19.12.1973
Sameinað þing: 39. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1629 í B-deild Alþingistíðinda. (1489)

1. mál, fjárlög 1974

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég kem hér upp í ræðustólinn til að mæla fyrir brtt., sem er í prentun og hefur því miður enn ekki verið útbýtt. Till. þessi er við 4, gr. frv., liðinn: Til blaðanna skv. nánari ákvörðun ríkisstj. að fengnum till. stjórnskipaðrar n., og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Liðurinn orðist svo:

a) Til kaupa á blöðum: Til kaupa á 400 eintökum af dagblöðum 9 millj. og 600 þús. b) Til kaupa á aðalmálgögnum Frjálslynda flokksins og Samtraka frjálslyndra og vinstri manna 1 millj. og 400 þús. c) Til kaupa á kjördæmisblöðum 4 millj.“

Til vara flyt ég till. um það, að í stað 32 millj, eins og liðurinn er nú í frv., komi 20 millj.

Ég lét þess getið við 2. umr. frv., að mér blöskraði, þegar það kom fram við þá umr., að till. voru uppi um að hækka framlög til blaðanna úr 18 millj. kr. í 32 millj. Enda þótt það mál hafi verið afgr. við 2, umr., vil ég freista þess við 3. umr. að fá þessu breytt í nýtt horf frá því, sem er í gildandi fjárl. yfirstandandi árs og í fjárlagafrv. fyrir næsta ár. Stefnubreytingin í þessu er fólgin í því, að þau framlög, sem ríkið leggur til í þessu skyni, gangi beint til kaupa á blöðum og þessum blöðum verði dreift í opinberar stofnanir, fyrst og fremst sjúkrahús og skóla, þar sem fólk í þessum stofnunum getur lesið þau og notið blaðanna, en ekki verði framhald á þeirri stefnu, sem nú hefur verið upp tekin, að með þessum hætti verði farið að styrkja á fjárl. stjórnmálastarfsemi í landinu. Ég lít svo á, að ef þessi liður er eins og nú er í fjárlagafrv., gangi féð beinlínis til styrktar stjórnmálastarfsemi og til styrktar blaðaútgáfu flokkanna í landinu, og á þessu er mikill munur. Ef á að taka það upp hér á landi að styrkja stjórnmálaflokkana, hvort sem það er beint til almennrar starfsemi þeirra eða til þess að flokkarnir geti staðið að því að gefa út málgögn sín, þá hygg ég, að eðlilegt væri að setja um slíka aðstoð ríkisins sérstök lög. Þau lög hafa ekki verið sett. Ég tel algerlega óeðlilegt, að fjármagn sé veitt á fjárl. ríkisins og því ráðstafað í þessu skyni eftir ákveðnum till., sem hæstv. ríkisstj, hefur úrslitavald um, hvernig með verður farið. Þessi aðalstefnubreyting felst í þeirri till., sem ég hef hér flutt ásamt hv. 3. þm Sunnl.

Í annan stað er hér um mjög verulega lækkun að ræða á þessum lið, úr 32 millj, í 15 millj. kr. Í ræðu minni við 2. umr. fjárl. gat ég þess, að það væri dæmigert fyrir þá eyðslustefnu, sem ríkti hjá valdhöfum þjóðfélagsins í dag, að nokkrir úr forustuliði þeirra, sem halda um stjórnartaumana, skyldu henda inn slíkri till. eins og þeirri, er þá var samþ., á kvöldfundi, þegar flestir þm. voru horfnir úr þingsalnum, og afgreiða hana án þess að hirða um að mæla fyrir henni og gefa tilefni til umræðna.

Það er næsta fátítt, að fluttar séu sparnaðartill. við fjárlagaafgreiðslu. Ég lít á þessa tilraun sem prófstein um það, hvort slíkur tillöguflutningur hefur nokkuð að segja eða ekki. Þessar till. er prófsteinn á Alþingi, hvort það þýðir yfirleitt að flytja till. til lækkunar við afgreiðslu fjárlaga. Hv. alþm., sumir hverjir, hafa látið í ljós, að þeim ógni það skrið, sem er á fjárlögunum í átt til hækkunar, og er ég einn í þeirra hópi. Ef eitthvað mark á að taka á slíkum ummælum, ætlast ég til þess, að þeir hinir sömu menn samþykki þá till., sem hér er flutt.

Til nánari skýringar á till. sjálfri vil ég geta þess, að hún gerir ráð fyrir því, að keypt séu 400 eintök af dagblöðunum og þeim dreift í þær ríkisstofnanir, sem ég hef þegar getið um. Hér er fjölgun eintaka frá því, sem verið hefur, um 100, því að til þessa hafa ekki verið keypt nema 300 eintök af dagblöðum. Til samræmis við þetta er ætlað í sérstökum lið fjármagn til að kaupa aðalmálgögn Frjálslynda flokksins og SF, en þar er um vikublöð að ræða og geta ekki fallið undir liðinn, sem um dagblöðin fjallar. Í þriðja lagi, geri ég ráð fyrir því, að 4 millj. kr. verði varið til að kaupa svokölluð kjördæmisblöð, þ. e. oft vikublöð eða blöð gefin út á eins eða tveggja mánaða fresti í hinum ýmsu kjördæmum landsins af öllum stjórnmálaflokkum. Það fé, sem till. gerir ráð fyrir, að til þeirra kaupa renni, er einnig 1 millj. kr. meira en það fjármagn, sem varið var til styrktar þessum blöðum á yfirstandandi ári. Hér er því vel séð fyrir því að ætla fjármagn til kaupa á þessum blöðum, og þrátt fyrir það lækkar þessi liður skv. till. um 17 millj. kr. frá því, sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir nú.

Hér er því að mínu mati um mjög sjálfsagða till. að ræða og eðlilega. Það er unnt að halda uppi þeirri þjónustu, sem veitt hefur verið frá hendi ríkisins með blaðakaupum, og auka við hana frá því, sem hefur verið til þessa, en þrátt fyrir það er gert ráð fyrir að lækka útgjöld ríkisins um 17 millj. kr.

Ég skal ekki orðlengja þetta miklu meir. Ég vil aðeins geta þess, að ég vonast til þess mjög einlæglega, að þessi till. verði samþ., og tel, eins og ég raunar hef þegar sagt, að það sé sjálfsagt mál. Fari hins vegar svo, að hv. stjórnarliðar vilji halda fast við eyðslustefnu sína í þessu atriði langt umfram það, sem nokkur ástæða sýnist vera til. hef ég til vara flutt till. um, að þessi liður lækki þó úr 32 millj. kr. í 20 millj. kr.

Ég vil að síðustu ítreka það, að þessi till. er nokkurs konar prófsteinn á vilja hv. Alþingis, hvort það þýði yfir höfuð fyrir einstaka þm. að flytja till. til lækkunar við afgreiðslu fjárl. Verði þessi till. felld, hlýtur það að skoðast svo, að sá meiri hl., sem ræður ríkjum hér á hv. Alþingi, óski ekki eftir því, að einstakir þm. geri till. um að lækka útgjöld ríkisins. Það hlýtur að blasa við bæði hv. Alþingi og þjóðinni í heild, að sá stjórnarmeirihl., sem heldur um stjórnvölinn, kýs ekki, að útgjöld ríkisins séu lækkuð, þótt með ljósum rökum sé sýnt fram á, að unnt sé að lækka útgjöld ríkisins, en samt að bæta þá þjónustu, sem veitt hefur verið.