19.12.1973
Neðri deild: 48. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1653 í B-deild Alþingistíðinda. (1501)

152. mál, tollskrá o.fl.

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég tel rétt að gera hér í hv. d. með örfáum orðum grein fyrir afstöðu þingflokks Alþfl. til þessa mikilvæga máls nú þegar við 1. umr.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Alþfl. var á sínum tíma mjög fylgjandi aðild Íslands að EFTA, enda fór hann með viðskiptamál í þáv. ríkisstj., þegar aðild Íslands að EFTA var undirbúin og samþykkt. Sjálfstfl. var einnig mjög fylgjandi aðild Íslands að EFTA. En aðeins einn núv. stjórnarflokka studdi aðildina, þ. e. SF. Alþb. var aðildinni andvígt, eins og kunnugt er, og Framsfl., flokkur núv. hæstv. forsrh., sat hjá, þegar atkv. voru greidd um aðild Íslands að málinu.

Sem betur fer hefur þó komið í ljós, eftir að núv. ríkisstj. var mynduð, að bæði Framsfl. og Alþb. virðast hafa gert sér grein fyrir því, að afstaða þeirra til málsins var röng á sínum tíma, andstaða við aðild að EFTA var röng afstaða, hlutleysi varðandi þetta mál var líka röng afstaða. Þess vegna hefur núv. ríkisstj. ekki beitt sér fyrir því, að Ísland gengi úr EFTA eða losaði tengsl sín við það, heldur hefur haldið áfram óbreyttri stefnu fyrrv. ríkisstj. í málinu, og ber að sjálfsögðu að fagna því.

Þegar Ísland varð aðili að EFTA gekkst það undir ákveðnar skuldbindingar til tollalækkunar. Meginefni þess frv., sem hér er um að ræða, er að standa við þær skuldbindingar, sem gengist var undir varðandi tollalækkun. Um það bil 1/3 þeirrar tollalækkunar, sem frv. gerir ráð fyrir og má telja kjarna frv., stendur í beinu sambandi við samning Íslands við EFTA og skuldbindingar, sem landið tók á sig til viðbótar með aðild sinni að hinu stækkaða Efnahagsbandalagi, eftir að helstu EFTA-ríkin gengu í Efnahagsbandalagið á sinni tíð.

Það var ávallt gert ráð fyrir því við undirbúning EFTA-aðildarinnar og skýrt tekið fram, þegar málið var lagt fyrir Alþ. á sínum tíma, að eðlilegt væri, að í kjölfar lækkunar á verndartollum vegna EFTA- aðildarinnar sigldi einnig lækkun á tollum gagnvart öðrum ríkjum til samræmis, til þess að óeðlilegur tollamunur skapaðist ekki í viðskiptum Íslands við EFTA-löndin og lönd Efnahagsbandalagsins síðar og við önnur lönd hins vegar. Næstum 2/3 hlutar þeirrar tollalækkunar, sem gert var ráð fyrir, eru framkvæmd á þessari stefnu. Ég get lýst því yfir fyrir hönd Alþfl., að hann er einnig þessari meginstefnu fylgjandi, þ. e. a. s. að lækka tolla gagnvart öðrum ríkjum en þeim, sem eiga aðild að hinu stækkaða Efnahagsbandalagi, til samræmis við lækkaða tolla gagnvart þeim löndum, sem eiga aðild að hinu stækkaða Efnahagsbandalagi. Og það er fullkomlega eðlilegt, að í kjölfar þess eða, jafnhliða því, sem verndartollar lækka á fullunnum vörum frá viðskiptabandalagslöndunum, séu einnig lækkaðir tollar á hráefnum og vélum frá þeim og frá öðrum löndum, til þess að samkeppnisaðstaða íslensks iðnaðar skerðist ekki, heldur helst að hún geti batnað. Af þessum sökum er Alþfl. fylgjandi meginstefnu þeirri, sem lagt er til að fylgt verði í tollafrv.

Að vísu olli það mikilli undrun í haust og hefur valdið vaxandi undrun í þinginu í vetur, að ekkert skyldi heyrast frá hæstv. ríkisstj. um tollalækkanir í kjölfar EFTA-samningsins og samningsins um aðild að hinu stækkaða Efnahagsbandalagi. Það var vitað, hvenær tollalækkanir okkar kæmu til framkvæmda samkv. þegar gerðum samningum á sínum tíma, og þess vegna hlaut líka að vera vitað, hvenær nauðsynlegt væri að gera hliðstæðar lækkanir á hráefnatollum og vélatollum vegna lækkunarinnar á tollum á fullunnu afurðunum. Ekkert bólaði samt á till. af hálfu hæstv. ríkisstj. um þetta efni. Nú hefur verið upplýst í fjh.- og viðskn., að ríkisstj. hóf ekki endurskoðun á tollskránni af þessum sökum fyrr en um miðjan ágúst s. l., sem auðvitað var allt of seint hafist handa, enda kom í ljós, að það var kominn miður des., þegar till. að nýrri tollskrá vegna margra ára gamallar EFTA-aðildar voru lagðar fyrir hið háa Alþ. Þetta eru að sjálfsögðu algerlega óforsvaranleg vinnubrögð, algerlega óverjandi háttalag af hálfu hæstv. ríkisstj. Ég minnist þess ekki að Alþ. hafi verið ætlað að fjalla á einum 10 dögum um gagngera endurskoðun á tollskránni eða í raun og veru um nokkurt mál, sem hliðstætt geti talist jafnflóknu viðfangsefni og næstum algerri endurskoðun á tollskránni. Það hefðu því að sjálfsögðu verið eðlileg vinnubrögð af hálfu stjórnarandstöðunnar að neita algerlega að taka þátt í slíkum leik sem hér væri bryddað á.

Engu að síður varð niðurstaðan hjá stjórnarandstöðunni að láta málefnið ekki gjalda herfilegrar vanrækslu þeirra ráðh., sem nú sitja við völd í landinu. Það er augljóst hagsmunamál íslensks iðnaðar, að hráefnatollar og vélatollar verði lækkaðir samtímis því, sem lækkaðir eru tollar á fullunnum afurðum frá þeim löndum, sem við erum í viðskiptabandalagi við. Þess vegna höfum við tekið í mál að stuðla að því, að málið geti orðið afgreitt í báðum d. Alþ., áður en Alþ. fer í jólaleyfi, þó að ég endurtaki, að slíkt heyri til einsdæma, a. m. k. í síðari tíma sögu þingsins, þeirrar sem núv. þm. þekkja til.

Í upphafi virtist hæstv. fjmrh. gera sér algerlega grein fyrir þessu. Ég sé enga ástæðu til annars en láta það koma fram hér, að hæstv. fjmrh. hafði samband við formenn stjórnarandstöðuflokkanna og spurðist fyrir um hugsanlega samvinnu þeirra við afgreiðslu málsins með óvenjulegum hætti á óvenjulega skömmum tíma vegna eðlis málsins, vegna þeirrar nauðsynjar, sem væri á því, að iðnaðurinn fengi þá tollalækkun, sem gert er ráð fyrir í frv., að hann fái. Hæstv. fjmrh. tók skýrt fram, að hann gerði sér grein fyrir því, að það væri vonlaust að afgreiða málið nema í samstarfi á milli stjórnar annars vegar og stjórnarandstöðu hins vegar. Hann gerði sér algerlega ljóst, að stjórnarandstaðan hefði það fullkomlega í hendi sinni að hefta framgang málsins, ef hún kærði sig um, eins langt og liðið væri á starfstíma þingsins á þessu ári. Og hæstv. ráðh. var ekki skilinn öðruvísi en þannig, að honum dytti ekki í hug að knýja fram afgreiðslu málsins, ef það væri stjórnarandstöðunni þvert um geð, enda hefði hún algerlega í hendi sinni að hindra afgreiðslu málsins, ef henni sýndist svo.

Hæstv. fjmrh. fékk að vita, að við í stjórnarandstöðuflokkunum gætum vegna hinna óvenjulegu aðstæðna og eftir atvikum og þrátt fyrir vanrækslu hæstv. ríkisstj. fallist á að samþykkja tollalækkunarfrv., eins og það var lagt fyrir Alþ. í upphafi. Hins vegar hreyfði hæstv. fjmrh. jafnframt í viðtali við okkur þeirri hugmynd, að söluskattur yrði hækkaður um 1 stig til að mæta þeim tekjumissi, sem samþykkt tollalækkunarfrv. hefði í för með sér. En hann fékk að vita það af hálfu beggja stjórnarandstöðuflokkanna, að sú hugmynd væri okkur þvert um geð. Af hálfu Sjálfstfl. var skýrt tekið fram, að hann teldi enga þörf á neinni tekjuhækkun vegna samþykktar frv., vegna þess að sumpart væri gert ráð fyrir tekjuaukningu í núv, fjárlagafrv., sem næmi 200–250 millj, kr., og auk þess mætti búast við því, að innflutningur á næsta ári yrði svo miklu meiri en gert var ráð fyrir í þeim tölum, sem þá lágu fyrir í fjárlagafrv., að óþarfi væri að hækka söluskatt vegna samþykktar þessa frv.

Af minni hálfu var fyrir hönd Alþfl. tekið fram, að við vildum í sjálfu sér ekki útiloka hækkun á söluskatti um ½ stig eða 1 stig í framhaldi af samþykkt jafn mikilvægrar tollalækkunar og hér væri um að ræða, en við teldum, að hvorki ætti að blanda umr. né atkvgr. um breytingar á söluskatti saman við sjálfa tollalækkunina. Við ættum ekki að blanda breytingu á söluskatti saman við lagasetningu um tolla. Það væri eitt, hverjir tollarnir skyldu vera, hitt væri annað, hver söluskatturinn skyldi vera. Þessu tvennu ætti ekki að blanda saman. Auk þess væri vitað, að fyrir dyrum stæðu væntanlega meiri breytingar á söluskatti en það að hækka hann einfaldlega um eitt stig eins og fjmrh. hafði nefnt, að hann óskaði helst eftir. Ráðh. var hvort eð er búinn að boða nýtt frv. um söluskatt um innheimtu söluskattsins, auk þess sem vitanlegt er, að ekki er ósennilegt, að hækka þurfi söluskattinn enn þá meira eftir nýár af öðrum ástæðum en þessum. Auk þess hafa hugmyndir verið uppi um að breyta þeirri tilhögun, þeirri reglu, sem nú gildir um tillit til söluskatts eða áhrif söluskatts á kaupgreiðsluvísitölu.

M. ö. o:: allt söluskattsmálið var á þeirri stundu, sem við ræddum við hæstv. fjmrh., og er enn í dag opið. Ríkisstj. hefur fyrirætlun um að breyta l. um söluskattinn sjálfan. Það liggur í loftinu, að breyta þurfi upphæð hans meira en unnt hefur verið í sambandi við þetta frv., og það liggur líka í loftinu. Það er til umr. að breyta áhrifum söluskattsins á útreikning kaupgjaldsvísitölu. Allt þetta gerir að verkum, að það hlýtur að teljast í hæsta máta óeðlilegt að tengja lítið brot af þessu viðfangsefni við afgreiðslu tollafrv., sem nú er hér til 1. umr.

Þó að við í Alþfl. viljum ekki á þessari stundu í grundvallaratriðum útiloka, að komið geti til mála að breyta upphæð söluskattsins vegna tollabreytinga, ef athugun sýnir, að ríkissjóður þarf á þeim tekjum að halda, getum við hugsað okkur, að einhver breyting á söluskatti sé eðlileg og eigi að geta komið í staðinn fyrir lækkun á tollum, erum við ekki reiðubúnir til að ræða málið eða taka afstöðu til þess í sambandi við tollalagabreytinguna sjálfa. Við teljum, að söluskattsmálið eigi að ræða í heild, hvað söluskattur eigi að vera hár, eftir hvaða reglum hann skuli innheimtur og hver áhrif hann skuli hafa á kaupgreiðsluvísitöluna. Þetta höfum við látið hæstv. fjmrh. vita, að við séum ekki til umr. um breytingu á söluskatti í sambandi við tollalagafrv.

Báðir stjórnarandstöðuflokkarnir hafa tilkynnt hæstv. fjmrh., að þeir séu ekki til viðræðu um breytingar á söluskattinum í sambandi við tollafrv., þó að þeir hafi gert það á ólíkum forsendum, hvor með sínum rökum. Þessa stefnu okkar höfum við síðan báðir staðfest við atkvgr. í hv. Ed. Það er þegar komið fram þar, að stjórnarandstöðuflokkarnir háðir eru andvígir því, að söluskattsmálinu sé blandað inn í tollamálið.

Þrátt fyrir þær yfirlýsingar, sem hæstv. fjmrh. hafði gefið okkur formönnum stjórnarandstöðuflokkanna á sínum tíma, að honum kæmi ekki til hugar að reyna að þröngva málinu í gegnum Alþ. gegn vilja stjórnarandstöðuflokkanna, hefur hann samt sem áður beitt sér fyrir því í hv. Ed., að tekið væri upp í frv. ákvæði um eins stigs hækkun á söluskatti, vitandi, að það er þvert gegn vilja beggja stjórnarandstöðuflokkanna. Það hefur m. ö. o. gerst þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. fjmrh., að stjórnarflokkarnir í Ed. hafa gegn atkv. stjórnarandstöðuflokkanna samþ. tollalagafrv. með mikilvægri breytingu, sem er gerð í fullkominni andstöðu við stjórnarandstöðuna. Nú er málið komið til hv. Nd., og nú er ekki aðeins um það að ræða, að hér séu fulltrúar Sjálfstfl. og Alþfl., heldur er hér einnig fulltrúi nýs flokks, Frjálslynda flokksins, hv. þm. Bjarni Guðnason, sem hefur lýst yfir opinberlega, að hann sé andvígur hækkun á söluskatti, hvernig svo sem hún yrði rökstudd, og hefur sagt, að þetta eigi við þá hækkun söluskattsins, sem hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir, að ákvæði um yrði tekið í tollalagafrv. í hv. Ed. Það þarf því engan reiknimeistara til þess að sjá og gera sér algerlega ljóst, að allt bendir til þess, að hv. Nd. sé andvig söluskattshækkuninni, þótt öll d. sé í sjálfu sér samþykk tollalækkuninni. M. ö. o.: það bendir allt til þess, að svo muni fara við atkvgr. við 2. umr. hér í hv. Nd., að sú söluskattshækkun, sem naumur meiri hl. var fyrir í Ed., nái hér ekki samþykki og falli, að gr. um söluskattshækkunina falli hér í hv. Nd. með jöfnum atkv., þ. e. með 20:20 atkv. Það er eins gott að gera sér grein fyrir þessum staðreyndum þegar við 1. umr. málsins.

M. ö. o.: það stefnir í þá átt við atkvgr. á morgun, að hæstv. ríkisstj. lendi í minni hl. hér í hv. Nd. Þetta eru engar getgátur, það liggja fyrir um þetta skýlausar yfirlýsingar og atkvgr. af hálfu Sjálfstfl. og Alþfl. í Ed. og skýlausar yfirlýsingar af hálfu þm. Frjálslynda flokksins, Bjarna Guðnasonar, sem á sæti í þessari d. Ríkisstj. og hv. Alþ. veit því nákvæmlega, að hverju er verið að ganga í atkvgr. um málið á morgun. Þess vegna vil ég leyfa mér í lok þessara orða minna að beina þeirri fsp. til hæstv. fjmrh., — ég mundi beina henni til hæstv. forsrh., ef hann væri í d., — ef hann er hér nálægur, þá vona ég, að hann heyri, (Gripið fram í: Hann er hérna til vinstri.) Mér er sama, hvor hæstv. ráðh. svarar fsp., ég tek sama mark og jafnmikið mark á þeim báðum, en fsp. mín er sú, hvernig ríkisstj. hyggist bregðast við, ef hún lendi í minni hl. hér í hv. Nd. á morgun. Þetta er einföld og skýr fsp., en hún er mikilvæg, og ég óska eindregið eftir því að fá við henni skýrt og einfalt svar. Ég dreg enga dul á þá skoðun mína, að samkv. þingræðisvenjum ætti ríkisstj. að segja af sér þegar í stað, ef hún hefur orðið í minni hl. hér í hv. Nd. í jafnmikilvægu máli og hér er um að ræða. Það er skoðun mín, að hún ætti að gera það. Ég geri mér hins vegar ljóst, að hugsanlegt er, að hún geri það ekki, hún vilji heldur taka því, að frv. nái ekki fram að ganga, en að segja af sér. En óþingræðisleg vinnubrögð teldi ég slíkt vera. Nauðsynlegt er fyrir alla hv. þdm., fyrir Alþ. í heild og þjóðina alla að vita, hvernig ríkisstj. hyggst bregðast við í þeirri aðstöðu, sem hún fyrirsjáanlega lendir í á morgun. Hún hlýtur að hafa gert sér grein fyrir þessu. Hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. hlýtur að vera ljóst, hvernig málin standa hér í þessari hv. d., og ég trúi því ekki, að ábyrgðarleysið eða alvöruleysið sé slíkt, að það hafi ekki verið hugleitt, hvernig ætti að bregðast við. Ætla þeir að taka því að lenda í minni hl. hér í d. í máli eins og þessu? Mundu þeir taka því, ef frv. félli hér í hv. Nd.? Mundu þeir sitja samt? Það er nauðsynlegt fyrir þessa d., fyrir þingið í heild og þjóðina alla að fá glögg svör um fyrirætlun hæstv. ríkisstj. í þessu efni.