21.01.1974
Neðri deild: 52. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1699 í B-deild Alþingistíðinda. (1591)

168. mál, lífeyrissjóður sjómanna

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson). Herra forseti. Frv. til l. um lífeyrissjóð sjómanna var lagt fram á síðasta þingi, en hlaut þá ekki afgreiðslu.

Upphaf þeirrar endurskoðunar, sem gerð er með þessu frv., er sú, að hinn 12. sept. 1968 fól þáv. félmrh. Guðjóni Hansen tryggingafræðingi athugun á þessu máli samkv. þál. Alþ. frá 17. apríl 1968. Þetta verk var hafið í nóv. 1968, en skömmu síðar hófust viðræður útvegsmanna og bátasjómanna um aðild hinna síðarnefndu að sjóðnum, og náðist samkomulag um það efni milli þessara aðila í febr. 1969. Vegna óvissu um, hvernig aðild bátasjómanna yrði háttað og hvaða breytingu yrði að gera á lögum sjóðsins í því sambandi, var endurskoðuninni slegið á frest, en n. skipuð til að semja lagafrv., er lyti að aðild bátasjómanna að lífeyrissjóðnum.

Þær breytingar, sem um er að ræða í lagafrv. þessu, eru í fyrsta lagi, að elli-, örorku- og makalífeyrir sjóðsins miðast nú við meðaltal launa, sem iðgjöld hafa verið greidd af, síðustu 10 starfsár sjóðsfélaga. Lífeyrisgreiðslur þessar haldast því óbreyttar að krónutölu. Í frv. er gert ráð fyrir, að ofangreindar lífeyrisgreiðslur verði úrskurðaðar með tilliti til kauplags undanfarinna 5 ára og enn fremur verði á 5 ára fresti tekin um það ákvörðun með hliðsjón af fjárhagsstöðu sjóðsins, hvort og að hve miklu leyti áður úrskurðaðar lífeyrisgreiðslur skuli fylgja almennum kaupbreytingum næsta 5 ára tímabil. Slíka ákvörðun skal taka í fyrsta sinn fyrir árslok 1974, en til þess tíma hækkar lífeyrisgreiðslan sjálfkrafa. Tekur þetta einnig til núverandi lífeyrisþega og hefur í för með sér verulega hækkun greiðslna til þeirra. Barnalífeyrir miðast eins og áður við lífeyrisfjárhæð almannatrygginga, en gert er ráð fyrir greiðslu til 18 ára aldurs í stað 16 ára. Þar sem ekki er gert ráð fyrir hækkun iðgjalda til sjóðsins né öðrum ráðstöfunum til eflingar honum, er gildi ofangreindra breytinga að verulegu leyti háð fjárhagsafkomu hans. Sökum þess, hve margir hafa á undanförnum árum hætt þátttöku og skilið eftir hluta vinnuveitenda, er fjárhagur lífeyrissjóðs sjómanna á hinn bóginn nú traustari en fjárhagur fjölmargra annarra lífeyrissjóða.

Annað atriðið er, að vegna sveiflna í aflabrögðum og afkomu sjómanna á fiskiskipum svo og vegna þess, að síðustu starfsárin er afkoman oft mun lakari en fyrr á starfsævinni, getur núverandi viðmiðun við meðallaun síðustu 10 ára sjóðsfélaga reynt mjög óhagstæð, og stytting tímabilsins bætir ekki úr skák að þessu leyti. Í frv, er gert ráð fyrir, að úr þessum annmarka verði bætt með því að umreikna iðgjöld hvers árs í stig og fá þannig grundvöll lífeyrisréttinda. Njóta sjóðfélagar þá góðs af háum iðgjaldagreiðslum, hvenær sem þær hafa átt sér stað á starfsævinni.

Samkv. núgildandi l. er 10 ára iðgjaldagreiðslutímabil að jafnaði skilyrði fyrir rétti til elli- og örorkulífeyris. Í frv. er gert ráð fyrir 5 ára lágmarkstíma með tilliti til ellilífeyris og þriggja ára tíma með tilliti til örorkulífeyris.

Samkv. núgildandi 1. er réttur til ellilífeyris bundinn við 65 ára aldursmark. Í frv. er gert ráð fyrir heimild til töku lífeyris frá 60 ára aldri, enda hafi hlutaðeigandi lengi stundað sjómennsku og sé ekki löngu hættur því starfi.

Þetta eru aðalbreytingarnar, sem felast í frv., sem liggur nú fyrir til 1. umr.

Síðan frv. þetta var lagt fram, hefur stjórn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands átt fund með ríkisstj., þar sem hún hefur lagt fram brtt. til viðbótar því, sem rætt er um í þessu frv. Þær brtt. munu einnig vera samdar af Guðjóni Hansen tryggingafræðingi. Og í sambandi við þær umr., sem ríkisstj. átti við stjórn Farmanna- og fiskimannasambandsins, kom einnig til umr. að verðtryggja lífeyrissjóð sjómanna betur en felst í því, sem hér er lagt til. Ég hef sent þessar ábendingar Guðjóni Hansen tryggingafræðingi til frekari umsagnar, en hann hefur enn ekki lokið þeim útreikningum, sem þarf í sambandi við frv. Ég mun hins vegar afhenda n. þeirri, sem fær þetta mál til meðferðar, þær ábendingar, sem stjórn Farmanna- og fiskimannasambandsins lét ríkisstj. hafa í sambandi við þetta mál, og enn fremur láta athuga betur fjárhagshlið málsins og láta þn. þá athugun í té.

Það er mjög áríðandi, að þetta frv. geti orðið afgreitt á þessu þingi, og ég treysti því, að svo verði, enda hygg ég, að hér sé á ferðinni mál. sem ekki orki tvímælis og ekki verði nein flokkaskipting um.

Ég legg svo til herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.