19.12.1973
Sameinað þing: 39. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1627 í B-deild Alþingistíðinda. (1487)

1. mál, fjárlög 1974

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég ætla að segja hér örfá orð til þess að mæla fyrir brtt., sem ég flyt ásamt öðrum þm. í Norðurl.v. Því miður er hún ekki komin enn úr prentun, en er væntanleg nú á næstunni. Hún er við heimildagrein fjárl. og er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 6. gr. bætist:

Þar sem fyrir liggur að auka hlutafé í Þormóði ramma h/f úr 40 millj. í 100 millj. kr., er heimilt að auka hlutafjáreign ríkisins, svo að hún verði áfram hin sama og áður eða 70%.“

Það þarf sjálfsagt ekki að segja þm. það, að Þormóður rammi er hlutafélag á Siglufirði. Þessa heimild hefur ríkisstj, fyrir sitt leyti þegar samþykkt. En fyrir vangá láðist að koma þessu inn á heimildagreinina, áður en fjvn. hafði gengið frá sínu starfi. Þessi brtt. er flutt í samráði við fjmrh. og ég hygg, að mér sé óhætt að segja, einnig form. fjvn.

Þessa till. þarf í sjálfu sér ekki að rökstyðja með mörgum orðum. Það er öllum kunnugt, að þau aðalatvinnufyrirtæki, sem rekin voru á Siglufirði af ríkinu, Síldarverksmiðjur ríkisins, lögðust í dá og voru í dái mörg ár, og m. a. til að bæta úr því vandræðaástandi, sem þar var, var horfið að því að ráði að stofna hlutafélag, sem aðallega er í eigu ríkisins og Siglufjarðarbæjar. Er gert ráð fyrir, að þetta verði allstórt fyrirtæki á íslenskan mælíkvarða. Það er að byggja nýja, stóra, myndarlega fiskvinnslustöð. Það á að fá tvo skuttogara til að gera út, hefur þegar fengið annan og hinn er væntanlegur á næstunni. En það hefur sýnt sig, að þær áætlanir, sem gerðar voru í upphafi um þörf á stofnfé í þetta fyrirtæki, hafa ekki staðist, og þörf á meira fé í þessu efni. Í fjárl. einmitt í þessum lið, er gert ráð fyrir 20 millj, kr. hlutafjáraukningu af hálfu ríkisins, sem er þannig til komin, að þetta félag fær afhent það frystihús, sem Síldarverksmiðjurnar ráku áður. En þrátt fyrir það, að hlutaféð aukist um það, þarf þar til viðbótar að koma nokkur upphæð, sem gæti þurft að vera framlag á næsta ári í reiðufé.

Ég vona, að ég þurfi ekki að tefja hv. þm. með því að tala lengur um þetta mál eða rökstyðja þá beiðni, sem þarna er um að ræða, meir, en læt máli mínu lokið.