19.12.1973
Sameinað þing: 39. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1636 í B-deild Alþingistíðinda. (1493)

1. mál, fjárlög 1974

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég leyfði mér við 2. umr. þessa máls að flytja hér lítilfjörlega till. til hækkunar á fjárveitingu til Íþróttasambands Íslands, sem nam um 10 millj. kr. Ég fylgdi þessari till. úr hlaði með nokkrum orðum og sýndi fram á þau augljósu rangindi, sem fram komu í því, að ekki hafði verið gert ráð fyrir neinni hækkun til íþróttahreyfingarinnar að þessu leyti. Nú hefur það gerst, að milli umr. hefur fjárveitingin verið hækkuð um 2 millj. kr. Ég lít svo á, að þessi hækkun sé að nokkru leyti árangur af þeirri till., sem ég flutti hér við 2. umr., og að hæstv. fjmrh. og fjvn. hafi orðið ljóst, að ekki varð komist hjá því að veita nokkurt fé til þessarar starfsemi.

Nú vil ég taka fram, að ég lít svo á, að þessi hækkun sé allsendis ófullnægjandi. Hún nær ekki einu sinni þeirri beiðni, sem barst frá Íþróttasambandi Íslands, og ég tel, að það sé fyrir löngu kominn tími til, að fjárveitingavaldið meti störf þessarar hreyfingar að verðleikum og það séu ekki skornar niður hóflegar og sanngjarnar fjárbeiðnir frá íþróttahreyfingunni, þegar þær berast. Ég vakti athygli á því við 2. umr. og vek enn athygli á því, að þetta fé, sem á að renna til Íþróttasambands Íslands samkv. fjárl., er skipt á öll sérsamböndin innan íþróttahreyfingarinnar, svo og deilt út til héraðssambanda, ungmennafélaga og einstakra íþróttafélaga, þannig að þarna er ekki um að ræða neinn skrifstofu- eða rekstrarkostnað Íþróttasambandsins sjálfs, heldur fé, sem rennur til starfsemi og rekstrar íþróttahreyfingarinnar allrar.

Ég held, að bæði mér og öðrum hafi verið ljóst, að sú till., sem ég flutti, átti nokkurn hljómgrunn meðal þm. og þá ekki síður hjá þm., sem styðja hæstv. ríkisstj. Þeir áttuðu sig á, að hér var um réttlætismál að ræða, og því, sem betur fer, hafa, eins og fyrr segir, hæstv. ráðh. og fjvn. séð sér þann kost vænstan að hækka nú fjárveitinguna um 2 millj. kr., og ber að sjálfsögðu að þakka þá hækkun, þótt hún sé allsendis ófullnægjandi.

Ég tel hins vegar nú, að það sé fullreynt að fá þessu frekar þokað upp á við og því tiltölulega þýðingarlaust að flytja till. um enn frekari hækkanir. Ég er ekki sérlega gírugur í að flytja hér till., sem fyrir fram eru vonlausar eða vonlitlar, og mun því ekki taka upp till. mína frá 2. umr.

Þetta var fyrst og fremst erindi mitt hingað í ræðustól, að tjá þingheimi þetta, því að ég hafði dregið till. til baka til 3. umr. og mátti því vera von á henni við þessa umr.

Ég vil segja það að lokum, að ég tel, að tillöguflutningur minn hafi engu að síður borið þann árangur, að fjárveiting var örlítið hækkuð. En sú hækkun er meir til að bjarga andliti hæstv. ríkisstj. heldur en að leysa þann vanda, sem íþróttahreyfingin á við að glíma.