19.12.1973
Neðri deild: 48. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1658 í B-deild Alþingistíðinda. (1503)

152. mál, tollskrá o.fl.

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. svaraði fsp. þeirri, sem hv. 7. þm. Reykv. beindi til hans áðan, en ég held, að svar hæstv. ráðh. hafi ekki verið þannig, að það hafi mátt átta sig á því, hvað ríkisstj. hygðist gera, ef t. d. þetta frv. félli í þessari hv. d. Hann gaf hins vegar í skyn, að málið væri ekki búið að fá afgreiðslu hér á þingi, þó að ákveðin brtt., sem sett var inn í frv. í Ed., næði ekki fram að ganga. En ég tók ekki betur eftir en að hv. 7. þm. Reykv. spyrði hæstv. forsrh. líka að því, hvað ríkisstj. mundi gera, ef frv. t. d. félli. Þeirri spurningu svaraði ekki hæstv. forsrh., því tóku menn eftir. Hann sagði hins vegar réttilega sem sína skoðun, að þetta frv. mætti skoða betur, og ég er hræddur um, að það mætti athuga þetta frv. miklu betur. Ég held, að það væri ráð, að hann sem forsrh. sinnar ríkisstj. beitti sér fyrir því, að þetta mál fengi betri og lengri athugun hér í þingi en ríkisstj. hefur gert ráð fyrir.

Frv. um tollskrá er mikið mál. en þetta frv. hefur aðeins legið fyrir Alþ. í nokkra daga, og það virðist ætlun ríkisstj. að koma þessu máli fram fyrir jólaleyfi. Það er vissulega í samræmi við önnur vinnubrögð hjá hæstv. ríkisstj., að hún ætlar hv. Alþ. aðeins vikutíma til skoðunar og afgreiðslu á þessu máli. Það er ekki gert ráð fyrir, að frv. í raun og veru fái nokkra athugun. Það er gert ráð fyrir því, að annar eins lagabálkur og tollskrá er gangi í gegnum sex umr, á sex virkum dögum. Frv. um tollskrá er ekkert smámál, sem lítinn tíma þarf til athugunar og er í sjálfu sér ekki margbrotið. Þvert á móti er hér um að ræða mjög viðamikið mál. sem þarfnast gaumgæfilegrar skoðunar. Ég minnist þess, þegar tollskrá lá síðast fyrir Alþ., var var til meðferðar á þinginu 1969–1970, rétt áður en Ísland gerðist aðill að Fríverslunarbandalagi Evrópu. Það frv., sem lá fyrir Alþ., flutt af þáv. ríkisstj., fékk mjög gaumgæfilega athugun af þeirri n., sem málinu var vísað til, og það er ekki úr vegi að rifja það upp, að þegar það frv. var síðan hér til 2. umr., voru ekki samþykktar nokkrar brtt. við það, það voru ekki fluttir við það nokkrir tugir brtt., það voru samþykktar við það nokkur hundruð brtt. (Gripið fram í: Það hefur verið vel undirbúið.) Því hefur alltaf verið haldið fram um tollskrá, þegar hún hefur verið til umr. á Alþ., að hér væri um málefni sérfræðinga að ræða og væri ekki fyrir venjulega alþm. að skoða tollskrá og athuga hana. (Gripið fram í: Eða óbreytta ráðh.) Ég tala nú ekki um. En þessu var ekki til að dreifa 1970, þegar tollskráin lá hér fyrir. Þá fengu alþm. tækifæri til þess að skoða hana, þvert á móti því, sem núv. ríkisstj. ætlar að gera. Ég man ekki betur en flest þau þing, þegar núv. ríkisstjórnarflokkar voru í stjórnarandstöðu, væri uppi hér á Alþ. meiri eða minni gagnrýni á þáv. ríkisstj., hversu nauman tíma Alþ. fengi til að athuga hin ýmsu mál. Ég veit ekki, hvað þessi vinnubrögð, sem hér eru viðhöfð, hefðu verið kölluð af núv. stjórnarflokkum, þegar þeir voru í stjórnarandstöðu.

Tollskrárfrv, er ekkert öðruvísi frv. en önnur frv., sem fyrir Alþ. liggja og Alþ. á að fjalla um. Þetta frv. á að sjálfsögðu að fá athugun eins og önnur þau frv., sem Alþ. er ætlað að fjalla um, en ekki að hér verði Alþ. gert að einhvers konar afgreiðslustofnun ríkisstj, og heilir lagabálkar látnir renna hér í gegn, án þess að menn fái tækifæri til að skoða þá.

Ég vil láta þessa gagnrýni koma fram við 1. umr. þessa máls. Það var upplýst áðan af hv. 7. þm. Reykv., hver vinnubrögð núv. ríkisstj: hefðu verið í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir. Þeim ráðh., sem mest fjalla um tollskrána, þ. e. a. s. hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskmrh., var báðum fyllilega ljóst, að fyrir þau áramót, sem nú koma senn, þyrfti Alþ. að ganga frá tollskrá vegna aðildar okkar að Fríverslunarbandalagi Evrópu og vegna samnings okkar við Efnahagsbandalag Evrópu. En það er eins og hv. 7. þm. Reykv. benti á, það er fyrst í ágúst, sem farið er að vinna að því að semja tollskrárfrv., sem allir vissu, að þurfti að fá afgreiðslu hér fyrir jólaleyfi. Endurskoðun á tollskrá, sem er vissulega margslungin, átti að taka og tók embættismenn ríkisstj. þrjá mánuði. Síðan er frv. lagt fyrir Alþ., og á einni viku eiga alþm. að skoða þetta mál og samþykkja það. Þessi vinnubrögð eru vissulega með þeim hætti, að ástæða er til að gagnrýna þau og vekja athygli á þeim.

Ég er ekki með þessum orðum mínum að ræða um efni frv. né afstöðu til þess. Ég vildi fyrst láta koma fram þá gagnrýni, sem ég hef nú haft uppi. Með aðild Íslands að Fríverslunarbandalagi Evrópu og síðan með samningi við Efnahagsbandalag Evrópu gengust Íslendingar undir ákveðnar skuldbindingar um lækkun aðflutningsgjalda af innfluttum vörum frá aðildarríkjum þessara viðskiptabandalaga, og á móti fengu Íslendingar mjög veigamikil hlunnindi. Hefur EFTA-samningurinn þegar sannað gildi sitt, og vonandi reynist raunin hin sama varðandi samningana við Efnahagsbandalagið.

Tollskrárfrv., sem hér liggur fyrir, er m. a. einn þáttur í því, að við stöndum við þá samninga, sem við höfum gert við þessi tvö bandalög. Við sjálfstæðismenn munum greiða fyrir því, að sá hluti þessa frv., sem er til þess að fullnægja þeim samningum, sem við höfum gert, nái fram að ganga með skjótum hætti þrátt fyrir þá annmarka, sem eru á undirbúningi og afgreiðslu þessa máls hér. Við viljum, að það verði staðið við gerða samninga við Fríverslunarbandalag Evrópu og Efnahagsbandalag Evrópu. Við viljum, að tollar á hráefnum og vélum íslensks iðnaðar verði lækkaðir, og við viljum líka lækka ytri tolla, þar sem þess er þörf af viðskiptaástæðum. Og eins og ég sagði áðan og hæstv. ríkisstj. veit frá viðtölum hæstv. fjmrh. við formenn stjórnarandstöðunnar og komið hefur fram í hv. Ed., mun stjórnarandstaðan leitast við að koma fram þeim þáttum þess frv., sem að þessu snúa. Þannig var frv. flutt í hv. Ed., að það fjallaði eingöngu um þessi þrjú atriði, sem ég vék að og lýsti yfir stuðningi okkar sjálfstæðismanna við.

Áður en málið kom til umr. í Ed., hafði, eins og kom fram í ræðu hv. 7. þm. Reykv., hæstv. fjmrh. rætt þá hugmynd við stjórnarandstöðuna, að inn í þetta frv. yrði skotið bráðabirgðaákvæði, sem fjallaði um tekjuöflun til handa ríkissjóði til að standast þann tekjumissi, sem þetta frv. gerði ráð fyrir, þ. e. a. s. hækkun á söluskatti um 1%. Þá þegar var hæstv. fjmrh. gerð grein fyrir því, hver væri afstaða Sjálfstfl. og Alþfl. til þess máls. Engu að síður er flutt í Ed. að tilhlutan stjórnarflokkanna brtt. við frv. þess efnis, að ríkisstj. fái heimild til að leggja á til þess að bæta sér upp þann tekjumissi, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, að ríkissjóður verði fyrir, 1% söluskattshækkun.

Það kemur fram í grg. frv., hvernig tekjumissir ríkissjóðs er fundinn og reiknaður út. Þar er gert ráð fyrir, að þetta frv., þ. e. a. s. tollaskrár, þýði 615 millj. kr. tekjumissi fyrir ríkissjóð. Hins vegar er þegar kominn inn í fjárlagafrv. hluti af þessari upphæð, þannig að raunverulega, ef sú upphæð er dregin frá, þá er hér ekki um að ræða nema rúmlega 300 millj. kr. tekjumissi fyrir ríkissjóð, miðað við tolltekjur ársins 1972 og fram til miðs árs 1973. Það liggur í hlutarins eðli, að tolltekjur ríkissjóðs 1974 verða mun meiri. Áætlun um þær hefur að vísu verið hækkuð í fjárlagafrv., en það má tvímælalaust reikna með því, að þær verði þeim mun meiri, að það verði enginn tekjumissir fyrir ríkissjóð, þegar búið er að taka inn í fjárlagadæmið á 3. hundrað millj. kr., enda er hér ekki um að ræða annað en heimildarákvæði fyrir ríkisstj., sem sýnir, hvernig hugsanagangurinn þar er. Hér er að vísu ekki talin brýn nauðsyn, en ríkisstj. vill gjarnan fá heimild til að leggja 650 millj. kr. til viðbótar á þjóðina, og það á sjálfsagt að nota þá peninga til einhvers allt annars.

Eins og ég gat um áðan, munu sjálfstæðismenn í þessari hv. þd. reyna að stuðla að framgangi frv., en í þeirri mynd, sem frv. var lagt fyrir þingið. Við munum að sjálfsögðu í stjórnarandstöðunni flytja brtt. um, að það ákvæði, sem var sett inn í Ed., verði fellt niður. Ég geri ráð fyrir því, að þegar málið hefur verið skoðað í hv. fjh.- og viðskn. d., verði sú till. flutt, en ég á ekki von á því, að það verði nein töf af hálfu stjórnarandstæðinga á því, að n. geti afgreitt málið.