19.12.1973
Neðri deild: 50. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1670 í B-deild Alþingistíðinda. (1535)

102. mál, veiðar með botnvörðu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Á þskj. 306 hef ég ásamt hv. 8. landsk. þm, leyft mér að flytja brtt. við þetta frv. Er hún við 2. gr. F. 2 og er þess efnis, að í stað orðanna „6 sjómílur“ komi: 9 sjómílur. Ég ætla að leyfa mér að fara um hana aðeins örfáum orðum.

Í grg. með frv., eins og það var lagt fram í haust, er rætt nokkuð um Breiðafjörðinn sérstaklega, og segir þar á þessa leið m. a.:

„Togveiðiheimildir skipa stærri en 350 rúmlestir eru í frv. skertar nokkuð frá því, sem nú er, og er hér sem annars staðar miðað við, að skip af þessum stærðarflokki stundi ekki togveiðar nær landi en 12 sjómílur miðað við grunnlínu. Þó er í frv. heimild fyrir þessi skip til togveiða inn að 9 sjómílum utan við grunnlínu í Kolluál á svæði, sem afmarkast“ eins og þar segir.

Þarna hefur því verið um frávik frá hinni almennu reglu að ræða, sem fiskveiðilaganefndin setti, að því er Breiðafjörð snerti, með því að heimila þessum stóru og afkastamiklu skipum að fara lengra inn í fjörðinn en sú regla hljóðaði um, sem þeir fylgdu yfirleitt umhverfis landið. Þessi afstaða hv. fiskveiðilaganefndar hefur mætt mikilli andstöðu breiðfirskra sjómanna og útvegsmanna, og þeir sendu þm. Vesturl. einróma áskorun um, að þeir sæju svo um, að skip stærri en 350 brúttórúmlestir fengju ekki veiðiheimild innan 12 sjómílna frá grunnlínupunkti út af Breiðafirði og Faxaflóa. Brtt. þessa efnis flutti ég við 2. umr. málsins í þessari hv. d. ásamt 8. landsk. þm. og 5. þm. Vesturl. Við meðferð málsins á þingi og í sjútvn. deildanna er nú svo komið, að ekki aðeins hefur þessi till. okkar verið felld, heldur gengið lengra en í upphaflega frv. greindi, þannig að hin stórvirku togskip eru nú komin inn að 6 sjómílum í Kolluál.

Þessu viljum við ekki una án þess að fá tilraun gerða a. m. k. til að færa þó þessa reglu til samræmis við það, sem sett var fram í frv., eins og það hljóðaði, þegar það var lagt fram s. l. haust. Tilgangur okkar flm. með þessari brtt. er að færa ákvæðin um þessi efni í sama horf og þau voru í frv., þegar það var lagt fram og frá því gengið af fiskveiðilaganefnd. Þessi ákvæði eru frávik frá hinni almennu reglu, sem hliðsjón hefur verið höfð af í fiskveiðilaganefnd, sbr. grg., eins og ég vitnaði í áðan. Það er viðurkennt, að ákvæði þessa frv. byggjast á margbreyttum sjónarmiðum og málamiðlun milli ólíkra hagsmuna. Er það von okkar flm., að hv. alþm. geti fallist á þessa miðlunartill., sem er, eins og ég áður sagði, shlj. frv., eins og það var lagt fram hér í hv. d. í haust.

Ég vil svo, áður en ég lýk máli mínu, fara örfáum orðum um brtt. á þskj. 311, þ. e. a. s. till. fjögurra hv. þm., þar sem hv. 10. þm. Reykv. er i. flm. Þeir gera enn tilraun til að fella niður ákveðna mgr. úr 10. gr. frv. Það er hvorki staður né stund nú til að vitna til þeirra mörgu og merku manna, sem börðust fyrir friðun Faxaflóa á sínum tíma, og skal ég ekki gera það. En af því að hv. talsmaður þessarar till. var hér áðan að vitna í einhvern gamlan fund, þá ætla ég að leyfa mér að vitna í fréttir af nýjum fundi, sem snerta þessa till. dálítið. Það er 26. þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, sem slitið var í Reykjavík s. l. laugardag og hafði þá staðið í 4 daga. Það eru fregnir af þessum fundi í dagblaðinu Þjóðviljanum, ég held í dag, þar sem er viðtal við Guðmund Kjærnested, nýkosinn forseta samtakanna. Segir svo í þessari grein eða frétt á einum stað, með leyfi hæstv. forseta:

„Á þinginu var fjallað um kjaramál, öryggismál, menntamál og vitamál. Margar ályktanir voru samþykktar. Í einni þeirra er lýst undrun þingsins á ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur um að skora á Alþ. að opna Faxaflóa fyrir dragnóta- og togveiðum. Þingið álítur enga ástæðu til slíkra leyfa, heldur beri að friða flóann áfram fyrir slíkum veiðum.“

Þetta er frétt af 26. þingi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands s. l. laugardag, eins og ég sagði. Með hliðsjón af þessu og mörgum fleiri rökum legg ég til. að brtt. á þskj. 311 verði felld. En ég get að lokum tekið fram, að ég er fylgjandi till., sem hv. 4. þm. Austf. flytur í þessu máli.