20.12.1973
Neðri deild: 51. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1686 í B-deild Alþingistíðinda. (1571)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég tek ekki ummæli hv. þm. Bjarna Guðnasonar of alvarlega. Ég veit, að þau eru mælt af nokkru fljótræði og vonbrigðum. Það er orðið lýðum ljóst, að aðaláhugamál þessa hv. þm. er að koma núv. ríkisstj. frá og stuðla þannig að því, að aftur hefjist til valda „viðreisnarstjórn“ á ný. Ég óska honum til hamingju með það hlutverk, sem hann er byrjaður að leika í íslenskum stjórnmálum.

Ég skal svara spurningu hans skýrt. Stjórnin mun sitja áfram og bíða og ekki víkja nema fyrir vantrausti. En það vantraust fær hv. þm. tækifæri til þess að bera fram, þegar þing kemur saman að jólaleyfi liðnu. Þá fær hann tækifæri til þess að sýna alþjóð enn þá betur, hvert er orðið aðaláhugamál hans í íslenskum stjórnmálum og hvaða erindi hann hefur átt inn í íslensk stjórnmál. (BGuðn: Vill ekki stjórnin biðja um traust?)