22.01.1974
Sameinað þing: 44. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1709 í B-deild Alþingistíðinda. (1599)

Umræður utan dagskrár

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Nú þegar meira en hálft ár er liðið, frá því að endurskoðun herstöðvasamningsins hófst, er þetta mál augljóslega komið á nýtt stig. Nú höfum við Íslendingar í fyrsta sinn, frá því að samningurinn var gerður, einhliða rétt til að segja samningnum upp. Við höfum átt í samningum við Bandaríkjamenn um það, hvort þeir vildu fallast á þá stefnu íslensku ríkisstj., að herinn hyrfi af landi brott. Þessir samningar hafa þó ekki borið árangur, og hlýtur því óðum að líða að því, að ríkisstj. afli sér stuðnings Alþ. við þá stefnu, að samningnum verði sagt upp.

Herstöðvamálið er tvímælalaust eitt stærsta mál íslenskra stjórnmála. Það er ekkert launungarmál, að núv. ríkisstj. stendur og fellur með því, að henni takist að leysa þetta mál á farsælan hátt. Það er heldur ekkert launungarmál. að innan ríkisstjórnarflokkanna eru skiptar skoðanir um nokkur atriði þessa máls. Það er stefna Alþb., að herinn hverfi sem fyrst af landi brott, herstöðvarnar séu með öllu lagðar niður og Ísland hverfi úr Atlantshafsbandalaginu og það sé ekki á nokkurn hátt fjötrað í hernaðarkerfi stórveldanna í austri eða vestri. Aftur á móti er það stefna ríkisstj., samkomulagsstefna stjórnarflokkanna allra, að jafnframt því sem herinn hverfi úr landi, verði Íslendingar áfram í NATO. Á þessu tvennu er að sjálfsögðu nokkur munur. Af þessu leiðir, að um leið og herstöðvamálið er tekið til úrlausnar, verðum við að ákveða, hvaða rétt Atlantshafsbandalagið eigi að hafa á Keflavíkurflugvelli, ef um einhvern rétt á að vera að ræða, þegar bandaríski herinn er farinn, og þá einkum um það atriði, hvort þá og með hvaða hætti Atlantshafsbandalagið eigi að hafa lendingarrétt á Keflavíkurflugvelli fyrir flugvélar bandalagsins.

Hér er ekki tími til að ræða þetta mál. Um þetta mál hljóta að verða almennar umr. í þinginu að skömmum tíma liðnum, er endanlegar ákvarðanir verða teknar. En ég vil aðeins segja að lokum, að sjaldan höfum við orðið vitni að öðrum eins hamagangi og móðursýki og nú geisar á síðum Morgunblaðsins, alveg sérstaklega, vil ég segja. Hálfrotnaðar áróðurslummur úr dánarbúi McCarthys hafa verið dregnar fram í dagsljósið nú síðustu dagana, og þetta hefur verið borið á borð fyrir íslenska lesendur til þess að reyna að hræða frá þeim vitið. Ég tel, að það sé sorglegt til þess að vita, að íslenskir menn skuli nú fara hamförum til þess að reyna að fá landa sína til að krefjast þess, að á Íslandi verði erlendur her um aldur og ævi, og ég tel, að það sé gott til þess að vita, að í landinu er nú ríkisstj., sem fékk umboð meiri hl. þjóðarinnar í síðustu kosningum til þess að losa þjóðina við leifar kalda stríðsins, hinn erlenda her, sem engin sjálfstæð þjóð má sætta sig við, að nái varanlegri fótfestu í landi sínu.