19.12.1973
Neðri deild: 50. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1672 í B-deild Alþingistíðinda. (1537)

102. mál, veiðar með botnvörðu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég stend upp til þess að lýsa afstöðu minni til tveggja brtt., sem hér liggja fyrir. Það er annars vegar till. frá hv. þm. Pétri Sigurðssyni o. fl. um að opna aftur Faxaflóa fyrir dragnótinni. Þetta mál hefur verið til umr. hér áður, og ég hef lýst andstöðu minni gegn því. Ég verð að segja það, að hv. þm. Pétur Sigurðsson flutti snjallt mál, eins og hann er vanur, í sambandi við þessa till. Þó fannst mér hann ganga nokkuð langt í röksemdafærslunni, þegar hann vildi gefa í skyn, að þeir, sem fylgdu strangari reglum um friðun, gætu jafnvel átt sök á sjóslysum fyrir það, að menn yrðu að sækja lengra fiskinn, sem fólk krefst að fá í soðið. Þetta er að mínum dómi vægast sagt hæpin röksemdafærsla og ekki heldur smekkleg.

Þetta er reyndar sama röksemdafærslan og við höfum heyrt af hálfu Breta í sambandi við landhelgismál okkar. T. d. þegar við færðum út í 12 mílurnar, skömmu eftir að það var gert, varð alvarlegt slys við Grænland, það fórst þar breskur togari, og bresku blöðin voru uppfull af því, að þessi togari hefði ekki farist, ef Íslendingar hefðu ekki fært út í 12 mílur, því að þá hefði hann verið nær landi hér á Íslandsmiðum og getað leitað vars. Ég verð að segja það, að ég er dálítið hissa á hv. þm. Pétri Sigurðssyni að beita slíkum röksemdum. Það er að sjálfsögðu alltaf nokkur hætta í því fólgin að fara á sjó, og það er hægt að ganga svo langt að segja, að þeir, sem krefjast þess t. d. að fá í soðið hér í Reykjavík, þeir, sem mér skilst, að Pétur Sigurðsson beri helst fyrir brjósti í þessu sambandi, séu að stofna mönnum í lífshættu með því.

Hin till. er flutt af tveimur hv. þm. Vesturl., Friðjóni Þórðarsyni og Benedikt Gröndal. Ég styð þá till. eindregið. Þetta er mál, sem varðar mjög hagsmuni útgerðarmanna og sjómanna á Snæfellsnesi. Hv. þm. Sverrir Hermannsson sagði áðan um fiskveiðilaganefndina, að hún hefði þvælst um landið og dregið sérviskuna upp úr fólki. Það þarf yfirleitt ekki að draga sérviskuna upp úr fólki. En í þessu samb. vil ég geta þess, að Snæfellingar felldu sig út af fyrir sig við það, að sú lína, sem hér er um að ræða, væri miðuð við 9 sjómílur, en ekki 12, en það fylgir með, að þeir verða að sæta smækkun á því hólfi, sem þeir höfðu leyfi til að veiða í á hinum minni bátum, minni togskipum. Þar að auki er þetta hólf þannig að sögn þeirra þar vestra, botninn er þannig, að mjög illa hentar til togveiða.

Ég hef þær fregnir vestan af Snæfellsnesi núna, að eigendur báta af þessari stærð, sem ég var að tala um, væru þegar farnir að hugleiða að losna við þessa báta, vegna þess að þeir gætu ekki haft af þeim nema mjög takmörkuð not, þegar þetta frv. væri orðið að lögum. Ég persónulega hef fylgt friðun þar vestra, er mikill stuðningsmaður hennar, en ég vil taka fram, að ég átti ekki von á því, að þeir fengju stóru togarana eins nærri sér og gert er ráð fyrir samkv frv., eins og það liggur fyrir. Ég held, að það sé engin ósanngirni af hálfu Snæfellinga, þó að þeir fengju línuna færða út aftur úr 6 mílum í 9. Hér er um að ræða samtals um 20 báta, og í smáu plássunum þar vestra skiptir útgerð þeirra að sjálfsögðu miklu máli. Ef henni verður alveg hætt, getur það orðið töluvert áfall fyrir þessi byggðarlög. Þessir bátar eru gerðir út frá Grundarfirði og Ólafsvík, ég hygg, allir, ég held, að það sé enginn frá Hellissandi eða Stykkishólmi, en fyrir þessi tvö byggðarlög mundi þetta verða mikið áfall. (Gripið fram í: Hvað er áfall?) Það er áfall fyrir þá, að þessi svæði á Breiðafirðinum eru takmörkuð og allt óhagstæðara með að stunda togveiðar fyrir þessi skip. En svo fá þeir stóru togarana miklu nær sér, og þar af leiðandi er þetta þeim mun meira áfall fyrir útgerð yfirleitt á Snæfellsnesi.

Hitt kemur svo til greina, eins og þeir eru reyndar að hugleiða þar vestra nú þegar, að fara fram á það í staðinn, að viss svæði verði friðuð fyrir öðrum veiðum en línu og netum. Það er reglugerðaratriði, sem kynni kannske, ef sett yrði, að bæta nokkuð úr fyrir þeim eftir þá útreið, sem þeir fengju af þessu ákvæði ef það verður samþykkt hér.

Ég vil lýsa yfir eindregnum stuðningi við brtt. þeirra hv. þm., Friðjóns Þórðarsonar og Benedikts Gröndal.