur. Það hafa ekki fengist hjúkrunarkonur, vegna þess að þær telja, að mismunur launa með vaktaálagi sé ekki það mikill að þær vilji ráða sig á þann hátt. Hins vegar hafa sagt mér fróðir menn í þessum efnum, að það sé enginn skortur á hjúkrunarkonum, sem vinna á dagvöktum. Þetta ástand er orðið geigvænlegt, og það þýðir lítið og kostar mikið fé að byggja sjúkrahús, ef það á svo að vera í reynd, að mörg rúm séu ónotuð vegna skorts á vinnuafli á sjúkrahúsunum. Ég held, að þetta þurfi að taka til mjög rækilegrar athugunar, en ekki einblína á byggingu nýrra sjúkrahúsa eða stækkun á sjúkrahúsum. Ég held, að frumskilyrðið til að reka þessar stofnanir með eðlilegum hætti sé að nýta þær til fulls, en það er ekki gert, eins og ég hef nú þegar sagt.

Það kom hér fram hjá frsm, meiri hl., að það væru gerðar nokkrar breytingar á fyrirtækjum í B-hluta fjálagafrv. M. a. eru gerðar breytingar á Ríkisútvarpinu, og eru tekjur Ríkisútvarpsins hækkaðar mjög verulega frá því, sem þær eru nú í fjárlagafrv., þannig hugsað, að afnotagjöld hljóðvarps hækki úr 1740 kr. í 2400 kr. á næsta ári, eða á milli 38 og 39%, og auglýsingar hækki um 15%. Þá er einnig hugsað, að afnotagjöld sjónvarps hækki úr 3900 kr. í 5700 kr., eða um 46%, og auglýsingaverð sjónvarps hækki um 11½%. Ég fyrir mitt leyti tel ekki óeðlilegt, að gerðar séu breytingar á tekjum stofnana eins og Ríkisútvarpsins, en það ekki látið viðgangast, eins og gert er á þessu ári, að gerð sé áætlun fyrir þessar stofnanir með stórfelldum rekstrarhalla. Ég er ekki þar með að segja, að það megi ekki finna einhverjar leiðir til þess að draga frekar úr rekstrarútgjöldum þessara stofnana, og það á auðvitað að reyna að gera í flestum tilfellum. En hitt er ekki til neins góðs, að afgreiða fjárhagsáætlanir þessara stofnana með þeim hætti, sem gert var í fyrra. Ég tel, að hér sé farið inn á eðlilegri braut með því að reikna með, að þessar stofnanir standi undir sér á þessu ári.

Það hafa verið gerðar töluverðar breytingar á áætlun Pósts og síma, þannig að með breytt. fjvn. eru laun Pósts og síma komin nokkurn veginn í þá upphæð, sem Póst- og símamálastjórnin hefur áætlað þau, en hún áætlaði launaliðinn, miðað við verðlag í des., 1 milljarð 185.8 millj. kr. Hins vegar er engin breyting gerð á öðrum rekstrargjöldum Pósts og síma, hvorki viðhaldi fasteigna og áhalda né öðrum rekstrargjöldum. Ekkert tillit hefur heldur verið tekið til hækkana, sem orðið hafa á öðrum liðum frá því að fjárlagafrv, var samið, en póst- og símamálastjórnin telur, að miðað við, að þessi áætlun geti staðist, sem hún leggur fram, sé fjárvöntun hennar að upphæð 378.2 millj. kr. En þá er því við að bæta, að Póstur og sími eru með gífurlega mikið fé til framkvæmda, og þær framkvæmdir hafa verið miklar á undanförnum árum. Þær eru margar hverjar samningsbundnar, og það er erfitt að daga verulega úr þeim framkvæmdum, þegar um er að ræða að ljúka sjálfvirka kerfinu í þéttbýli á landinu, og sömuleiðis er mjög mikil ásókn í nýjar framkvæmdir í nýjum hverfum hér á þéttbýlissvæðunum, þó að sjálfsagt sé að reyna að draga hjá þessari stofnun eins og öðrum úr framkvæmdum, eins og frekast er hægt.

Mér finnst ekki úr vegi að minnast aðeins á það, að núv. ríkisstj. ætlaði að bæta mjög hag landsbyggðarinnar og gera aðstöðumuninn minni fyrir þá, sem úti á landi búa, en í sambandi við símagjöldin tók hún upp það snjallræði að setja söluskatt á öll símgjöld í landinu. Það var látið í veðri vaka, að stofnunin ætti sjálf að borga þennan söluskatt, það mundi koma niður á framkvæmdaliðum hennar, þegar það var tilkynnt fyrir 2½ ári, að þetta yrði gert. En raunin varð sú, að þegar söluskatturinn kom á, var honum bætt á reikningana. En ef hæstv. ríkisstj. og aðrir vinir byggðastefnu hafa ekki vitað það, þá ætla ég nú að segja þeim frá því, að þessi söluskattur hefur komið miklu harðar niður á landsbyggðinni en hér á þéttbýlissvæðinu, vegna þess að umframsímtölin, sem eru utan við afnotagjöldin, eru utan Reykjavíkur, Kópavogs og Hafnarfjarðar 158 millj, eða 200% hærri en afnotagjöldin úti á landsbyggðinni, en í Reykjavík og Kópavogi voru umframsímtölin 141 millj. eða aðeins 40% umfram afnotagjöld, og í Hafnarfirði voru umframsímtöl 9 millj. eða um 70% umfram afnotagjöldin. M. ö. o.: umframsímtölin eru í Reykjavík og Kópavogi á árinu 1972 40%, í Hafnarfirði 70%, en annars staðar á landinu 200%. Þar með geta menn séð og þá vonandi skilið, að þetta „patent“ að bæta söluskatti á símgjöldin, sem fyrri ríkisstj. gerði aldrei og datt aldrei í hug að gera, hefur komið tiltölulega þyngst niður á landsbyggðinni.

Það kom hér fram í umr. við fjárlagafrv. við 2. umr., að það væri ævintýri næst sú mikla aukning, sem hefði orðið í byggingu íbúðarhúsa, sérstaklega úti á landsbyggðinni. Vitaskuld taka framkvæmdir alltaf fjörkipp, þegar atvinna er mikil og tekjur manna eru góðar. En ég fór að skoða plagg, sem ég hafði fengið frá hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins, um þær íbúðir, sem hafa verið fullgerðar á tilteknu árabili, eða frá árinu 1960 til og með ársins 1972. Við lestur þessa plaggs verð ég ekki var við neinn ofsalegan fjörkipp, sem fullgerðar íbúðir hafi tekið á þessu tímabili. Þegar teknar eru saman fullgerðar íbúðir í hverju kjördæmi fyrir sig, — það er nánari sundurliðun á hinum ýmsu stöðum í hverju kjördæmi, — þegar teknar eru saman íbúðabyggingar í hverju kjördæmi fyrir sig í kaupstöðum og kauptúnum, þá eru fullgerðar íbúðir í Vesturl. á árinu 1972 71 íbúð, en á árinu 1960, fyrsta heila ári viðreisnarstjórnarinnar, eru fullgerðar íbúðir 78. Fjörkippurinn er sá í því kjördæmi, að úr 78 íbúðum fara þær niður í 71. Á Vestf. voru fullgerðar íbúðir á árinu 1960, sama ári og ég nefndi í sambandi við Vesturland, 45, en fjörkippurinn, sem það tók þar, eru á s. l. ári, 1972, 19 fullgerðar íbúðir. Og í Norðurl. v. verður töluverður fjörkippur. Þar voru aðeins fullgerðar 24 íbúðir á árinu 1960, en þær voru þó á árinu 1965 39, en eru 42 á s. l. ári í því kjördæmi. Norðurl. e. tók nokkurn kipp, þar voru 1960 fullgerðar 117 íbúðir, en 1972 170 íbúðir, en á árinu 1967, sem var ekki mjög hagstætt ár, voru þó fullgerðar í því kjördæmi 160 íbúðir. Á Austfjörðum voru fullgerðar íbúðir 1960 39, en 1972 55, en á árinu 1968 voru fullgerðar íbúðir í Austurlandskjördæmi 83, en ekki nema 55 á s. l. ári. Á Suðurlandi voru fullgerðar íbúðir 1960 85, á s. l. ári 96, en á árinu 1968 voru fullgerðar íbúðir í Suðurlandskjördæmi 107.

Þar eru því ekki stórkostlegir fjörkippir, sem þarna hafa átt sér stað úti á landsbyggðinni. Hins vegar skal ég játa það, að í Reykjaneskjördæmi hefur orðið allveruleg breyting, því að 1960 voru 333 íbúðir fullgerðar, en á s. l. ári 499, og það hefur komist næst því árið 1967, en þá voru 449 íbúðir fullgerðar. Í Reykjavík hefur stökkið orðið langmest. Þar hefur verið farið úr 642 fullgerðum íbúðum í 902 íbúðir, en þar var þó næst því á árinu 1968, fullgerð 871 íbúð, en núna sem sagt 902.

Þegar við lítum á landið í heild, eru fullgerðar 1960 1363 íbúðir, en á árinu 1972 1854. En á árinu 1967 voru þetta 1688 íbúðir. Ég sé því ekki, að a. m. k. fyrir árslok 1972 hafi orðið fjörkippur í íbúðabyggingum úti á landi, eins og sagt var hér við 2. umr. að væri ævintýri líkast. [Fundarhlé]

Ég ætla að koma nokkuð að Fiskveiðasjóði. Það var tiltölulega lítið rætt um stofnlánasjóðina við 2. umr. En ég minnist þess, að í samandi við fsp., sem var til umr. í Sþ, í gær, bar á góma málefni Fiskveiðasjóðs í sambandi við vexti af lánum hans. Mér sýnist, að fjármagnsvöntun Fiskveiðasjóðs sé talin vera á næsta ári 1140 millj. kr., og líklegt er, að fjármagnsvöntun sjóðsins á árinu 1975 verði 1440 millj. kr. og fjármagnsvöntunin á árinu 1976 1740–1800 millj. kr. Allt eru þetta afleiðingar þess, hvað mikið er búið að kaupa af skipum og byggja. Það eru skuldbindingar, sem Fiskveiðasjóður hefur tekið á sig. Hann tekur árlega hluta af erlendum lánum þeirra skipa, sem byggð hafa verið og er verið að byggja, og hann þarf auðvitað að innleysa þau lán eftir ákveðnum reglum.

Mér finnst rétt að minna aðeins á það og þá ekki sist í tilefni þeirra ummæla, sem hæstv. sjútvrh. viðhafði hér í gær, hvernig fjármagnið til Fiskveiðasjóðs er fengið og þá með hvaða kjörum. Varðandi vaxtakjör af þeim lánum, sem tekin hafa verið og verða tekin á þessu ári hjá Framkvæmdastofnun ríkisins, Framkvæmdasjóði, þá hafa verið reiknaðir 12½% vextir af bráðabirgðalánum, sem Framkvæmdasjóður hefur lánað. En lán Fiskveiðasjóðs að öðru leyti á þessu ári eru þau, að hann hefur tekið í íslenskum krónum 567 millj. til 15 ára með 9½% vöxtum. Í öðru lagi hefur hann tekið 256 millj. til 15 ára með 1% lántökugjaldi, vextir eru 12½%, en hækka eða lækka, ef vaxtakjör Framkvæmdastofnunarinnar breytast á nýjum lánum sjóðsins. Í þriðja lagi er hann skuldbundinn til að taka 183 millj. til 12 ára, lántökugjald 1%, með vöxtum 61/4% og vísitöluákvæði byggingarvísitölu samkv. l. nr. 25 frá 1957. Samtals eru þessar lánveitingar á þessu ári 1 milljarður og 6 millj. kr., og eru þá meðtaldar 6 millj. vegna dráttarbrauta, sem haldið er utan við greiðsluáætlun Fiskveiðasjóðs.

Þetta eru í stórum dráttum þau lánakjör, sem Fiskveiðasjóður verður að hlíta í sambandi við það fjármagn, sem hann þarf að taka að láni til þess að endurlána til sjávarútvegsins. En hvernig eru svo lánakjör Fiskveiðasjóðsins? Fiskveiðasjóður lánar vegna skipabygginga, tækjakaupa og þess háttar með 5½% vöxtum og 3/6 hlutum af gengisáhættunni vegna skipakaupa erlendis frá. Þessi erlendu lán eru þannig, að þau breytast á hverjum gjalddaga í Fiskveiðasjóðslán, það sem hefur fallið í gjalddaga erlendis, og þá með sömu kjörum. Til nýbyggingar innanlands á skipum yfir 75 rúmlestir verða kaupendur að taka gjaldeyrislán vegna véla- og tækjakaupa. Dollaralánin eru með 8% vöxtum og til 5 ára, og endurgreiðslu af skipalánum hefur verið dreift niður á 20 ár. Fasteignatryggð lán eru með 7% vöxtum og að 3/5 hlutum gengisákvæði. Frá því í febr. s. l. hafa verið afgreidd vísitölulán, bæði skipalán og fasteignalán, þannig, að af fiskveiðasjóðslánum hefur 1/10 hluti verið vísitölutryggður af öllum lánum yfir 500 þús. kr. Gjaldeyrislán til skipabygginga og innfluttra skipa hafa ekki komið þar til álita, því að þau eru alveg sérstaklega. Rétt er að taka fram, að tekið var í fyrra vísitölulán, sem er ekki enn búið að endurlána að öllu leyti, og sjóðurinn ber áhættuna við breytingu á byggingarvísitölunni. Hafa endurlánin verið bundin þeirri vísitölu, sem í gildi er, þegar lánveitingin fer fram. Nú á að þvinga Fiskveiðasjóð til að taka til viðbótar 183 millj. kr. vísitölutryggð lán á móti 124 millj. kr., sem hann varð að taka á þennan hátt í fyrra. Ég hugsa, að það komi ekki til með að muna miklu, þegar ég segi, að munurinn á þeim lánum, sem Fiskveiðasjóður tekur, og þeim lánum, sem Fiskveiðasjóður lánar, nemi því, að Fiskveiðasjóður muni sennilega tapa á þessu ári nær 100 millj. kr. í mismun á þessum lánskjörum. Þetta kalla ég ekki að tryggja afkomu þessa stærsta lánasjóðs sjávarútvegsins, og hæstv, viðskrh. og sjútvrh. hældi sér af því hér í gær, að hann hefði neitað um vaxtahækkanir á hinum almennu lánum. Sannleikur málsins er sá, að meðan veislan stóð sem hæst hjá núv. ríkisstj. og hæstv. sjútvrh. var hvað sperrtastur og glaðastur, þá lofaði hann á aðilfundi LÍÚ að lækka lán til fiskiskipa og fiskvinnslustöðva, og honum var klappað lof í lófa. Þeir voru mjög ánægðir, útvegsmenn. En hann skýrði ekki jafnhliða frá vísitölulánunum, sem hann ætlaði að koma á. En nú auðvitað sér hann það og sá það um leið og veislunni lauk, að hér var alveg skakkt að farið. Það kom ekki til greina, að það gæti staðist að lækka þessi stofalán, og þá er gripið til þessa.

Þá er einnig því við að bæta, að vaxtakjörin fara versnandi, og það verður hvorki rekin Stofnlánadeild landbúnaðarins, Seðlabankinn né aðrir viðskiptabankar og ekki Fiskveiðasjóður heldur, ef vaxtakjörin eiga að vera þau, að þessar lánastofnanir eigi að taka lán frá hinum og þessum aðilum, bæði utanlands og innan, og lána þau svo aftur út með mun lakari kjörum. Það getur ekki farið nema á einn veg, að annaðhvort verður ríkissjóður að hlaupa undir bagga og rétta hag þessara lánastofnana eða þá þessar lánastofnanir standast ekki slíka lánastarfsemi og verða að hætta. Þetta veit auðvitað hæstv. viðskrh. og sjútvrh. mætavel. Og þegar ríkissjóður er að greiða til Fiskveiðasjóðs framlag, bæði af útflutningsgjaldi og fjárl., þá er því framlagi fremur illa varið, ef það á að étast upp að sennilega 3/5 með því, að sjóðurinn er að lána það fjármagn, sem hann tekur að láni, með mun lakari vöxtum. Ég held, að það sé kominn tími til að endurskoða mjög alvarlega þær lánareglur, sem nú eru þar í gildi, til þess að það fé, sem sjóðurinn hefur yfir að ráða, rýrni ekki. Við höfum þetta dæmi fyrir okkur á öðrum sviðum. Við sjáum það í sambandi við húsnæðislánakerfið. Þar hafa verið tekin vísitölutryggð lán, sem eru tekin með margfalt hærri vöxtum en Byggingarsjóðurinn lánar aftur út. Þetta ést upp á tiltölulega skömmum tíma, og verður því að segja, að séu lítil búhyggindi að starfa á þennan hátt.

Þó að fjárlög séu nú komin í nálægt 30 milljarða, og varð á þeim stórfelld hækkun á s. l. ári einnig, þá er því þannig farið, að Byggðasjóðurinn fær enga hækkun á sínum framlögum. Því er haldið niðri með sömu upphæð að krónutölu og var fyrir tveimur árum. Þrátt fyrir flutning frv. um 2% tekjur af álögðum tekjum ríkissjóðs, má ekki hreyfa þetta á einn eða annan veg. Byggðastefnumennirnir, sem nú eru allsráðandi, mega ekki heyra á það minnst, að það sé reynt að rétta eitthvað hlut Byggðasjóðs, því að ef við lítum á þá breytingu, sem orðið hefur á byggingarvísitölunni bara á einu ári, frá nóv. í fyrra til 1. nóv. s. l., þá hefur byggingarkostnaður hækkað um 33%, en yfirleitt má segja, að fjármagn Byggðasjóðs fari að mjög verulegu leyti til byggingarframkvæmda, fyrst og fremst til skipabygginga, og svo annarra framkvæmda í landinu og þá í mjög ríkum mæli til húsbygginga, til iðnaðar og fiskverkunar og annarra slíkra þarfa atvinnulífsins. Þarna er algerlega daufheyrst við. Það hefur verið reynt að halda þessu máli vakandi í n. frá því í haust, óskað eftir því af mikilli hófsemd að reyna að hreyfa eitthvað framlagið til Byggðasjóðs, og nú á milli 2. og 3. umr. gerði ég og fleiri síðustu tilraun til að óska eftir því, að hér yrði gerð einhver breyting á til hækkunar á framlagi ríkissjóðs til þess að bæta sjóðnum upp þá rýrnun, sem orðið hefur á því fjármagni, sem hann hefur yfir að ráða, vegna verðbólgunnar. Formaður fjvn. kom svo að síðustu með það svar, að það væri ekki möguleiki á því, og þá auðvitað veit maður, hvaðan svarið er komið. Það er frá stjórnarherrunum í ríkisstj., sjálfum byggðapostulunum, sem hafa talað best og mest á undanförum árum um, hvað sé nauðsynlegt að stórauka framlög til byggðamála.

Jú, það vantar ekki, það er starfandi 7 manna þingkjörin n., sem á að vinna að byggðamálum. Það var byrjað mjög myndarlega. Það var talað mjög mikið um, hvað þyrfti að gera, og það þyrfti að fara að áætla þetta og hitt og það þyrfti að stórauka framkvæmdir á öllum sviðum úti á landsbyggðinni. En við vitum, að það þarf peninga. Þeir eru aflið, sem þarf til þess að framkvæma þessar hugsjónir. En svo þegar kemur að því, að það á að fara að framkvæma eða vinna að þessum hugsjónum í alvöru, þá gefast sjálfir byggðapostularnir upp og segja: Hingað og ekki lengra. Fjárl. geta farið upp ár eftir ár um fleiri milljarða á ári, en framlag til Byggðasjóðs skal vera það sama. Ég spyr: Eru allir stjórnarþm. ánægðir með þessa afgreiðslu? Hvað segja nú hinir minni postular byggðastefnunnar, þegar stóru postularnir í ráðherrastólunum haga sér svona? Eru þeir ánægðir? Ætla þeir að sætta sig við þessa afgreiðslu? Mér finnst eðlilegt, að það sé spurt að því.

Eins og ég gat um hér við 2. umr., tel ég, að það þyrfti að breyta algerlega um vinnubrögð í sambandi við gerð fjárl. Ríkisstj. á hverjum tíma þarf fyrst og fremst að gera sér grein fyrir því, hvað hún telur, að það sé eðlilegt og jafnframt skynsamlega að afla mikilla tekna, taka miklar tekjur af landsmönnum hvert ár fyrir sig, skipta svo útgjöldunum eftir málaflokkum, og þegar það er gert, þá verður stjórnarliðið að sameinast um það og leita samstarfs við stjórnarandstöðu að afgreiða fjárlög innan þess ramma, en ekki byrja á því að ákveða þetta mörg hundruð millj. í þetta og þetta mörg hundruð millj. í hitt, því að þá koma alltaf fram menn, sem styðja ríkisstj., og segja: Við viljum ekki leggja í þessar framkvæmdir eða þessi framlög. Við viljum taka upp annað, sem þeir benda á. En það hefur verið þannig hjá þessari ríkisstj., að hún hefur alltaf byrjað á því að lýsa yfir, hvað hún ætli að gera mikið í þessu og hinu. Svo hafa aðrir komið til, sem styðja ríkisstj., og sagt: Við sættum okkur ekki við, að það sé gengið fram hjá þessu hugsjónamáli okkar, þessu bráðnauðsynlega máli, og þá hefur því alltaf verið bætt við. Þannig hafa fjárl. farið upp úr öllu valdi. Þannig hefur verið þanin verðbólgustefna í þjóðfélaginu og enginn fengið við neitt ráðið, vegna þess að það hefur ekki verið breytt um vinnubrögð á þennan hátt.

Ég hef bent á það í ræðu minni, að vantalin útgjöld í launum sem við sjáum þegar, eru alveg örugglega ekki undir 520 millj. kr. Það er sjáanlegt, að ef ekki fæst önnur skýring í sambandi við fjölskyldubæturnar en sú, að það eigi að halda sér áfram við að greiða 15 þús. kr. með hverju barni, þá vantar örugglega 160–170 millj. inn í fjárlagafrv. Þannig eru þarna í þessum tveimur liðum, launalið og í sambandi við fjölskyldubæturnar, um 700 millj. kr., sem vantar inn í fjárlagafrv. Þar við á svo eftir að bæta áhrifum, sem verða af almennum kaupgjaldssamningum, sem væntanlega verður frá gengið í byrjun næsta árs eða kannske fyrr, ég veit það ekki, og hafa auðvitað í för með sér margvíslegar hækkanir fyrir ríkisbúskapinn í heild. Ég tel líka mjög eftirtektarvert, að nú við 3. umr. koma fram nýjar framkvæmdir, sérstaklega í orkumálum og til jarðvarmaframkvæmda. Út af fyrir sig er ég samþykkur því, að það sé aukið við þessar framkvæmdir, vegna þess ástands, sem skapast hefur, og ég er sammála hæstv. ríkisstj. í því að auka þessar framkvæmdir til muna frá því, sem verið hefur. En ég er ekki sammála ríkisstj. í því, að jafnhliða eigi ekki að hreyfa við neinu öðru, sem áður var búið að áforma. Það verður einhvers staðar að draga úr, ef ekki á að þenja svo áfram og taka svo mikið vinnuafl til opinberra framkvæmda, að það verði skortur á vinnuafli við framleiðslustörfin í landinu. Þá verður að draga annars staðar úr.

Nú segja þessir menn: Hvað vill stjórnarandstaðan, hvað á að gera? Hvernig á að draga úr? Og hvar á að ráðast á framkvæmdir til þess að draga úr, vegna þess að við erum sammála um það, bæði stjórn og stjórnarandstaða, að það eigi að auka framlög til orkumála og jarðvarmaframkvæmda? Ég segi fyrir mitt leyti, að ég hefði talið, að það hefði verið eðlilegt, sjálfsagt og skylt, bæði stjórnarflokkum og stjórnarandstöðu, að setjast niður og fá tíma til að draga annars staðar úr. Það er ekki hægt að gera það með þeim hraða, sem er í fjvn., í öllu því starfi, sem hún verður að inna af hendi á stuttum tíma. En það hefði verið hægt og verið skynsamlegt af ríkisstj. að leita til stjórnarandstöðunnar um það og spyrja: Eruð þið sammála um, að við frestum afgreiðslu fjárl. og látum nefnd starfa, á meðan Alþ. er í jólafríi, til þess að gera till. um lækkanir á öðrum framkvæmdum, gera jafnframt till. um lækkanir á öðrum þeim liðum, sem fært þætti að lækka í fjárlagafrv., og leggja niður fyrir sér þá skyndilegu og fljótfærnislegu ákvörðun, sem ríkisstj. hefur tekið í sambandi við minnkandi niðurgreiðslur á vöruverði, sem hefur í för með sér enn meiri verðbólgu en verið hefur, og var þó nóg af henni fyrir í okkar landi. Þetta hefði ég talið, að hefði verið skynsamlegt að gera og ná samkomulagi um, því að ég held, að þó að oft beri mikið á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, þá vilji báðir aðilar, þegar allt kemur til alls, reyna að ná saman og gera það, sem er skynsamlegast fyrir þjóðfélagið í heild.

Ég vil svo ljúka þessum orðum með því að lýsa því yfir, að ég tel fyrir mitt leyti og við í 1. minni hl. fjvn., að þessi fjárlög séu mjög óraunhæf, eins og ég hef fært rök að í ræðu minni, og þau séu nánast pappírsfjárlög, sem Alþ. er ætlað að afgreiða á morgun. Ég harma þessi vinnubrögð og hefði óskað, að sá háttur, sem ég gerði áðan að umræðuefni, hefði verið tekinn upp, og það er enn þá tækifæri til þess, ef ríkisstj. vill afgreiða fjárlög, sem eru raunhæf og byggð á viðtæku samstarfi allra alþm.